22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Frsm. meiri hl. (Alfreð Gíslason bæjarfógeti):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað frv. þetta og rætt það á nokkrum fundum, og eins og nál. á þskj. 422 segir, náðist ekki eining innan n. og klofnaði hún um málið. 4 nefndarmanna voru sammála um að mæla með samþykkt frv., að áskildum rétti til flutnings brtt. eða stuðnings við þær brtt., sem fram kynnu að koma. Ég sé nú, að útbýtt hefur verið í d. brtt. frá einum nm., sem undirritaði nál, meiri hl., Óskari Jónssyni, en það í sjálfu sér breytir ekki aðalefni frv. Hins vegar hafði einn nm. talið síg andvígan því, að frv. yrði samþ. í því formi, sem það er, og áskildi sér rétt til að flytja við það gagngert brtt. og sérálit.

N. taldi sjáifsagt og rétt, að leitað væri upplýsinga um það, hvaða verðmæti ríkissjóður væri hér að láta af hendi endurgjaldslaust, og gerði því fyrirspurn til landbrn. um stærð jarðarinnar, jarðargæði og húsakost, og mun ég til fróðleiks hv. dm. geta um það helzta, sem í því svari ráðuneytisins felst.

Land staðarins mun vera um 1800 hektarar að stærð og nær allt grasi vaxið. Sumt af því er mjög auðræktanlegt, en annað erfitt til ræktunar. Húsakostur jarðarinnar er íbúðarhús, fjárhús fyrir 350 fjár, fjós fyrir 20 kýr auk mjólkurhúss, hesthús yfir 6 hesta, auk þess hlöður fyrir téðan búpening, þ. á m. 2 votheysgryfjur við fjóshlöðu, verkfærahús um 200 fermetrar að stærð. Flest af þessu eða allt af þessu nema fjárhúsið eru vandaðar byggingar. Auk þessa er svo prestsbústaður og kirkja í smíðum. Um hlunnindi jarðarinnar segir, að lax- og silungsveiði sé bæði í Hvítá og Brúará, en þó ekki í stórum stíl. Jarðhiti er á a.m.k. 4 stöðum í landi Skálholts. Af þeim eru tveir á landi, einn við Hvítá og einn úti í sjálfri ánni. Fyrir 2-3 árum var byrjað að bora eftir heitu vatni heima í Skálholti, og náði sú borhola 142 m að dýpt, og kom þar upp 50 gráða hiti, en talið er, að það þurfi að bora a.m.k. 500 m djúpa holu, til þess að verulegur hiti komi. Af þessu sést, að það er ekki nafnið eitt, sem ríkisstj. afhendir þjóðkirkjunni með frv. þessu endurgjaldslaust.

Við 1. umr. um frv. þetta tóku margir hv. dm. til máls og lýstu stuðningi sínum við frv. í því formi, sem það er fram borið, en aðrir virtust harma það, að í frv. skyldi ekki vera ákvæði þess efnis, að biskupsstóll yrði endurreistur á Skálholtsstað og staðurinn afhentur þjóðkirkjunni með þeim forsendum eða skilyrðum, að þar yrði biskupssetur í framtíðinni. Í athugasemdum við frv. segir, að það sé fram komið vegna eindreginna óska 3. kirkjuþings þjóðkirkju Íslands s.l. haust skv. ályktun, sem einróma var samþ. á kirkjuþinginu. Engin ósk eða till. hefur komið frá kirkjuþinginu þess efnis, að biskupsstóll yrði þar endurreistur, enda er frv. í algeru samræmi við óskir kirkjuþingsins skv. fyrrgreindri ályktun þess, sem prentuð er upp í grg. fyrir frv.

Hvað snertir endurreisn biskupsstóls í Skálholti, þá er það ljóst, að frv. útilokar ekki, að svo megi verða. Þvert á móti er það sett á vald kirkjuyfirvalda, hvort svo megi verða eða ekki. Er þetta eðlileg lausn á málinu, því að með ólíkindum er, að hv. Alþ. samþ. nokkru sinni biskupsaðsetur í Skálholti þvert ofan í vilja kirkjuþings og annarra kirkjuyfirvalda, því að eðlilegt er, að starfræksla eða stofnun, sem þar á að koma, verði aðeins sú, sem kirkjan sjálf eða yfirstjórn hennar vill hafa þar.

Meiri hl. n. telur, að með frv. þessu sé stigið spor í rétta átt og með samþykkt þess muni koma aukinn skriður á uppbyggingu Skálholtsstaðar.

Ég sé ekki ástæðu að fjölyrða meira um þetta mál, en leyfi mér að umr, þessari lokinni að mælast til þess, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 3. umr.