22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég tala hér sem minni hl. menntmn., en mér hefur því miður ekki unnizt tími enn þá til þess að skrifa nál, og skila því, en mun samt þegar segja mína skoðun á þessu máli.

Ég verð að segja það, að ef maður hefði þá hugmynd, að góðir menn væru hér að gefa fyrir sálu sinni eða verið væri að vinna þetta af einskærum áhuga fyrir kristninni í landinu, þá mundi maður auðvitað eiga ákaflega erfitt með að vera á móti þessu frv. Því miður held ég, að svo sé hins vegar ekki. Ég held, að það sé verið að gera þá ráðstöfun, sem hér er lagt til að gera, út úr vandræðum, af því að menn séu búnir að flækja sig inn í alls konar vitleysu, þannig að það eigi að bæta einni vitleysu ofan á enn þá. Það hefur ekki farið sérstaklega hönduglega með það, sem gert hefur verið nú þegar í Skálholti. Því er verr og miður.

Ég er fyllilega sammála öllum þeim, sem talað hafa um þessi mál, að þarna sé um að ræða helgan stað. En hvernig hefur þarna verið farið að? Þarna hefur verið gert og byggt líka þannig, að einna mestur ljómi hefur stafað af í Íslandssögunni. Þarna var á sínum tíma byggt eitthvert mesta hús, sem þá hafði verið byggt á Íslandi um aldir, 60 m dómkirkja þegar á 12. öld, þannig að þegar kirkja Brynjólfs biskups var byggð seinna meir, þá býst ég við, að hún hafi getað staðið inni í þeirri kirkju, og dómkirkjan hér, þegar hún var byggð hér við hliðina á okkur, hefði getað staðið inni í kirkju Brynjólfs, þannig að sá stórhugur, sem einkenndi Skálholtsstað í upphafi, var táknrænn fyrir, hvað Ísland var fyrir 900 árum og hvernig það minnkaði á öldunum á eftir.

Ef menn hefðu haft virðingu fyrir þeim stað, hefðu menn girt hann af og látið hann vera sem helgan reit og ekki snert hann. Í staðinn byrjuðu menn strax að byggja þar hús ofan á. Við mættum gjarnan sýna ofur lítið meiri virðingu þeim stöðum, þar sem okkar forfeður hafa unnið vel. Það er nóg pláss í Skálholti og var nóg pláss fyrir dómkirkju annars staðar en þar, sem hún stendur núna. Það mátti vel girða þann reit af, skrýða hann með blómum og láta vera, þegar búið var að gera nauðsynlegar fornleifarannsóknir, eins og hvern annan helgan reit. Og ég er hræddur um, að við verðum að fara að venja okkur á það að sýna einhverja rækt því, sem okkar forfeður hafa gert í þessum efnum. Ég hef minnzt á það áður hérna, hvernig klausturrústirnar hafa verið jafnaðar við jörðu, jafnóðum og jarðýturnar hafa fengizt til þess, og hvernig verið er að eyða hverjum einasta torfbæ á Íslandi, a.m.k. hverjum einasta kotbæ á Íslandi, þannig að eftir nokkurn tíma koma afkomendur til með að hafa ekki hugmynd um, hvernig þessi þjóð lifði og bjó og barðist í þúsund ár.

Það var ráðizt af fyrirhyggjuleysi í það, sem nú var gert í Skálholti, bæði kirkjuna og biskupsbústaðinn, sem þar stendur. Og menn vissu ekki, hvað þeir ætluðu að gera þá, og mönnum fannst, að þeir ættu endilega að gera eitthvað, og settu það þar að auki á vitlausan stað. Menn mega gjarnan hugsa ofur litið, áður en þeir ráðast í hlutina, ekki gera eitthvað bara út frá tildri eða til þess

að þóknast einhverjum og einhverjum þessa stundina, án þess að hafa hugmynd um, hvað út úr því muni koma. Og ég held, vegna þess að það var farið af fyrirhyggjuleysi út í byggingarnar í Skálholti, að þá ætti ekki að bæta nýju ofan á með því að henda þessu núna í þjóðkirkjuna, af því að íslenzka ríkið viti ekki, hvað það eigi með þetta að gera. Ég held, að við ættum að athuga ofur lítið okkar hlut. Við höfum gert okkur seka um fyrirhyggjuleysi og tildur í sambandi við þær byggingar, sem þegar hafa verið reistar þarna, og við skulum reyna að hugsa dálítið betur, áður en við gerum það næst. Það segir gamalt máltæki: Í upphafi skal endinn skoða. Það hefur ekki verið gert af þeim, sem nú hafa verið að láta byggja í Skálholti, heldur hefur verið farið í þetta í óðagoti. Ég er þess vegna á móti því, að við losum okkur úr þessari klípu, sem við af fljótræði höfum komið sjálfum okkur í, með því að henda Skálholti í kirkjuna.

