25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni Framsfl. og þeim tveim öðrum þm. þess flokks, sem talað hafa, fyrir stuðning þeirra við þetta frv., sem kemur nú til 1. umr.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði í sinni ræðu um nauðsyn gagngerðrar endurskoðunar á iðnnámsfyrirkomulaginu öllu, vil ég láta þess getið, að fyrir næstum tveim árum skipaði menntmrn. allstóra nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um iðnskóla og iðnskólanámið allt. Þetta starf hefur reynzt mjög umfangsmikið, vegna þess að n., sem að því hefur unnið, hefur talið rétt að kynna sér með sem rækilegustum hætti tilhögun iðnnáms í nágrannalöndum. Þess vegna hefur n. ekki enn tekizt að ljúka störfum. En það eru ekki nema 2–3 vikur síðan ég beindi alveg sérstakri fsp. til n. um það, hvort störfum hennar væri svo langt komið, að hún gæti lokið störfum, þannig að niðurstöður gætu legið fyrir þessu þingi eða samtímis því og Alþ. fjallaði um þær till., sem þá hafði verið ákveðið að gera um stofnun tækniskóla. En ég fékk það svar, að enn ætti n. eftir að vinna allmikið starf og útilokað væri, að hennar störfum gæti verið lokið fyrr en á sumri komanda. Því var hins vegar heitið, að niðurstöður hennar mundu liggja fyrir þá, þannig að menntmrn, ætti að hafa aðstöðu til þess að gera sínar till. svo snemma, að þær gætu legið fyrir næsta Alþ. En ég er algerlega sammála hv. 1. þm. Austf. um það, að brýna nauðsyn beri til þess að endurskoða alla iðnnámstilhögun hér á landi, og einmitt þess vegna var það, sem menntmrn. efndi til þessarar endurskoðunar á þeirri löggjöf fyrir u.þ.b. tveim árum. Hv. þm. vakti enn fremur máls á nauðsyn þess að bæta verkstjórakennslu. Í því sambandi vildi ég aðeins minna hv. þm. á, að það er ekki langt síðan komið var á fót skóla fyrir verkstjóra, sem hefur verið mjög fjölsóttur og starfar af miklum krafti og hefur þegar látið gott af sér leiða.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) minnti á þá till. til þál., sem samþ. var á s.l. vori, um áskorun á ríkisstj. um að efna til undirbúningsnámskeiða, sem þeir gætu sótt, sem hygðust leita náms í erlendum tækniskólum. Ég mun hafa skýrt frá því, þegar sú till. var til umr. hér á hinu háa Alþingi, að það mál hafi þegar verið til athugunar í menntmrn. í sambandi við störf þeirrar n., sem samdi þetta frv. um tækniskólann, enda fór svo á s.l. sumri, að það tókst að ná samkomulagi við fræðsluyfirvöld í Danmörku og Noregi um að viðurkenna próf frá undirbúningsdeild, sem hér yrði starfrækt, sem inntökupróf í tækniskólana í þessum löndum, eins og ég gat þegar um í framsöguræðu minni. Slík deild, sem ályktun Alþ. frá s.l. vori fjallaði um, hefur verið starfrækt nú á s.l. vetri, svo að ég tel efni till. frá því í marz s.l. hafa verið framkvæmt að fullu.

Þá spurði hv. 3. þm. Norðurl. e. um það, hvers konar sambandi væri gert ráð fyrir við erlendu skólana. Um þetta efni skal ég bæta nokkrum upplýsingum við það, sem ég sagði í framsöguræðu minni. Þar tók ég fram, að þegar er samkomulag við tækniskóla í Danmörku og Noregi um að viðurkenna próf úr undirbúningsdeildinni hér sem inntökupróf í þá skóla. En það inntökupróf er að sjálfsögðu líka inntökupróf í hinn væntanlega íslenzka tækniskóla. Við þetta er svo því að bæta, að nám í 1. bekk tækniskólans er sameiginlegt fyrir allar deildir, sem tækniskólar yfirleitt skiptast í, og hið sama á við um tækniskólana í nágrannalöndunum. Þess vegna hefur verið gert ráð fyrir því, að áherzla yrði á það lögð að hafa námsefni 1. bekkjar tækniskólans hér alveg hliðstætt því, sem gerist um námsefni 1. bekkjar í tækniskólum á Norðurlöndum, þannig að brottfararpróf úr 1. bekk íslenzka tækniskólans ætti einnig að geta opnað leið upp í 2. bekk í tækniskólum í nágrannalöndunum. Um þetta hefur að sjálfsögðu ekki enn verið gert neitt samkomulag og ekki einu sinni reynt að ná slíku samkomulagi, vegna þess að íslenzki tækniskólinn hefur ekki þegar verið stofnaður. En af þeirri reynslu, sem fékkst af samningaviðræðum við fræðsluyfirvöldin í Danmörku og Noregi á s.l. sumri, sem leiddu til fullkomins samkomulags, efa ég ekki, að einnig mundi vera hægt að fá samkomulag við þau um það, að brottfararpróf upp úr 1. bekk Tækniskóla Íslands skuli einnig gilda sem inntökupróf í 2. bekk tækniskóla í Danmörku og Noregi, þannig að þeir, sem stunduðu nám í 1. bekk íslenzka tækniskólans, ættu einnig greiðan aðgang að þeim sérgreinum, sem ekki hefði enn verið hafin kennsla í í 2, og 3. bekk íslenzka tækniskólans, því að gera verður ráð fyrir því, að ekki takist að koma öllum hinum fjórum nýju sérdeildum tækniskólans á fót í einu, heldur smám saman, hverri á eftir annarri, eða a.m.k. ekki öllum í einu.

Þetta vona ég, að nægi sem upplýsingar um það, sem menn hafa hugsað sér sem samband við erlenda tækniskóla. Þess má og geta, að greinar í erlendum tækniskólum eru enn fleiri en þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að kenndar verði í íslenzka tækniskólanum, og ætti þá hið sama að gilda um það, að nám í undirbúningsdeild hér og 1. bekk ætti að geta greitt fyrir þeim mönnum, sem stunda vilja tækninám, sem ekki er gert ráð fyrir að kenna í tækniskólanum íslenzka.

Þá spurði hv. 3. þm. Norðurl. e. um það, hver samráð hafi verið höfð við félagsskap iðnfræðinga um þetta mál. Hann lét þess getið, að enginn fulltrúi frá félaginu hafi átt sæti í nefndinni, sem samdi frv. Það er rétt. Í þeirri þriggja manna n. áttu engir fulltrúar frá neinum samtökum eða neins konar félagsskap sæti. Það var embættismaður úr menntmrn., sem var form. n. Í henni áttu einnig sæti Gunnar Bjarnason, skólastjóri vélskólans, sem telja má þann mann hér á landi, sem er kunnugastur erlendum tæknifræðiskólum, og enn fremur einn af prófessorum verkfræðideildarinnar við háskólann. Ég held, að samsetning n. hafi verið hyggilega ráðin frá upphafi, enda hefur n. skilað mjög góðu starfi. Þegar frv.-samningin var komin á lokastig, var hins vegar haft náið samráð við stjórn Tæknifræðingafélagsins og stjórn Verkfræðingafélagsins. Ég átti í menntmrn. marga fundi með allri stjórn Tæknifræðingafélagsins og enn fremur viðræður við fulltrúa frá Verkfræðingafélaginu. N. átti einnig sameiginlega fundi með fulltrúum frá stjórn Tæknifræðingafélagsins og stjórn Verkfræðingafélagsins.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. (IG), spurðist fyrir um það eða lagði áherzlu á það, að hraða yrði stofnun þeirrar deildar tækniskólans, sem helga ætti sig sérstaklega tæknistörfum í íslenzkum fiskiðnaði, fiskideildinni. Ég vil aðeins láta þess getið, að ég er honum sammála um, að það sé sú deildin, sem einna brýnust þörf sé á að koma á fót hér. Fiskideildinni í tækniskólanum er einmitt ætlað hliðstætt verkefni og þó líklega nokkru meira en virðist vaka fyrir þeim aðilum, sem sérstaklega hafa beitt sér fyrir stofnun fiskiðnaðarskóla, svo að ef þetta frv. yrði samþ. og þar með ákveðið að stofna tækniskóla, sem m.a. hefði fiskideild, tel ég, að tilgangi þeirra manna, sem haft hafa sérstakan áhuga á stofnun fiskiðnaðarskóla, sé náð. Og það get ég a.m.k. fullvissað hv. þm. um, að muni ég hafa eitthvað um framkvæmd þessara mála að segja, þá mun fiskideild við slíkan skóla ekki verða látin mæta afgangi.

Að síðustu ræddi hv. 4. þm. Norðurl. e. nokkuð um staðsetningu tækniskólans. Það mál var rætt mjög ýtarlega í n., sem samdi frv., og athugað rækilega í menntmrn. Niðurstaðan varð sú, að eins og nú háttar kennslukröftum hér á Íslandi, mundi annað trauðla vera fært en hafa tækniskólann í Reykjavík. Hitt er annað mál, að mér er kunnugt um þann áhuga, sem á því máli er á Akureyri að starfrækja tækniskóla þar. Í því sambandi vildi ég taka fram, að ég teldi mjög koma til greina og raunar mjög æskilegt, að undirbúningsdeild að tækniskólanum yrði ekki aðeins starfrækt í Reykjavík, heldur einnig annars staðar á landinu og þá fyrst og fremst á Akureyri. Það mundi auðvelda þeim Akureyringum og þeim Norðlendingum og Austfirðingum, sem leggja vilja fyrir sig tæknifræðinám, það mjög, ef undirbúningsdeild starfaði t.d. á Akureyri. Það er hugmynd, sem ég tel fyllilega koma til athugunar og er sjálfsagt að fái rækilega athugun. Það gæti einnig komið til greina, að t.d. 1. bekkjardeild tækniskólans yrði starfrækt utan Reykjavíkur, t.d. á Akureyri, vegna þess að þar er um tiltölulega almennt tækninám að ræða, sem auk þess er sameiginlegt fyrir allar sérdeildirnar. En ég verð að segja það alveg eins og er, með hliðsjón af þeirri þekkingu, sem ég hef fengið á þessu máli í sambandi við undirbúning þess, að mér er mjög til efs, eins og nú háttar um kennara og nauðsynleg rannsóknarstofu- og tækniskilyrði í slíkum skóla, að það væri framkvæmanlegt að starfrækja 2. og 3. bekk í hinum einstöku deildum tækniskólans á öðrum stað en hér í Reykjavik, a.m.k. fyrst um sinn, þó að ég vilji auðvitað ekki útiloka, að slíkt geti komið til greina, þegar nokkur reynsla er fengin um þessi mál.

Með þessu held ég, að ég hafi svarað þeim aths., sem fram komu af hálfu þeirra hv. þm., sem talað hafa. Ég vil enda mál mitt á að endurtaka þakkir minar fyrir þann stuðning, sem fram kom í ræðum þeirra við þetta frv.