29.03.1963
Efri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

227. mál, tollskrá o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Tolla- og skattamál eru vafalaust meðal allra stærstu mála, sem löggjafarþing fær til meðferðar. Skipan þeirra ákvarðar að mjög verulegu leyti skiptingu þjóðartekna og aðstöðu atvinnuveganna og er þannig mótandi fyrir lífskjörin. Skipan þessara mála er markandi fyrir efnahagslega stéttaskiptingu í landinu. Hún getur leitt eina atvinnugrein til lífs, lamað aðra og drepið þá þriðju. Hún getur í sem fæstum orðum haft hina mikilvægustu þýðingu fyrir hagsmuni stéttanna og almenn lífskjör í landinu. Allar meiri háttar ákvarðanir í tolla- og skattamálum eru því stórpólitísk mál, stórpólitískar ákvarðanir, sem ber að undirbúa sem slíkar, áður en þær eru lagðar fyrir Alþingi, sem síðan hlýtur að leggja áherzlu á, að hvert málsatriði sé kannað af sérstakri vandvirkni og ekki hrapað að neinu. Við undirbúning slíkra stórmála sem nýrra tolla- eða skattalaga eða verulegra breytinga frá fyrri skipan þeirra mála er sú aðferð ein hæf og samboðin lýðræðislegum stjórnarháttum, að öllum flokkum, sem á þingi eiga sæti, sé gert fært að fylgjast með öllum undirbúningi frá byrjun með beinni þátttöku í endurskoðun, að öll meginsjónarmið og stefnur, sem uppi eru í slíkum málum, fái að koma fram strax við undirbúning mála og hafi í reyndinni sama rétt til tillögugerðar, þegar til úrslita dregur á Alþingi.

Með þeim hætti, sem nú hefur verið á hafður, þ.e.a.s. þeim, að starfsmönnum stjórnarflokkanna einum hefur leyfzt að fjalla um allan undirbúning og öllum fyrirætlunum hefur verið haldið stranglega leyndum fram til síðustu stundar fyrir stjórnarandstöðunni, er í raun réttri verið að svipta þm. stjórnarandstöðunnar öllum tillögurétti varðandi þessi stórmál. Hinir stjórnskipuðu höfundar þessara nýju tollalaga hafa unnið að málinu í full þrjú ár, eða nákvæmlega 3 ár og 3 mánuði. Svo stórt viðfangs hefur málið verið. En okkur þm. stjórnarandstöðunnar eru ætlaðir nokkrir sólarhringar til þess hvors tveggja að kanna þennan gífurlega bálk og til þess að móta okkar brtt. Hvorugt er auðvitað mögulegt. Engin heilsteypt tillögugerð getur átt sér stað víð slík starfsskilyrði og heldur tæpast hugsanlegt, að unnt sé til nokkurrar hlítar að gera sér grein fyrir frv. sem þessu nema á margföldum þeim tíma, sem til þess er ætlaður. Og nú til að byrja með býður hæstv. fjmrh., sem búinn er að láta einkaþjóna sína vinna í málinu í 31/4 ár, okkur til umr., eftir að við höfum haft afrakstur þessara þriggja ára starfs sérfræðinga hans til athugunar í 1–2 sólarhringa. Slík vinnubrögð og þvílík eru því miður ekkert einsdæmi hjá núv. hæstv. ríkisstj., heldur svo til algild regla, þar sem megininnntakið er að troða á rétti andstæðinganna með ólýðræðislegum og óþingræðislegum v innubrögðum og um leið að reyna að sanna það sem oftast og sem áþreifanlegast, að þm. sjálfs stjórnarliðsins séu aðeins auðsveip verkfæri, sem hlýði fyrirskipunum eins og þrýst sé á hnapp, en hv. Alþingi sé ekki samkoma, sem telji sér skylt að kanna hvert mál til hlítar og taka síðan afstöðu eftir málefnum og sannfæringu.

Í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hefur það lagzt svo að segja niður með öllu, að mþn. skipaðar fulltrúum úr röðum þingflokkanna vinni að endurskoðun meiri háttar lagabálka. