02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það er aðeins til að segja nokkur orð í sambandi við þetta frv.

Kirkjuþing gerði um það samþykkt í vetur að fara þess á leit við ríkisvaldið, að þjóðkirkjan fái Skálholtsstað til eignar og umráða og auk þess árlegt meðlag. Þetta er í sjálfu sér ekkert einkennilegt frá sjónarmiði kirkjunnar, að hún vilji auka sínar eignir og skara eld að sinni köku fjárhagslega.

Hæstv. ríkisstjórn hefur orðið við þessum tilmælum kirkjuþings og leggur nú fyrir Alþ. að veita sér heimild til að afhenda Skálholtsstað kirkjunni að gjöf. Í raun og veru þarf ekki að vera svo mikið við það að athuga, þó að hæstv. ríkisstj. taki þá afstöðu, að hægt sé að gefa kirkjunni þessa gjöf. En það, sem mér finnst sérstaklega á skorta, eru rök fyrir þessari ráðabreytni ríkisvaldsins. Hver eru rökin fyrir því, að ríkið afhendi Skálholtsstað sem gjöf? Ég hef ekki heyrt nein rök frambærileg. Það er þetta, sem mér finnst vera aðalgallinn á að afgreiða þetta mál, eins og það er lagt fyrir hér, þ.e. að gefandinn væntanlegur veit ekkert, í hvaða skyni hann er að gefa þessa gjöf.

Það er gert ráð fyrir, að kirkjan hafi þarna einhverja starfsemi með höndum. En hverjar eru þær framkvæmdir, og hver er sú starfræksla? Mér minnst ekki óeðlilegt, að Alþ. spyrji um það, hvað eigi að gera við Skálholtsstað. Hvað er ætlunin að gera við Skálholtsstað í náinni framtíð? Ég hef grun um, að hæstv. ríkisstj. hafi ef til vill gripið þetta fegins huga, að henni hafi jafnvel fundizt einkar hentugt, að ríkisvaldið losnaði við Skálholtsstað úr sinni eigu og þar með alla ábyrgð og allt frumkvæði í sambandi við vandamálið Skálholt í Biskupstungum.

Ef þetta er rétt til getið hjá mér, að þetta séu aðalrökin fyrir því, að gjöfin sé færð, þá get ég ekki heldur viðurkennt þau rök. Hvorki hæstv. ríkisstj.Alþ. mega skjóta sér undan þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir varðandi Skálholt og framtíð Skálholts. Það er engan veginn sæmilegt, að þessir fulltrúar þjóðarinnar allrar skjóti sér undan vandanum og leggi hann á herðar kirkju og kennimönnum landsins, sem hafa þegar sýnt það, að þeir eru engu færari um að leysa vandann en ríkisstj. og Alþ. Það má segja, að fram að þessu hefur getuleysið verið sama innan kirkjunnar sem utan kirkjunnar að ákveða framtíðarskipan í Skálholti. Ég hefði ekki haft á móti því, að ríkið gæfi kirkjunni Skálholtsstað og legði fram fé árlega til starfrækslu á staðnum, en ég hefði betur kunnað því að vita, til hvers staðinn ætti að nota og til hvert fénu yrði varið. Um þetta er ekki neitt vitað, og meðan svo er, þá get ég ekki fyrir mitt leyti greitt því atkv., að frv. verði samþ.

Nú fer þetta frv. til hv. menntmn., og vil ég beina því til hv. menntmn., hvort hún muni ekki sjá sér fært að bæta úr þessari vöntun í frv., þannig að í frv. komi fram eitthvað jákvætt varðandi framtíðarskipulag Skálholts. Hæstv. ríkisstj. og Alþ. mega ekki skjóta sér undan þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir varðandi Skálholt, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að þjóðkirkjan ein standi undir henni. Skálholt er fornhelgur og sögufrægur staður, og það er staður, sem alla þjóðina varðar jafnt, ekki aðeins kirkjuna, heldur alla þjóðina.

Ég hefði talið mjög heppilegt, að það hefði verið hægt að afhenda þjóðkirkjunni Skálholtsstað að gjöf í sumar, þegar kirkjan verður vígð, en ég hefði talið miklu heppilegra að færa aðra gjöf í því tilefni, — miklu meira virði, að það hefði verið tekin ákvörðun og gefið fyrirheit um framkvæmdir i Skálholti, sem miðuðu að því að hefja staðinn úr þeirri niðurlægingu, sem hann hefur verið í tvær síðustu aldirnar, og hefja þar nýja uppbyggingu, sem öll þjóðin og kirkjan gætu unað við.