25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv. (EOl), um það, að brýna nauðsyn ber til þess að taka alla iðnfræðsluna hér og allt iðnnámsskipulagið til gagngerðrar endurskoðunar. Þetta hefur mönnum einnig verið algerlega ljóst í sambandi við undirbúning þessa máls. Það var alveg sérstaklega athugað og rækilega rætt í sambandi við undirbúning málsins, hvort rétt væri að gera iðnskólapróf að inngönguskilyrði í tækniskólann, eins og niðurstaðan varð í sambandi við þetta frv. Ég geri mér persónulega algerlega ljósa gallana á því, að svo skuli þurfa að vera um sinn a.m.k. Meginástæða þess, að niðurstaðan varð sú að gera iðnskólapróf að inntökuskilyrði í tækniskólann, er sú, að þannig er þessu háttað á Norðurlöndum, þó að einmitt þetta atriði sé einnig til endurskoðunar þar, alveg sérstaklega í Danmörku. En ég tel afar mikilvægt, þegar við Íslendingar hyggjumst koma á fót tækniskóla, að sá skóli veiti menntun, er sé fullkomlega sambærileg og útskrifi menn, sem að menntun og reynslu standa að engu leyti að baki þeim mönnum, sem norrænu teknisku skólarnir brautskrá. En ef fallið hefði verið frá því skilyrði hér, að iðnskólapróf væri inngönguskilyrði í tækniskóla, þá mundu þeir menn, sem hinn íslenzki tækniskóli brautskráði, ekki vera sambærilegir, hvorki að menntun né reynslu, þeim, sem norrænir tækniskólar brautskrá.

Ég tel sem sagt mjög mikilvægt á þessu stigi, að hér séu ekki gerðar minni kröfur til þessara manna en gerðar eru á Norðurlöndum. Hins vegar tel ég rétt að fylgjast rækilega með þeirri endurskoðun, sem fram fer nú einmitt þar og gengur sumpart í þá átt að gera fullkomið iðnpróf ekki að inngönguskilyrði í skólana, a.m.k. ekki fullkomið verklegt iðnnám. Þar er verið að vinna að því að koma upp verknámsskólum í iðnaði, þannig að nám í þeim geti komið í stað verknáms á vinnustað, og þetta hygg ég að sé leiðin, sem hér ætti einnig að fara.

Það hefur verið athugað rækilega í sambandi við þá endurskoðun á iðnnámslöggjöfinni sjálfri, sem ég gat um í ræðu minni áðan, hvort ekki sé orðið fullkomlega tímabært að koma á fót verklegri kennslu í iðnskólanum eða í sambandi við hann, sem geti stytt verknámið á vinnustaðnum sjálfum. Ég tei hér vera um einhverja mestu endurbót að ræða, sem hugsanlegt væri að gera á iðnnámsskipulaginu hér. Með þessu móti væri ekki um það að ræða að slaka á kröfum til iðnaðarmanna um verklega kunnáttu, heldur hitt, að skipuleggja hið verklega nám betur en nú á sér stað, þegar gert er ráð fyrir því, að allt verklega námið fari fram á vinnustöðum. Slíkt verknám hlýtur oft að reynast óhentugt og tímafrekt. Það væri hægt að skipuleggja það miklu betur í sérstakri verknámsdeild í iðnskóla eða í sambandi við iðnskóla og gera þannig iðnnemunum kleift að tileinka sér jafnmikla verkmenntun, jafnmikla verkkunnáttu, með skipulegri hætti og þá um leið á miklu skemmri tíma en unnt er að veita mönnum slíka kunnáttu á vinnustöðunum sjálfum.

Þetta mál er sem sagt í undirbúningi, og ég vil gjarnan taka það fram hér, að ég fyrir mitt leyti er því mjög eindregið fylgjandi, að lagt verði allt kapp á að endurbæta hið verklega iðnnám með þessum hætti.

Annars er það svo, að ýmsar tæknimenntaðar stéttir leggja á það mikla áherzlu, að þeirri kröfu sé haldið, að hinir tæknimenntuðu menn hafi einnig iðnpróf. Þetta hefur komið greinilega fram í þeim umr., sem ég skýrði frá í ræðu minni áðan, að átt hefðu sér stað, ég vil segja undanfarin tvö ár, um endurskoðun á vélstjóranáminu. Ég hef persónulega verið þeirrar skoðunar, og hið sama á við um ýmsa embættismenn, sem um málið hafa fjallað, að það væri unnt að opna fleiri mönnum leið inn í vélskólann í Reykjavík en nú eiga kost á að sækja hann, vegna þess að eitt af inntökuskilyrðunum er fjögurra ára verklegt iðnnám í vélsmiðju. Sumir hafa jafnvel talið koma til greina, að ástæðulaust sé að gera þá menntunarkröfu til verðandi vélstjóra, að þeir hafi lokið iðnprófi. Það hefur hins vegar komið í ljós í umr. um þetta mál, að vélstjórunum sjálfum er mjög annt um, að ekki verði horfið frá þeirri menntunarkröfu til verðandi vélstjóra, að þeir hafi lokið iðnnámi, og ég hef í umr. um þetta mál öðlazt sannfæringu fyrir því, að frá þeirri kröfu megi ekki hvika, vegna þess að það mundi verða til mikils óhagræðis, ef íslenzkir vélstjórar hefðu ekki jafnframt iðnréttindi. Það, sem gera ætti í því máli, er því að mínum dómi ekki það að hvika frá kröfunni um iðnréttindi vélstjóra, heldur að koma upp verknámsskóla eða verknámsnámskeiðum, sem stytti hinn verklega námstíma, án þess þó að slaka á verkkunnáttukröfunum. Þetta er leiðin, sem ég tel skynsamlegast að fara, og er hún í samræmi við þá almennu stefnu, sem ég lýsti áðan, að ég tel að ætti að fylgja við endurskoðun á iðnfræðslunni og iðnnáminu.