19.04.1963
Efri deild: 80. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Nd. í því formi, sem það er lagt fyrir þessa hv. d., og var það samþykkt siðdegis í gær samkv. einróma meðmælum hv. menntmn. Nd. og með shlj. atkv. þeirrar hv. d. Áður en ég geri í örfáum orðum grein fyrir þeim breytingum, sem frv. tók í Ed., vil ég fara fáeinum orðum um nauðsyn málsins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja og skoðun allra, sem til þekkja, að eitt brýnasta verkefnið, sem leysa þurfi í íslenzkum fræðslumálum, sé að bæta skilyrði æskumanna til þess að öðlast tæknimenntun. Tæknin skiptir nú orðið svo miklu máli í sérhverju iðnaðarþjóðfélagi, að framþróun og framleiðsluaukning er að verulegu leyti undir því komin, að tæknimenntun sé sem bezt. Í nágrannalöndum er talið, að eðlilegt sé, að iðnfræðingar eða tæknifræðingar svonefndir séu um það bil helmingi fleiri en verkfræðimenntaðir menn, og í flestum nágrannalandanna mun það svo, að samtímis því, sem um það bil 2 verkfræðingar koma á hvert þús. íbúa, þá koma 4 tæknifræðingar á hvert þús., þeir eru um það bil helmingi fleiri.

Ástandi þessara mála hér er mjög ábótavant. Kemur það m.a. fram í þeirri staðreynd, að verkfræðingar eru hér ekki nema 1.4 á hvert þús. íbúa, sem er undir því meðaltali, sem talið er eðlilegt að gildi í nálægum löndum um tölu verkfræðinga, en hins vegar er tala tæknifræðinga aðeins 0.5 á hvert þús. Hér er ástand þessara mála þannig, að verkfræðingar eru um það bil þrisvar sinnum fleiri hlutfallslega en tæknifræðingar, en í nálægum löndum er talið eðlilegt og nauðsynlegt, að tæknifræðingar séu helmingi fleiri en verkfræðingar. Hér er um að ræða skort á verkfræðimenntuðum mönnum, miðað við það, sem talið er hæfilegt í nálægum löndum. En út yfir tekur þó, ef litið er á tölu tæknifræðinganna. Tala tæknifræðinga er hér hlutfallslega ekki nema 1/8 hluti þess, sem talið er eðlilegt í nálægum löndum.

Ég læt þetta nægja til þess að undirstrika nauðsynina á því að stórfjölga hér á landi tæknifræðingum, en það verður ekki gert nema með því móti, að ungir menn, sem leggja vilja út í tæknifræðinám, eigi kost á því að afla sér tæknifræðimenntunar í íslenzkum skólum. Hingað til hafa allir slíkir menn orðið að leita til nágrannalanda, en á Norðurlöndum og í Þýzkalandi eru mjög góðir tækniskólar. Reynslan sýnir hins vegar, að ekki leita nægilega margir menn til tæknifræðináms, meðan það nám verður að stunda utan Íslands. Þetta eru meginrökin fyrir því, að ekki megi lengur dragast að koma hér upp í landinu skilyrðum til þess fyrir ungt fólk að afla sér tæknimenntunar, ekki megi lengur dragast að koma hér á fót íslenzkum tækniskóla. Það hefur og komið í ljós við undirbúning þessa máls og þær umr., sem fram hafa farið þegar um það í hv. Nd., að allir þm., sem látið hafa málið til sín taka þegar, virðast vera einróma um, að hér sé nauðsynjamál á ferðinni, sem brýna nauðsyn beri til að hljóti afgreiðslu nú á þessu þingi.

