08.11.1962
Efri deild: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

8. mál, öryggisráðstafanir gegn geislavirkum efnum

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur rætt þetta frv. og leggur einróma til, að það verði samþykkt óbreytt, eins og það liggur fyrir. Frv. er samið að frumkvæði Kjarnfræðinefndar Íslands, vandlega undirbúið og athugað af sérfræðingum á þessu sviði. Landlæknir mælir með því.

Fyrst er þeir geislar, sem hér ræðir um, uppgötvuðust og menn lærðu að færa sér þá í nyt, t.d. þá eiginleika þeirra, að þeir geta farið í gegnum líkami manna, svo að hægt er að sjá á skyggnitjaldi eða fá fram á ljósmyndafilmu, sem varin er fyrir venjulegu sýnilegu ljósi, skuggamyndir af beinum og líffærum, og síðar, er menn lærðu að nota þessa geisla til lækninga, var lítið vitað um skaðsemi þeirra. Þá urðu margir fyrir ofgeislun, einkum læknar og annað starfslið, er vann að greiningu sjúkdóma eða lækningu með þessu nýja vopni. Smám saman hefur þó tekizt að endurbæta tækin og einnig að beita viðeigandi geislavörnum í þeim stofnunum, sem við þetta fást, svo að hættan er nú minni þrátt fyrir sívaxandi notkun.

Eftir að vísindamönnum tókst að leysa kjarnorkuna úr læðingi, hefur viðhorfið breytzt á ný. Kjarnasprengjur stórveldanna hafa á undanförnum árum auk þeirra slysa, sem þær hafa valdið, orðið til þess að auka verulega við þá geislun, sem við venjulega verðum fyrir utan úr geimnum, a.m.k. um tíma. Óvíða hefur þetta þó orðið svo mikið, að hættulegt sé talið. En þetta hefur þó enn vakið menn til umhugsunar um það að gæta fyllstu varúðar í meðferð þessara geisla, einkum vegna þess, að tækninni hefur fleygt fram, þannig að nú hefur tekizt að búa til tæki, sem geislar frá sér miklu öflugri röntgengeislum en áður, auk þess sem framleiðsla geislavirkra efna til lækninga og alls konar rannsókna, bæði í læknis- og líffræði og einnig í öðrum starfsgreinum, fer stöðugt í vöxt.

Hér á landi stefnir í þessa átt eins og annars staðar. Röntgentækjum fjölgar, og notkun þeirra vex. Einnig eru hér notuð geislavirk efni, bæði radíum, sem hefur verið notað um áratugaskeið, en einnig er byrjað að nota hér nýrri geislavirk efni, þ.e.a.s. nýrri í þeirri merkingu, að skemmra er siðan mönnum tókst að búa til svo mikið magn af þeim sem hentar og lærðist að nota þau. Það er því enginn vafi á því, að tímabært er að setja um þetta efni lög og reglur til þess að tryggja, svo sem unnt er, að fyllstu varúðar sé gætt í notkun og meðferð þessara dýrmætu tækja og efna.

Ég vil nefna t.d. eina ástæðu, sem veldur því, að það er nauðsynlegt að setja um þetta lög og reglur. Þessi tæki og efni eru mjög dýr, en með þeim er líka stundum hægt að ná betri árangri en með nokkru öðru móti, sem við þekkjum. Þess vegna er klifinn þrítugur hamarinn til þess að eignast tækin eða efnin. En þegar tækin eru fengin, er mikil freisting að nota þau, þótt fjárvant kunni að vera til þess að ganga eins frá öllum aðbúnaði til öryggis og vera ber. Fyrstu röntgentækin, sem ég vann með t.d., voru í þakherbergi undir súð og háspennuleiðslur óvarðar. Við urðum að gæta sjúklinganna, svo að þeir kæmu ekki við þær, þegar tækin voru í gangi.

Um efni málsins leyfi ég mér að öðru leyti að vísa til hinnar ýtarlegu greinargerðar, sem prentuð er með frv.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi þessa máls míns, leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt.