17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) beindi þeirri fyrirspurn til menntmn. í gær, hvort ekkí hefði verið rætt við Tæknifræðingafélagið um þetta mál. Eins og fram kom í framsögu n., var það vissulega gert, bæði munnlega og skriflega, og það er einmitt vegna sjónarmiða frá samtökum tæknifræðinga og vélstjóra, sem þær breytingar voru gerðar, sem menntmn. leggur til.

Þessi umr. hefur aðallega snúizt um heimili skólans og þá brtt., sem er nr. 8 á þskj. 651, um það, að starfrækja megi undirbúningsdeild við skólann bæði í Reykjavík og á Akureyri. Fram kom í nál., að menntmn. lítur á þetta sem vísi að sérstökum tækniskóla á Akureyri, en ýmsum ræðumönnum þótti ástæða til að kveða fastar á um þetta og taka það skýrar fram. Nú hafa átt sér stað nokkrar samræður um þetta atriði, en efnislega var raunverulega um samkomulag að ræða, og er niðurstaðan sú, að ég flyt hér brtt. við brtt. á þskj. 651, 8. till., í þeim tilgangi að gera þennan skilning ótvíræðari. Þessi brtt. hljóðar svo:

„Aftan við gr. bætist:

Einnig er heimilt að starfrækja aðrar bekkjar- og skóladeildir tækniskólans á Akureyri, enda sé að því stefnt, að þar rísi sjálfstæður tækniskóli.“

Það hefur ekki verið hægt að ná til allra menntmn.-manna, svo að n. stendur ekki formlega að þessu, en samráð hefur verið haft við þá, sem ræddu þetta mál í gær og hafa flutt um það till., og vona ég, að samkomulag verði um að afgr. þetta mál á þennan hátt, en brtt. við 1. gr. verði þá tekin aftur.