25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

213. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa tvisvar legið fyrir hv. Alþingi frv. till l. um meðferð einkamála í héraði, sem hafa ekki náð fram að ganga, vegna þess að ekki hefur orðið samkomulag um þær höfuðbreytingar á núgildandi skipan, sem í þeim frv. voru fólgnar. Hins vegar eru aðstæður að sumu leyti breyttar, frá því að lögin um meðferð einkamála í héraði voru sett 1936, einkanlega varðandi verðlag, embættisskipun og önnur slík atriði, og þykir ekki lengur mega við það hlíta að færa ekki einkamálalögin í samræmi við þessar breyttu aðstæður. Það er efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, en ekki nein efnisbreyting á meðferð mála.

Ég vonast til, að þetta litla frv, sæti ekki ágreiningi, heldur fái skjóta afgreiðslu, og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.