01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvær litlar spurningar í sambandi við þessa brtt., sem fram hefur komið, um, að það sé nauðsynlegt að setja það inn í þetta lagafrv., að ríkið fái endurgjaldslaust í Skálholti lóð undir biskupsbústað.

Í fyrsta lagi: tilheyrir biskupinn ekki þjóðkirkjunni? Kemur það ekki nokkurn veginn af sjálfu sér, að biskupinn muni fá inni hjá þessari þjóðkirkju, sem verið er að afhenda Skálholtsstað? Eða eru þeir menn, sem eru áhugasamastir fyrir því að afhenda þetta undan ríkinu, hræddir um, að biskupinn fái ekki þar inni?

Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að spyrja: Er meiningin að setja biskupsstól í Skálholti einhvern tíma seinna meir, kannske á móti vilja þjóðkirkjunnar? En ef þjóðkirkjan er með því, að biskupsstóll sé settur í Skálholti, mundi hún þá ekki sjálf útvega lóð undir sinn biskup?