Hvernig stendur þetta viðvíkjandi þjóðkirkjunni sjálfri? Það er vitað, að áhuginn, sem blossaði upp í sambandi við Skálholt og kemur vissulega til með að vera áfram, hann stóð að miklu leyti í sambandi við það, að það væri ákveðið að hafa þar biskupssetur. Það skyldi flytja biskupinn yfir Íslandi í Skálholt og hann skyldi hafa þar aðsetur. Hvað kom upp, þegar farið var að ræða þetta? Ég get gjarnan játað það, að ég hafði vissa samúð með þeirri hugmynd. Mér hefði ekki fundizt það óviðkunnanlegt út af fyrir sig. En hvað kom upp, undireins og farið var að ræða þetta? Það kom upp, að það þyrfti eðlilega að vera biskup í Reykjavik. Og það er á ýmsan hátt eðlilegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja taka tillit til þess lúterska safnaðar á Íslandi, að segja að æðsti maður þeirrar kirkju eigi þar að vera, sem helmingurinn af öllum landsmönnum er þegar búsettur. Og maður varð var við það, strax og farið var að tala um að flytja biskupsstól að Skálholti, að það yrði ekki aðeins að vera þá biskup í Reykjavík, það yrði líka að vera biskup á Hólum. Þá kom sá gamli metingur upp og sú gamla viðleitni Norðlendinga að vilja þá gera Hólastað ekki síður hátt undir höfði heldur en Skálholtsstað. M.ö.o.: þegar átti að fara að hreyfa við þessu málí, þá kom það strax upp, að bara í rauninni út frá praktískum ástæðum og sumpart út frá tildri, þá yrðu að vera 3 biskupar á Íslandi. Og það vantaði ekki annað en að með því að ákveða í raun og veru biskupshús í Skálholti, sem búið er að byggja, þá bætti maður svo því ofan á allt annað, allt tildrið í þessu sambandi, að setja 3 biskupa á Íslandi.

Ég held, að við eigum að athuga þessa hluti betur. Ég held, að við eigum ekki að flýta okkur svo að þessu, að við flækjum okkur í slíka snöru, að við neyðumst til að gera hvern hlutinn á betur öðrum. Fyrst höfum við byggt þarna biskupshús og stóra kirkju, og vegna þess að biskupshúsið er komið, þó að biskupinn vilji ekki í því vera, þá verðum við bara að útvega biskup handa húsinu. Og af því að við erum búin að útvega biskup handa húsinu, þá verðum við að útvega einn biskup í viðbót og hinn þriðja handa Hólastól. Það yrði kallað hjá almenningi líklegast: þrír vandræðabiskupar Alþingis. Það væri ekkert skemmtilegt ástand, sem við sköpuðum með þessu. Og þessir biskupar mundu þykja búnir til eiginlega bara úr tildri og öngþveiti, sem við værum búnir að koma okkur inn í.

Ég verð að segja það með allri virðingu fyrir kristninni í landinu, að ég held, að það sé ekki svona, sem eigi að fara að því að stjórna henni. Ég held, að við eigum þess vegna að staldra við. Það liggur ekkert á í þessum efnum. Við erum þarna með meir en 9 alda helgistað, sögustað, sem ekkert liggur á að ákveða í ár eða næsta ár, hvernig vera skuli. Og einmitt þegar við höfum séð það, að við höfum flækt okkur inn í ýmiss konar vitleysu með fljótfærni, þá skulum við athuga okkar gang.

Ég hef líka orðið var við það í menntmn. af því, sem okkur barst, að það er ágreiningur líka innan kirkjunnar um, hvernig þetta skuli vexa. Maður heyrir alveg ákveðnar skoðanir presta t.d. á þessum slóðum, að þeir álíta í raun og veru, að við séum alls ekki að sýna fullkomna virðingu helgi þessa staðar, ef við ekki setjum biskupssetur þar. Það mundi vafalaust verða sagt eftir nokkurn tíma, hvað biskup í Reykjavík ætti eiginlega yfir þessu að gera. Og ég sé, án þess að ég fari inn á það að ræða þá brtt., sem hv. 4, þm. Sunnl. hefur flutt hér, samnefndarmaður minn, að nú þegar koma þessar spurningar upp, að það verði að koma biskup í Skálholt og það skuli vexa sá biskup, það skuli ekki vera biskupsembættið, sem nú hefur aðsetur í Reykjavík, sem eigi þarna yfir að ráða. Þeir Sunnlendingarnir þar austan fjalls munu vafalaust finna til alls konar sjálfstæðishreyfinga gagnvart Reykjavíkurveldinu, þegar þeir fara að hugsa um þessa hluti: A.m.k. virðast okkur ýmiss konar bréf, sem við fengum frá kirkjuhirðunum þar eystra, bera vott um slíkt.

Ég held þess vegna, að það, sem við á Alþ. eigum að gera, nú viðvíkjandi Skálholti, sé að íhuga okkar mál, á hvern hátt þessum stað yrði bezt ráðstafað í samræmi við hans sögu og í samræxni við þarfir okkar þjóðar og þjóðarmenningar. Og ég held, að við eigum að hugsa það stórt og hugsa langt, ekki bara hugsa í árum. Okkur liggur ekkert á með þetta. Þegar Adam frá Brimum skrifaði um Skálholt fyrir um 900 árum, þá segir hann neðanmáls í sinni króniku, að stærsta borgin á Íslandi sé Skálholt. Okkur finnst þetta hljóma einkennilega nú, og Skálholt hefur kannske ekki haft fleiri íbúa en nokkur hundruð, þegar flest var þar í kring. En við skulum bara muna, að á þessum sama tíma voru ekki heldur bæir eins og Oxford eða Kantaraborg stærri en kannske eitthvað á milli Blönduóss og Sauðárkróks, og sjálfar Lundúnir eru á þessum tíma varla stærri en — hvað eigum við að segja, 10 þúsund manns, og er þó ein af stærstu borgunum í Evrópu.

Um langan tíma er Skálholt hin raunverulega höfuðborg Íslands. Og hvað var Skálholt fyrst og fremst þennan tíma, sem það var eins konar höfuðborg Íslands? Það var fyrst og fremst menntasetur, framar öllu öðru var það menntasetur, skóli og lærdómsmiðstöð og þar að auki kirkja og höfuðstóll kirkjunnar. Ef okkar þjóð og okkar land heiði fengið að þróast í friði og án kúgunar, þá hefði að öllum líkindum saga Skálholts orðið eitthvað svipuð og saga Kantaraborgar eða Oxford eða annarra slíkra staða, — ef við hefðum ekki orðið fyrir því, að okkar menningu var hnekkt, okkar landi var hnekkt og okkar frelsi var hnekkt, svipað og með þau lönd og ríki Afríku, sem stóðu í mestum blóma á 12., 13. og 14. öld og sköpuðu þá hámenningu, sem enn þá sjást rústirnar af, en allt var eyðilagt, eftir að Evrópumenn hófu sínar innrásir þar og sína þrælasölu.

Þegar við þess vegna erum að hugsa um Skálholt, þá held ég, að við eigum fyrst af öllu að hugsa um, hvernig við hefðum viljað hafa látið Skálholt þróast, svo framarlega sem erlent vald hefði ekki drottnað hér um aldir á Íslandi og stöðvað okkar þróun og brotið að síðustu niður menntasetrið í Skálholti og flutt það burt þaðan og hingað á nesin hjá okkur. Ég held, að við eigum þess vegna, þegar við hugsum um, hvað við viljum gera Skálholti til góða og hvernig við viljum hafa Skálholt í framtíðinni, að hyggja að því, hvers við höfum að minnast úr Skálholti. Og þá er það frá mínum hugskotssjónum fyrst og fremst tvennt: það er í fyrsta lagi mennta- og lærdómssetur, það er það fyrsta af öllu, sem ég álít að við eigum að hafa í huga, þegar við hugsum um Skálholt. Sem mennta- og lærdómssetur mundi Skálholt hafa yfirgnæft það gildi, sem kirkjan hefur haft þar, eftir að lúterskan kom til, og ég mun síðar koma nánar inn á það. Í öðru lagi álít ég, að við eigum að minnast Skálholts fyrir það, að Jón Arason var hálshöggvinn þar. Hann dó þar fyrir okkar föðurland og fyrir sína trú. Og ég álít það eins og hver önnur helgispjöll að gefa lúterskri kirkju þann stað. Það var lútersk kirkja, sem svo að segja lagði til öxina, þegar hann var höggvinn, og það var hún, sem var sá aðíli, sem danski konungurinn gat notað til þess að ráða þá niðurlögum þeirra, sem stóðu með frelsi okkar lands. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að lútersk kirkja hafi ekki ýmislegt gott gert á Íslandi, en meira bar þó á í Skálholti, eftir að hún kom til, afturhaldsseminni, bændakúguninni og konungsþjónustunni. Ríkidæmið var að vísu nóg hjá Brynjólfi biskupi, en handritin voru gefin úr landi. Ég held, að það sé ekki sérstök ástæða til þess út af fyrir sig að verðlauna lúterska kirkju með því að gefa henni Skálholt, og ég satt að segja kann ekki við það. Ég hef ekkert við það að athuga, að lútersk kirkja sé í Skálholti. Ég mundi ekki heldur hafa neitt á móti því, þó að þar væri einhvers staðar til kaþólsk kapella, þó ekki á gröf Jóns Arasonar, þó ekki á þeim stað, þar sem hann var höggvinn. Ég held, að við ættum að sýna honum dálítið meiri sóma, þeim stað, heldur en honum hefur verið sýndur, en ég álít það ekki viðfelldið, að við gefum lúterskri kirkju Skálholt, þó að það væri ekki nema bara frá þessu sjónarmiði. Jón Arason og hans synir hafa helgað þessa jörð með sinu blóði, og við eigum ekki að ráðstafa þeim stað fyrst og fremst í eign hinnar lútersku kirkju. Ég skal taka það hins vegar fram um leið, að þrátt fyrir alla virðingu fyrir kaþólskri kirkju mundi ég ekki heldur vilja ráðstafa því til hennar. Ég sé, að það eru ýmsir menn, sem hafa verið með hugmyndir um það. Ég get gjarnan unnt henni þess að mega einhvers staðar þarna, ef hún vill heiðra þann mann, sem hún skoðar vafalaust líka sem sinn píslarvott, byggja sína kapellu. En ég álít, að fyrir okkur sem Íslendinga sé Skálholt fyrst og fremst menntasetrið, sem við eigum að reyna að sýna sóma.