Frv. var lagt þannig fram, að gert var ráð fyrir, að tækniskólinn tæki til starfa haustið 1963, þ.e. á næsta hausti. Enn fremur var gert ráð fyrir, að skólinn, sem nú þegar starfar, vélskólinn í Reykjavík, yrði deild í væntanlegum tækniskóla. Hv. menntmn. Nd. átti ýtarlegar viðræður um þetta mál við samtök tæknifræðinga og samtök vélstjóra, og þær viðræður leiddu til þess, að hv, menntmn. Nd. í samráði við mig gerði þá breyt. á frv., að vélskólinn skyldi halda áfram sem sjálfstæður skóli, en ekki verða deild í væntanlegum tækniskóla, og fallið er frá því að binda í lögum, að tækniskólinn skuli taka til starfa á næsta hausti, en í stað þess er formi lagasetningarinnar breytt í heimildarlög, heimild til handa stjórnarvöldum til að stofna tækniskóla, þegar nauðsynlegum undirbúningi er lokið, en gert jafnframt ráð fyrir því, að þegar eftir þinglok, ef frv. verður að lögum, verði sett nefnd til að semja reglugerðir fyrir skólann og hefja undirbúning að honum. Reynslan mundi þá leiða í ljós, hvort sumarið er nægilega langur tími til að ljúka undirbúningi undir stofnun skólans. Ef svo reynist, mun skólinn taka til starfa á næsta hausti. Ef hins vegar sumarið reynist ekki nægur undirbúningstími, mun verða starfrækt aftur næsta vetur undirbúningsdeild, eins og starfað hefur á s.l. vetri, og skólinn ekki taka til starfa fyrr en hitt haustið. Engum dettur í hug, að það mundi þurfa að taka lengri tíma en það að ljúka undirbúningi undir, að skólinn geti tekið til starfa.

Það voru einkum sjónarmið tæknifræðinganna, að undirbúningur að stofnun skólans yrði að vera mjög vandaður, og þeir áskuðu eftir því að fá að eiga hlut að þeim undirbúningi. Menntmn. Nd. og ríkisstj. féllust á að taka tillit til þessara sjónarmiða, að ákveða ekki að stofna skólann á næsta hausti, nema því aðeins að málið hefði hlotið forsvaranlegan og nægilegan undirbúning. Ég vil því leggja áherzlu á, að sú breyting, sem hv. Nd. samhljóða gerði á frv., er í raun og veru ekki efnisbreyting á málinu, nema að því er það snertir, að vélskólinn eigi ekki að vera deild í væntanlegum tækniskóla, heldur starfa áfram sem sjálfstæður skóli.. Að öðru leyti er ekki um efnisbreytingu að ræða, heldur það eitt, að sú skoðun kom fram af hálfu tæknifræðinganna, að e.t.v. dygði sumarið ekki sem undirbúningstími að stofnun skólans, og þótti því rétt að breyta málinu í það horf, að skólinn skyldi ekki taka til starfa fyrr en öruggt væri, að málið hefði hlotið nægilegan undirbúning.

Ég vil sem sagt endurtaka, að ef sumarið reynist nægilegur tími til þess að koma skólanum á laggirnar, mun það verða gert á grundvelli frv., eins og það var afgr. í Ed. Hins vegar er ég tæknifræðingunum alveg sammála um, að hér er um svo stórt og viðurhlutamikið mál að ræða, að betra væri að bíða eitt ár en flaustra undirbúningnum af. Þetta eru höfuðrökin fyrir þeirri formbreytingu, sem málið tók í hv. Nd.

Önnur breyt. var einnig gerð á málinu í hv. Nd. að lokum með shlj. atkv., og það var að heimila að starfrækja bæði undirbúningsdeild og einstakar bekkjardeildir, einnig á Akureyri. Upphaflega var gert ráð fyrir, að tækniskólinn starfaði einungis í Reykjavík, en af hálfu forvígismanna Akureyrarkaupstaðar komu fram óskir um það og kom fram mikill áhugi á því að koma á fót fyrst vísi að tækniskóla og síðar fullkomnum tækniskóla á Akureyri. Menntmn. Nd. hafði samráð við ríkisstj, og var á einu máli um að leggja til, að í frv. yrði tekin heimild til þess, að bæði undirbúningsdeild og einstakar bekkjardeildir mætti starfrækja á Akureyri, ef aðstaða þætti til, og var frv. einnig breytt með shlj. atkv. í þessa átt.

Herra forseti. Með hliðsjón af því, að algert samkomulag varð um þetta mál í hv. Nd. og það afgr. þar með shlj. atkv., vil ég leyfa mér að vænta þess, að málið hljóti einnig jafnvíðtækan stuðning hér í þessari hv. d., og leyfi mér að mælast til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn., og vænta þess, að málið fái eins skjóta afgreiðslu í d. og frekast þykir fært.