17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Í umr. í gær gagnrýndi ég það, að hv. menntmn. skyldi ekki ganga lengra til móts við áhuga Akureyringa um tækniskóla á Akureyri heldur en fram kom í brtt. þeim, sem n. lagði fram í gær.

Í till. n. var aðeins lagt til, að heimilt yrði að stofna á Akureyri undirbúningsdeild undir tækniskóla, en það taldi ég að væri fremur lítils virði og ekkert, sem tryggði það, að sú deild yrði stig í þróun til fullkominnar tæknifræðikennslu, þrátt fyrir ágætar yfirlýsingar n. um, að hún teldi, að svo mundi verða. Undirbúningsdeildin ein án lagaheimildar um starfrækslu annarra bekkjar- og skóladeilda tækniskólans er varla nægur grundvöllur undir fullgilda tæknifræðikennslu.

Nú var það að vísu meginsjónarmið mitt og hv. 3. þm. Norðurl. e., eins og kom fram í umr. í gær og eins og brtt. okkar bendir til, að hinn fyrirhugaði tækniskóli yrði staðsettur á Akureyri. Undir þá kröfu gat hv. menntmn. ekki tekið. En eftir umr. um málið í gær og nánari íhugun af hálfu n. undir umr., eða a.m.k. frsm. n., þá lýsti hann yfir því, hv. 5. þm. Vesturl., að hann teldi ekki fráleitt að leita samkomulags um málamiðlun, þ.e.a.s. að hann legði til, að sett yrði í frv, ákvæði um heimild til þess að starfrækja á Akureyri auk undirbúningsdeildarinnar aðrar bekkjardeildir. Ég fagnaði þessari yfirlýsingu hv. frsm. og lýsti yfir því fyrir mitt leyti, að ég kynni að fallast á frv., ef því yrði breytt í þá átt, sem hann nefndi, og ef það yrði skýrt tekið fram í frvgr., að stefnt yrði að því að efna til sjálfstæðs tækniskóla á Akureyri jafnframt tækniskólanum í Reykjavík. Get ég fúslega fallizt á, að slík lausn sé æskileg, eins og viðhorfin eru í málinu, enda er mér síður en svo í mun að koma í veg fyrir, að tækniskóli starfi í Reykjavík, ef það má teljast tryggt í löggjöf, að sams konar skóli starfi einnig á Akureyri.

Hv. frsm. og form. menntmn. ræddi síðan við okkur hv. 3. þm. Norðurl. e. utan fundar í gær og lofaði þá að beita sér fyrir því, að flutt yrði brtt., er fæli í sér slíka lausn. Þessi brtt. hefur nú komið hér fram, og ég vænti þess, að með þessu sé stigið raunhæft spor í þá átt, að hér á landi verði tveir tækniskólar, eins og virtist almennur vilji fyrir í umr. í gær og m.a. vilji hæstv. menntmrh. Með tilliti til þessa munum við hv. 3. þm. Norðurl. e. taka aftur till. okkar um staðsetningu skólans á Akureyri, þó að því tilskildu, að hv. þd. samþykki hina nýframkomnu brtt. frá frsm. menntmn.