02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

222. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir framkomu þessa frv.

Að mínu viti felast í þessu frv. tvær höfuðstefnubreytingar. Í fyrsta lagi, að lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er gerður að viðbótarsjóði við almannatryggingarnar, og í öðru lagi, að breytt er því viðmiðunarmarki, sem lífeyrir er reiknaður eftir, þ.e.a.s. að horfið er frá meðaltalslaunum 10 síðustu ára og í stað þess miðað við þau laun, sem á hverjum tíma fylgja því starfi, sem lífeyrisþegi síðast gegndi.

Ég held, að það sé rétt stefna að breyta hinum sérstöku lífeyrissjóðum í viðbótarsjóði við almannatryggingarnar. Ég held, að það sé rétt stefna, bæði frá sjónarmiði þeirra, sem í sérstöku lífeyrissjóðunum eru, og eins frá sjónarmiði almannatryggingakerfisins. Mér sýnist það þess vegna til bóta, að horfið er að þeirri skipun um lífeyrirssjóð starfsmanna ríkisins. Það er að vísu rétt, að lífeyrisþegar hafa, margir hverjir a.m.k., notið nokkurrar uppbótar á sinn lífeyri, þar sem þeim hefur verið veittur nokkur styrkur eða stuðningur til viðbótar lífeyri sínum á hinni svokölluðu 18. gr. fjárl. En ég tel, að það sé viðkunnanlegra og skemmtilegra fyrir alla aðila, ef hægt er að koma þessum málum í það horf með þessum hætti, að hlutaðeigandi starfsmenn geti fengið fullnægjandi lífeyri með þeim hætti að taka lífeyri bæði í hinum sérstaka lífeyrissjóði og hjá almannatryggingunum. En sérstaklega álít ég það mikla réttarbót frá sjónarmiði opinberra starfsmanna, eins og nú horfir og horft hefur um skeið, að hverfa frá þeim útreikningi á lífeyrisgreiðslunum, sem verið hefur, þ.e.a.s. að miða við þetta 10 ára meðaltal, en það er auðséð, eins og launabreytingum hefur verið háttað að undanförnu, að slik útreikningsregla hefur leitt til mjög óhagstæðrar niðurstöðu fyrir sjóðfélaga. Ég álít þá reglu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að sjóðfélaginn skuli taka hundraðstölu af þeim launum, sem á hverjum tíma fylgja því starfi, sem hann síðast gegndi, miklu aðgengilegrí, sanngjarnari og eðlilegri.

Ég skal svo ekki fara út í einstök atriði þessa frv., enda þótt það séu ýmis atriði, sem þar er breytt, til viðbótar þessum tveimur, sem ég tel höfuðstefnubreytingar frv., en fyrir þeim breyt. mörgum hverjum hefur hæstv. fjmrh. gert grein, og skal ég ekki fjölyrða um þær, en vil sérstaklega leggja áherzlu á það, að ég fyrir mitt leyti tel þessa breytingu, sem ég nefndi síðast, um útreikninginn á lífeyrinum, til mikilla hagsbóta og til mikilla réttarbóta fyrir lífeyrisþega.

Ég skal, eins og ég sagði, ekki fara út í einstök atriði frv. Ég get þó ekki stillt mig um að benda á, að mér finnst heldur óeðlilegt orðalag á 2. lið 3. gr., og vildi mælast til þess, að n. tæki það til athugunar, þar sem segir, að það sé ekki skylt að taka í tölu sjóðfélaga þá, sem þar greinir. Það er öllum ljóst, hver meiningin er, og kemur fram í aths., að það er gert ráð fyrir því, að þar sem sérstakir lífeyrissjóðir starfa nú samkv. l. eða staðfestir í reglugerð, þá haldi þeir áfram að starfa. En mér finnst, að með þessu orðalagi sé gefið í skyn, að það sé einhver aðili, sem gæti ákveðið það, að starfsmenn þessara sérstöku sjóða skuli koma í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, það sé bara ekki skylt að veita þeim viðtöku. Þetta orðalag virðist mér ekki alls kostar skýrt, enda þótt það sé ljóst í aths., hver meiningin er. Mér sýnist þess vegna, að þetta ætti að vera orðað meira í stíl við 4. gr., að það væri heimilt að taka þessa starfsmenn í sjóðinn, ef þess er óskað.