Hefði Skálholt ekki verið lagt niður af erlendu valdi sem menntasetur, þá væri það það að öllum líkindum enn í dag. Það mundi að öllum líkindum hafa einhverja svipaða aðstöðu í okkar þjóðlífi og Oxford og Cambridge hafa haft í menntalífi Englendinga, og ég álít, að við eigum að reyna að byggja Skálholt upp aftur sem menntasetur, sem mikla skóla og lærdómsmiðstöð. í fyrsta lagi vegna þess, að það er í beztri samhljóman og beztu samhengi við forna erfð okkar þjóðlífs. Það blandast engum hugur um það, sem nú býr hér í Reykjavík eða er hér í Reykjavík langdvölum, hver hætta okkar þjóðlífi er búin og hver hætta er á, að það slitni í sundur sá rauði þráður, sem verið hefur í okkar þjóðmenningu frá upphafi vega. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég álíti okkur Íslendinga sem þjóð ófærari en okkar nágrannaþjóðir til þess að halda samhenginu í þjóðarerfðinni, þegar sú borgarbylting verður, sem kapítalisminn óhjákvæmilega leiðir af sér. En við skulum gá að því, að það, sem England upplifir í 5 aldir, þróunina frá sveitalifí til borgarlífs, það, sem Danmörk eða önnur Norðurlönd upplifa á 2–3 öldum, það upplifum við í einni kynslóð. Sú bylting, sem það er að byltast úr bændaþjóð yfir í það að verða borgarþjóð, hefur hvergi sem mér er kunnugt skeð með þeim hraða, sem hún hefur skeð á Íslandi. Það hefur engin þjóð verið látin ganga undir þá þolraun að verða á einni einustu kynslóð að umhverfast úr máske frekar gamaldags bændaþjóð, en bændaþjóð, sem byggir á mjög gömlum stofni, og yfir í það að verða allt í einu borgarþjóð, þar sem bændurnir eru, — ég held, að síðustu tölurnar, sem ég hef séð yfir það, séu ekki að verða nema 121/2% á Íslandi, m.ö.o. eins og í Bandaríkjunum. Það þýðir m.ö.o., að viðleitnin til þess, þrátt fyrir svona byggðabyltingu, að viðhalda þjóðarerfð

inni hlýtur að verða af hálfu þess opinbera margfalt sterkari en ella, ef við viljum ekki láta slíta þennan þráð. Þar með er ég ekki að tala á móti því, að við reynum að gera Reykjavík að sem beztu menntasetri. Hér í Reykjavik hafa verið sameinaðir flestir æðri skólar landsins, flest menntasetur, söfn og háskóli, en við vitum samt sem áður, hvernig það er hér. Það eru ekki menntamennirnir, sem setja svip sinn á Reykjavík lengur, þeir gerðu það fyrir nokkrum áratugum. Það er borgarastéttin, sem gerir það og það í ríkum mæli. Það má jafnvel segja, að okkar menntamenn svo að segja missi sitt sjálfstæði gagnvart þeim og hangi aftan í þeim, sem ég skal koma að síðar. Auðvitað megum við ekki gefast upp við það að reyna að gera Reykjavík að menntabæ og láta það vera menntirnar, en ekki gróðann og braskið, sem setur mark sitt á Reykjavík. Auðvitað megum við ekki gefast upp við það. En ég held, að það sé þó vissara til vonar og vara að reyna að skapa í landinu fleiri miðstöðvar. Ég veit, að það gengur stundum dálítið erfiðlega. Það er ekki gaman að fást við það, þegar á að fara að flytja einhverja af okkar menntamönnum eða sérstaklega embættismönnum eitthvað burt úr Reykjavík. Ég man bara eftir baráttunni, sem háð var hér t.d. út Af húsmæðrakennslunni um árið, þegar talað var um að flytja hana til Akureyrar. Og ég held, að við hér í Nd. höfum verið búnir að samþykkja það, þeir í Ed. hafi bognað, þegar allur meyjaskarinn kom á svalirnar hjá þeim, og hefði þó vissulega Akureyri verið boðleg til þess að reyna að vinna hana upp sem menntamiðstöð um leið og þá verksmiðjuborg, sem hún er að verða.

Ég held hins vegar, að ef menn hygðu á að skapa bæ nokkurs staðar í sveit á Íslandi og það svo nærri Reykjavik, að menn gætu notið alls þess góða, sem Reykjavík hefur að bjóða, þá væri það fyrst og fremst í Skálholti. Ég efast ekki um, að það væri hægt að skapa þar bæði fagurt og gott menntasetur. Og það mundi vera í beztu samhengi við okkar þjóðarerfð. Og ég veit, hvað margir hér inni eru hrifnir af því, sem Bretar gera, ég held, að það væri ekki fjarri þeirri aðferð. sem Bretar hafa haft með að byggja upp sínar menntastöðvar. Ég efast ekki um, að það hefur fyrir þá klóku brezku yfirstétt haft sína þýðingu undanfarnar aldir, að hún ól upp meginið af þeim mönnum, er hafa stjórnað Bretlandi, fyrst og fremst í Oxford og Cambridge, í náinni tilfinningu við samhengið í allri sögu þess ríkis, en ekki bara í London í miðstöð fjármálalífsins.

Hvað snertir aðstöðuna í Skálholti og á þeim jörðum, sem þar eru í kring, þá eru allar aðstæður til þess að koma þarna upp bæ, bæ, sem gæti vexið ekki aðeins menntamiðstöð, enda mundi enginn hafa sérstakan áhuga fyrir að einangra hann sem menntasetur þannig, að þar væri ekki alls konar annar rekstur. En ef við hugsum ofur lítið fram eftir þessari öld og fram undir 2000, þá efast ég ekki um, að þarna gæti verið jafnvel 5000 manna, jafnvel 10 000 manna bær, þar sem fyrst og fremst menntir og listir settu sinn svip á, þar sem það drottnaði svo að segja, þó að þar væru líka ýmiss konar aðrir hlutir, sem atvinnulífið snerta. Ég vil aðeins spyrja: Þegar hér kemur búnaðarháskóli á Íslandi, hvar ætti hann frekar að vera en t.d. í Skálholti? Svo er raunar bændaskóli líka, sem menn gjarnan vilja fá einhvers staðar á Suðurlandi. Því mætti ekki hvort tveggja vera þar?

Ég hef heyrt það útundan mér, að meira að segja rannsóknarstöðvar í sambandi við landbúnað, jafnvel búnaðarháskóli, þegar talað er um hann, það mætti strax mótspyrnu, að það sé ekki í Reykjavík, og ég skil þetta að sumu leyti vel, þegar hvert af þessu er tekið eitt út af fyrir sig. Er þá útkljáð, hvar búnaðarháskóli skuli vera? Þá koma ákaflega mörg rök, sem segja jú. Það eru margar rannsóknarstöðvar í Reykjavík, það er háskóli í Reykjavík, það er stórt bókasafn 1 Reykjavík, því í ósköpunum skyldi ekki búnaðarháskóli líka vera í Reykjavík? En ef það er hægt að segja um leið: Það verður ekki bara búnaðarháskóli, sem verður í Skálholti, það verður líka bændaskóli í Skálholti, það verður stór hluti úr Háskóla Íslands í framtíðinni í Skálholti, það verður svo og svo mikið af rannsóknarstöðvum og öllu mögulegu, sem snertir bæði hagnýtar atvinnugreinar og annað, í Skálholti, þá hljómar þetta allt, allt öðruvísi.

Ég álít t.d., að ýmsar rannsóknarstöðvar væru þarna bezt settar, sértaklega ef það væri tekin ákvörðun um það, við skulum segja t.d. í sambandi við landbúnaðinn og annað slíkt, — ef það væri tekin ákvörðun um það sem eina heild. Búnaðarfélaginu þótti sjálfsagt að byggja sína byggingu í Reykjavík. Það var ákaflega margt, sem mælti með því. En ég á eftir að sjá, að það sé íslenzk bændastétt, sem setur sinn svip á Bændahöllina. Ég er hræddur um, að það verði ekki meira að segja kölluð Bændahöll til frambúðar. Ég er ákaflega hræddur um, að það komi til með að heita Hótel Saga eða eitthvað þess háttar.

Ég held, að menn þurfi að hugsa þessa hluti af meiri stórhug og af meiri fyrirhyggju. Við höfum talað um handritin, háskólabyggingarnar og annað slíkt, og ég var að reyna að fá fram ýmsa hluti, þegar við vorum að gera hér lögin um Handritastofnun Íslands, m.a. í tilefni af því, að við þykjumst nú vera að taka við handritunum. Það gekk lítið. Mig dreymdi þá eins og fleiri um, að við mundum kannske eiga eftir að byggja einhverja volduga byggingu, t.d. á Melunum, í sambandi við framtíðar ríkisbókasafn og handritasafn Íslands. Mér sýnist nú, að aðrir hlutir séu að setja þar eitt mark á en menntastofnanirnar. Í upphafi héldu menn, að þessi staður fengi að vera í nokkurn veginn friði fyrir öðru slíku. Ég sé ekki betur en það sé búið að granda því. Ég gæti vel hugsað mér í framtiðinni, að ýmislegt af þeim rannsóknarstofnunum, líka í sambandi við okkar hugvísindi, sem settar yrðu, sem við gerðum dálítið meiri kröfur til í þeim efnum en gerðar eru nú, þær gætu vei átt sér aðsetur í Skálholti. Mér líkar það satt að segja ekki, hvernig okkar vísindalegu rannsóknir og annað slíkt í sambandi við okkar eigin germönsku fræði og annað slíkt hafnar allt saman hér í Reykjavík. Ég held, að það væri stundum betra, að þeir menn, sem við sérstaklega setjum til að vinna að því, og við þyrftum að setja fleiri menn til þess en við gerum nú, — þeir væru ofur lítið meira í friði fyrir þeim ófriði, sem stórborgarlífið veldur, heldur en ef þeir eru hérna í Reykjavík.

