17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. — Ég held, að það sé til bóta, eins og hv. menntmn. leggur til, að breyta frv, í heimildarform. Ég held, að málið sé ekki nægilega vel undirbúið til þess að ganga að fullnustu frá því í lagaformi, og því eins gott að hafa heimildarformið á.

Eins og hv. 4. þm. Norðurl, e. gat um hér áðan, hafa komið fram tilmæli frá bæjarráði Akureyrar um það, að væntanlegur tækniskóli yrði þar settur upp. Fyrir þessari beiðni eða áskorun liggja aðallega þau rök, að Akureyri sé þegar mikill skólabær og að í bænum sé nú þegar vaxandi iðnaðarmannastétt. Þetta hvort tveggja er rétt. Hins vegar mælir það gegn þessari beiðni, að það hlýtur að liggja alveg ljóst fyrir, að yfirgnæfandi hluti þeirra nemenda, sem koma til með að sækja skólann, verður héðan úr Reykjavík eða úr nágrenni Reykjavíkur, og að sjálfsögðu hlýtur það að hafa vissa ókosti í för með sér fyrir þá menn, sem skólann ætla sér að sækja, að þurfa að fara norður til Akureyrar í stað þess að geta stundað nám hér í Reykjavík.

Ég er á þeirri skoðun, að það hljóti innan tíðar að koma upp tveir tækniskólar hér á landi. Fyrir slíka skóla eru nægilega mikil verkefni, og það er eðlilegt, að skólinn komi fyrst í stað hér í Reykjavík, ekki sízt vegna þess að það mál hefur nú þegar verið allmikið undirbúið, að skólinn komi hér, og hér er mest fjölmennið. En að því þarf svo að stefna, að tækniskóli komi einnig á Akureyri, og einmitt með því að gera ráð fyrir því, að á Akureyri komi nú þegar undirbúningsdeild, þá tel ég eins og n. bendir á í sínu áliti, að þar með sé kominn vísir að tækniskóla á staðnum og það muni ekki líða langur tími þar til þar komi upp fullkominn tækniskóli, sem að öllu leyti verði kostaður af ríkinu.

Nú er í undirbúningi að byggja veglegt iðnskólahús á Akureyri, og ég vora, að þeirri byggingu verði lokið á næstu tveimur árum, og þegar iðnskólinn hefur flutzt þangað, verði einmitt kominn grundvöllur til þess, að um svipað leyti geti einnig tekið til starfa á Akureyri tækniskóli. Ég vonast til þess, að þeir aðilar, sem koma til með að stjórna þessum málum, verði þá sammála um þetta atriði, og ég veit, að Akureyringar munu gera allt,

sem í þeirra valdi stendur, til þess að svo megi verða. Ég vona sem sé, að skólarnir verði tveir og Akureyrarskólinn geti tekið til starfa um svipað leyti og nýja iðnskólahúsið verði komið þar upp.