17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það kom fram í umr. um mál þetta við 1. umr., að sú skoðun er ríkjandi hér í þinginu, að tækniskólamálið sé stórmál, það sé orðið svo aðkallandi fyrir þjóðina að koma framhaldsmenntun í tæknimálum á betra stig en verið hefur, að leggja verði hina mestu áherzlu á stofnun Tækniskóla Íslands, sem telja verður eina þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegastar eru á því sviði. Í þessum anda hefur menntmn. fjallað um frv. um Tækniskóla Íslands á allmörgum fundum.

Hins vegar kom fljótlega í ljós, að um var að ræða veruleg andmæli gegn ýmsum atriðum í frv., eins og það var lagt fram. Þessi andmæli komu fram bæði frá fulltrúum vélstjórasamtakanna, frá fulltrúum Tæknifræðingafélagsins og nokkrum fleiri aðilum. Hins vegar er rétt að geta þess, að skólastjóri vélskólans sendi álitsgerð og gerði ráð fyrir því, að frv. yrði óbreytt, enda var hann einn þeirra þriggja manna, sem sömdu það. Þá var einnig talið, að bráðabirgðaákvæði frv. um það, að hinn nýi skóli tæki til starfa haustið 1963, væri byggt á of mikilli bjartsýni og því ekki raunhæft að lögfesta það, þar sem litlar líkur væru taldar til þess, að nokkur leið væri til að framkvæma það.

Þegar n. hafði komizt að þeirri niðurstöðu, að réttast mundi vera að taka Vélskóla Íslands út úr þessu skólamáli og láta hann starfa áfram sem sjálfstæða stofnun eftir sínum eigin lögum, eins og hann hefur gert, og í öðru lagi, að vonir manna um, að þessi nýi skóli gæti tekið til starfa strax á næsta hausti, 1963, væru því miður ekki raunhæfar, þá stóð það eftir, að raunverulega þyrfti Alþ. að láta í ljós vilja sinn til þess, að slíkur skóli væri stofnaður, og veita þannig með lagasetningu heimild til þess, að áfram yrði unnið að stofnun skólans. Hér er um mjög veigamiklar breyt. að ræða, og í góðu samstarfi og samráði við hæstv. menntmrh., sem fylgdi þessu máli úr hlaði, hefur frv, verið umskrifað og kemur fram í nýrri mynd í brtt. á þskj. 651.

Eins og ég hef þegar nefnt, eru höfuðbreytingarnar þær, að Vélskóla Íslands er ekki blandað í þetta mál. Hann á ekki að verða deild í Tækniskóla Íslands, eins og upprunalega var fyrirhugað. Í öðru lagi eru bráðabirgðaákvæðin um tímatakmarkið tekin út. Í þriðja lagi eru gerðar ýmsar smærri breyt., sem byggjast aðallega á því, að við nánari athugun var talið, að sumar greinar hins upprunalega frv. fjölluðu um efni, sem eins gæti verið í reglugerð og að ýmsu leyti væri eðlilegra að væri í reglugerð. Í fjórða lagi gerir n. eina efnisbreytingu með því að gera ráð fyrir, að undirbúningsdeild tækniskólans geti einnig starfað á Akureyri. Það er í 8. brtt., við 11. gr., sem mundi verða 7. gr. Og í nál. á þskj. 650 lætur menntmn. þá skoðun sína í ljós, að með því, að undirbúningsdeild yrði einnig starfrækt á Akureyri, verði lagður grunnur að framtíðartækniskóla á Akureyri.

Ég tel ekki þörf á því að ræða brtt. á þskj. 651 hverja fyrir sig, af því að þær eru raunverulega umskrift á frv. í þeim anda, sem ég hef hér lýst. Ef til vill kunna hv. dm. að segja, að það sé vafasamt að gera svo mikla breyt. á frv. á síðasta stigi þings, og væri hyggilegra að láta málið bíða til hausts. Ástæðan fyrir því, að menntmn. telur rétt að gera þessar breyt. og breyta frv: í heimildarlög, er sú, að ef frv. dagar uppi á þessu þingi, þá gerist ekkert í tækniskólamálinu upp undir ár. Þá verðum við að byrja aftur í haust á svipuðum stað og nú, en ríkisstj. hefur ekki beina heimild til frekari aðgerða en þegar hafa verið gerðar við samningu frv. A hinn bóginn mun málið halda áfram, ef við samþ. heimildarlög, og í næstsíðustu brtt., 12. till., er beinlínis gert ráð fyrir því að fyrirskipa í þessum lögum, að þegar eftir gildistöku l. skuli menntmrh. skipa n. til að semja reglugerð um starfsemi skólans o.s.frv. M.ö.o.: með því að breyta frv. í heimildarlög, taka út úr því þau umdeildu atriði, sem ég hef lýst, er tryggt, að málið heldur áfram og það verður þegar í sumar unnið að því að móta þennan skóla með nauðsynlegum reglugerðum fyrir hann. Og í heild má búast við, að samþykkt á frv., eins breyttu og menntmn. leggur til, mundi hraða þessu máli í heild um upp undir ár.

Það hefur komið fram í umræðum um tæknifræðslumálin, bæði í umr, um þetta frv. og önnur á þessu þingi og síðasta þingi, að margir hv. þm. telja þetta aðkallandi mjög, telja, að þjóðin megi ekki við að tapa heilum árum úr þróun tæknimenntunarmálanna. Þess vegna vonast menntmn. til, að hv. d. geti fallizt á að gera þessar höfuðbreytingar á frv. og tryggja því síðan framgang.