Ég er ekki að mæla með munkaklaustrum, en ég sé það fyllilega á reynslunni, að (Gripið fram í: Fangabúðir?) Ég veit það nú ekki, hvort það yrði litið á það sem fangabúðir af menntamönnum, ef þeir ættu að byggja í Skálholti, og og ef það er hugsunin, að hæstv. ríkisstj. hafi lagt í það að gefa kirkjunni Skálholt vegna þess, að hún hafi óttazt, að menntamenn Íslands mundu líta á það sem fangabúðir að vera settir þangað, þá skal ég tilkynna hæstv. kirkjumrh., að ég mundi nú strax geta fengið einhverja menntamenn Íslands til þess að setjast að þarna austur frá og til þess að nota þessa milljón, sem á að fara í þetta, og til þess að búa í þessu biskupssetri, sem enginn vill búa í, og til þess að stúdera íslenzka sögu. Og ég skal jafnvel þá koma fram með till. um það, ef um það er að ræða. Og þeir mundu ekki finna þessar fangabúðir. Ég held, að ef það er það, sem hefur vakað fyrir hæstv. ríkisstj., að forða því að gera Skálholt að fangabúðum fyrir íslenzka menntamenn, þá gætum við tekið höndum saman og gert Skálholt að svo glæsilegu menningarsetri, að það mundi jafnvel fara að hafa aðdráttarafl fyrir þá, sem væru kannske fangnir í fésýslutöfrunum í Reykjavík eða undir of miklum áhrifum þeirra.

Ég held, að þegar okkar háskóli í framtiðinni á eftir að stækka, — ég hef minnzt á það áður hér í sambandi við hann, að ég álít það hneyksli, að við skulum ekki hafa bætt við a.m.k. 5 prófessorum, bara í íslenzkum fræðum, en máske verður norræna deildin losuð þar út úr og flutt, — ég gæti vel hugsað mér Skálholt sem eina miðstöð í germönskum fræðum í Evrópu. Og ég gæti trúað, að það yrði með fjölsóttustu menntasetrum, ekki sízt á sumrin. Eins má vel vera, að það mundi ekki rætast fyrr en undir 2000, og það þætti mér hart, að við yrðum að bíða eftir því. Ég held, að það stæði okkur Íslendingum næst að reyna að gera germönsku fræðin aftur mikil í heiminum. Við höfum aldrei sett neinn blett á þau, og við þurfum að þvo af þann blett, sem Hitler setti á þau með því að vera allt of hrifin af þeim.

Meira að segja ég hef ekkert á móti því, að guðfræðideildin flytti í Skálholt. Það er síður en svo, að ég sé að amast við, að kirkjan fengi að hafa þarna einhverjar miðstöðvar þannig, síður en svo. Þeir fengju þarna góða kirkju til þess að æfa sig í. Ég er ekki að segja, að við eigum að fara að gera þetta á morgun, ég er ekki svo bráðlátur í þessu. En við skulum bara hugsa út frá því t.d., — ja, hvað verðum við orðnir hér, Íslendingar, árið 2000, verður við ekki orðnir 300–400 þús.?. Ég held, að kannske værum við þá farnir að hugsa um annan háskóla. Við skulum lofa þeim, sem koma hér næst á eftir okkur, að eiga við það að ráðstafa Skálholti fullkomlega, ef við ekki berum gæfu til þess, ef við ekki höfum stórhug til þess að ráðstafa Skálholti þannig, að við getum verið bæði sammála um það og stoltir af því, hvernig við ráðstöfum því.

Ég segi þetta meðfram vegna þess, að mig hryggir það bókstaflega, hvernig mér sýnist Háskáli Íslands vera að þróast hjá okkur hérna í Reykjavík. Ég var nú nýlega í Osló, var að skoða þar það nýja, stóra háskólasetur, sem þeir eru að byggja upp, glæsilegan, voldugan háskólabæ fyrir utan Osló, og reyndar þar sem bara sögulega og heimspekilega deildin ein er tíföld að stærð á við okkar háskóla. Hér í Reykjavík aftur á móti, hvaða áhrif hefur Reykjavík og fésýslulífið og braskið í Reykjavík haft á þá, sem stjórna Háskóla Íslands? Hvað er það, sem þeir ráðast í að byggja? Þeir ráðast í að byggja Háskólabíó. Hvað settu þeir í það? 20 millj. — eða hvað? Það er ekki verið að byggja við háskólann, vegna þess að hann sé of lítill. Nei, þeir byggðu bíó. Það er þessi bíósótt í þessum mönnum, sem hafa með opinbera peninga að gera, alveg eins og í dvalarheimili aldraðra sjómanna. Og af hverju stafar þessi bíósótt hjá þessum mönnum? Þeir liggja undir fyrir fésýsluhætti, en finna ekki til þess stolts, sem þeir eiga að finna til sem menntamenn. Það hefði ekki verið byggt Háskólabíó, ef við hefðum verið með þetta í Skálholti, það er víst.

Það er þessi smitun af öllu brasklífi burgeisastéttarinnar í Reykjavík inn á okkar menntamenn, sem hryggir mig, og ég vil þess vegna ekki flýja frá því að reyna að byggja Reykjavík upp sem menntasetur. En ég held, að við eigum að athuga það alvarlega, hvort við eigum ekki að geyma Skálholt, jafnvel þótt við ekki geymdum okkur það, þó að við geymdum það næstu kynslóðinni, Skálholt til þess að byggja það þannig. Ég skal að vísu viðurkenna, að það er hægt að taka aðra staði, sem hafa líka sína sögu. Það er hægt að taka Odda, það er hægt að taka Haukadal, en Skálholt hefur þó alveg sérstakt aðdráttarafl í mínum augum í því sambandi.

Þá er spursmálið um, hvort slíkt væri fært. Er það ekki svo fjarri öllu lagi að hugsa sér Skálholt sem eitthvert slíkt menntasetur, að það sé svo óraunhæft að láta sér detta það í hug, að t.d. næsta kynslóð vildi fara inn á slíka braut? Ég held ekki. Ég vil ítreka það, að ég álít, að það væri hollt að skapa eitthvað slíkt. Ég álít, að það væri líka hollt í öllum þeim vandamálum, sem menn oft eru að ræða hér út af dreifbýlinu. Menn hafa veitt því athygli, að jafnvel svo nálægt sem Suðurlandið

er Kjalarnesþingi, þá hefur engu að síður íbúatalan á Suðurlandi, þ.e. austanfjalls, staðið í stað nokkurn veginn síðan um aldamót, af því að öll fólksfjölgun hefur orðið hér í Reykjavík. Ef ég man rétt, þá voru 78 þús. manns á Íslandi árið 1901. Nú eru það 180 þús. Öll þessi 100 þús., sem bætzt hafa við, eru hér í Kjalarnesþingi.

Í sambandi við þetta spursmál um dreifbýlið og um, hvort raunhæft væri að koma þarna upp menntasetri, þá vil ég segja, að það, sem strandaði á t.d. viðvíkjandi Akureyri að reyna að koma upp menntasetri þar, það ætti ekki að þurfa að stranda viðvíkjandi Skálholti. Fyrir menn, sem hefðu átt að verða kennarar norður á Akureyri, ef þeir hafa v erið áður í Reykjavík, þá finnst þeim óskaplegt að láta kippa sér upp, og held ég þó, að ýmsir hefðu gert það, ef harðar hefði verið eftir gengið. Hins vegar er Skálholt svo nærri, að það verður ekki í framtíðinni, þegar góðir vegir eru komnir, nema klukkutímaferð að skreppa hingað. Það er ekki meira en úr úthverfi í London inn í miðja London, ef menn vilja sækja leikhús eða eitthvað þess háttar, þannig að þeir, sem þar eru, geta notið alls þess bókakosts og annars slíks, sem fræðimenn vilja fá lánað hér úr söfnunum, á meðan ekki væru komin upp eins stór söfn þar. Það er nógu nærri Reykjavík til þess að njóta alls þess bezta, sem Reykjavík á að bjóða, og samt nógu fjarri Reykjavík til þess að njóta þess að vera kyrrlátt menntasetur, en þó í lífrænum tengslum við stóra og volduga bændabyggð og öllum líkindum við vaxandi kauptún og kaupstaði í þeirri sýslu.

Ef við aðeins hugsuðum þetta og skipulegðum fyrir fram, þá efast ég ekki um, að það væri hægt að fá marga menntamenn til þess að setjast þarna að. Ég tala nú ekki um, ef þetta væri skipulagt þannig, að það væri byggt þó nokkuð í einu, safnað í sjóð og byggt þar þó nokkuð í einu. Ég vil minna á, að einn af þeim íslenzku stjórnmálamönnum, sem um tíma voru hér voldugir stjórnmálaforingjar og ef ég man rétt kirkjumrh., hann dreymdi um háborg íslenzkrar menningar hér á Skólavörðuholtinu, dreymdi um fagrar byggingar þar, dreymdi um byggingar, sem ættu að setja allt sitt mark á Reykjavík. Og vissulega hefði verið hægt að framkvæma þá hugsjón, ef samtök hefðu skapazt um það á þeim tíma. Skólavörðuholtið varð hins vegar bröggunum að bráð og seinna meir illa hugsuðum stórbyggingum, sem var kastað þar niður eins og af handahófi, þannig að það lítur út fyrir, að þeir, sem skipulagt hafa Reykjavik, hafi yfirleitt verið frámunalega duglegir í því að eyðileggja flest af því, sem fegurst hefur verið hægt að hafa í byggingu Reykjavíkur sem heildar.

Reykjavík stendur á sjö hæðum eins og Rómaborg. Það hefði kannske verið hægt að hafa eina af þeim, sem hefði verið byggð af svipuðum smekk og Grikkir byggðu Akropólis á sínum tíma. En ekkert af neinu slíku hefur komizt að. Meira að segja þar sem af tilviljun eitthvað fagurt hefur verið byggt, eins og við skulum segja Landakotskirkjan eða Sjómannaskólinn, sem drottnuðu vel yfir sínu umhverfi, þá þarf að klessa upp við þetta aftur öðrum stórbyggingum, sem svo eyðileggja þetta meira eða minna, við skulum segja eins og Landakotsspítalanum núna eða kirkjunni þarna hjá Sjómannaskólanum. Það er eins og það hafi aldrei verið mögulegt að hugsa byggingu á einni einustu hæð hér í Reykjavik út frá sjónarmiði fegurðarinnar eða smekksins. M.ö.o.: þeir draumar, sem menn höfðu barizt fyrir fyrir 30 árum um að reyna þá að setja einhvern svip menningar og fegurðar á Reykjavík, þeir hafa runnið út í sandinn. Skálholt er enn þá óskemmt. Þrátt fyrir vitleysur, sem gerðar hafa verið þarna, þá væri hægt að byggja þar mjög fagurlega, ef þetta væri hugsað sem heild, þannig að það getur þá verið eitthvað, sem við værum stoltir af að sýna, — við kynnum þó að skipuleggja.

Nú vil ég um leið taka það fram, þegar ég tala svona mikið um Skálholt sem hugsanlegt menntasetur, að ég hugsa mér það þar með ekki sem neinn filabeinsturn fyrir menntamenn. Ég hugsa mér, að á þessum stöðum, ekki sízt ef þarna kæmi búnaðarháskóli, bændaskóli og annað slíkt, þá mundi líka máske rísa þarna upp, ekki síður en risíð hafa upp nú þegar að nokkru leyti á Selfossi, miðstöðvar að ýmsu leyti fyrir landbúnaðinn þarna, þá miklu ræktun, sem þarna á eftir að verða í framtíðinni allt í kring. Þarna mundu verða líka góðir staðir fyrir heimavistarskóla, þarna munu verða kannske líka fagrir sumardvalarbústaðir og ýmislegt, sem alltaf rís upp í sambandi við lítinn bæ, sem hleður síðan utan á sig. Það mundi skapast þar náttúrlega eins og annars staðar.

Ég vildi nú aðeins, fyrst þetta mál var sett hér inn á þingið nú, biðja hv. þm. að hugleiða þetta mál, hugleiða það, hvort það væri ekki rétt að íhuga þetta ofur lítið betur, áður en við tökum endanlega ákvörðun. Ég held, að ég megi fullyrða, að kirkjan á Íslandi sé ekki sammála innbyrðis, hvað þarna skuli gera. Kirkjuþing er enginn óvéfengjanlegur fulltrúi kristinnar kirkju á Íslandi í þessu sambandi. Við sjáum það bezt á prestskosningafrv. Og ég sé ekki, að það geti legið á því að gera nú aðra vitleysuna hinni verri, að flana að þessu. Ef það er það, sem veldur vandræðunum í þessu, að menn viti ekki, hvað þeir eiga að gera við biskupshúsið þarna, sem biskupinn á ekki að búa í, og við milljónina, sem þeir vilja endilega láta úr ríkissjóði, þá er hægt að koma þessu hvoru tveggja í lóg á mjög skynsamlegan máta. Það er eins og ég sagði áðan við hæstv. kirkjumrh., það er hægt að gera þennan bústað að heiðursbústað fyrir íslenzka vísindamenn, rithöfunda eða sagnfræðinga eða hverja sem vera skal um visst árabil. Þeir geta fengið að búa þarna og 1, 2, 3 menn geta fengið að hafa kannske alla þessa millj. til ráðstöfunar til þess að vinna að því að skrifa verk, til þess að vera í algeru fríi og skrifa rit viðvíkjandi Íslandssögu.

Ég vona, að hv. þm. sé ljóst, hvernig við erum að dragast aftur úr með allt, sem heitir rannsóknir í sambandi við okkar sögu, bara vegna þess að mennirnir, sem færastir eru til þess að gefa sig að þessu, eru allan tímann í brauðstriti og geta ekki gefið sig að vísindastörfunum í þessum efnum. Og það væri sannarlega ekki á glæ kastað að láta þetta hús vera slíkt aðsetur um nokkurt skeið og nota þetta fé til þess að vinna fyrir íslenzk vísindi, fyrst og fremst hugvísindi, okkar sögu, okkar mál. Og menn stæðu þar mjög vel að vígi, menn eru það nærri Reykjavík, að þeir gætu fengið öll sín gögn, sem þeir vilja, þangað, en menn hefðu frið til þess að vinna. Og það eru áreiðanlega margir, sem mundu taka það að sér, af okkar færustu mönnum að vinna upp á slík býti. Það eru margir menn á Íslandi núna, sem til allrar hamingju eru ekki svo snauðir í okkar menntamannastétt, að þeir mundu ekki þiggja það að búa við heiðurslaun í heiðursbústað um nokkurt skeið til þess að mega algerlega helga sig verkefnum, sem þeir fá ekki tíma til að vinna nú fyrir brauðstriti. Og það er ekki lítið, sem við erum að tapa með hverju árinu sem líður, með þeirri kynslóð, sem nú er smátt og smátt að kveðja, vegna þess að menn hugsa ekki út í það í tíma og gefa þeim mönnum, sem hvað mest hafa stundað íslenzka sögu og hugsað um hana, tæktfæri til þess að skrifa um hana. Það eru nokkrir slíkir ágætir menn þegar farnir í gröfina á síðustu árum, með vísdóm, ekki sízt um okkar 14. og 15. öld, sem getur kostað okkur kynslóðir að fá aftur, ef við fáum það nokkurn tíma.

Ég held þess vegna, að við ættum að staldra ofur litið við. Ég hef, eins og ég sagði í upphafi míns máls, ekki haft tíma til þess að útbúa nál. um þetta mál, en ég býst við, að mín till. mundi verða sú í svipinn að afgreiða það með rökst. dagskrá. Og ég vil þess vegna fara fram á það við hæstv. forseta, að þessari umr, verði ekki lokið, áður en ég hef fengið tækifæri til þess að koma með hana. Ég skal reyna að sjá til þess, að það tefjist ekki lengi af þeirri sök.