25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hæstv. menntmrh., að ég hefði haldið því fram, að það ætti að hafa hina bóklegu kennslu hjá verkstæðunum eða meistaranum. Það er ekki mín hugsun. Það er mín hugsun, að það verði samið við meistarana um, að þeir tækju nemendur í verklega kennslu, sem þeir gætu lokið að kenna á ákveðnum tíma og miklu styttri en nú er gert samkv. samningum. Enn meiri ástæða er til þess að gera þetta nú, síðan ríkið er farið að hafa verknámsskóla fyrir ýmsa unglinga í landinu, en þar koma fram oft og tíðum duldir hæfileikar hjá þessum mönnum til iðnaðarnáms. Ég er alveg viss um, að það er hægt að stytta stórkostlega nám, sem nauðsynlegt er til þess að taka sveinspróf í ákveðinni grein, frá því, sem nú er, auk þess sem það er vitað, að nú er iðnaðurinn að greinast meira og meira í sérgreinar á hverju stigi. Við skulum hugsa okkur t.d. í skipasmíði, þar sem menn vinna eingöngu árum saman við að hnoða nagla. Hverjum lifandi manni dettur í hug, að það þurfi að læra það í 4 ár að hnoða nagla? En þessir menn gera oft ekkert annað allt sitt lif en að hnoða nagla í skipsskrokk. Þetta er hægt að læra á 6 mánuðum, 3 mánuðum kannske.

Ég hef heyrt þessa viðbáru fyrr, að það þyrfti að hugsa um æfinguna, að menn væru nægilega fljótir, þó að þeir kynnu verkið, þá væru þeir ekki nægilega fljótir. En er ekki hægt að setja það upp sem skilyrði við próf, að viðkomandi aðili inni af hendi að smíða ákveðið stykki, hvort sem það er járn eða tré, og hann skuli ljúka því á ákveðnum tíma, til þess jafnframt að sýna, hve mikla æfingu hann hefur í flýti? Þetta er enginn vandi. Það, sem þarf að gera í þessu máli, er að setja það inn í iðnaðarlöggjöfina, að menn megi taka próf í verklegu námi, alveg eins og í bóknámi, hvort sem þeir hafa nokkurn tíma setið á skólabekk eða ekki. En ég veit ósköp vel, að það hefur staðið hörð barátta um þetta á milli einmitt meistaranna annars vegar og hinna, sem vilja læra, hins vegar, því að meistararnir hafa viljað halda visthjúasambandinu við, að menn skuli vera vistaðir hjá þeim í 4 ár, hvort sem þeim er kennt eða ekki. Það er meginástæðan fyrir því. En við erum komnir allt of langt, Íslendingar, í hinum nýja tíma til þess að láta það stöðva okkur til þess að breyta löggjöfinni í þá átt að hætta að halda vistbandi á unglingum í 4 ár, bara til þess að láta þá sópa gólf, þrífa skít o.s.frv., sem vitanlegt er að þessir menn gera meira en hálfan námstímann.

Ég vil því vænta þess, að hæstv. menntmrh. meti hér meira hagsmuni þjóðarinnar, þegar verður tekin til athugunar breyt. um þessa löggjöf, heldur en hagsmuni einstakra framleiðslustétta, sem hafa hag af því að hafa menn í 4 ár til þess að kenna þeim hluti, sem hægt væri að kenna þeim kannske á einu ári eða skemmri tíma.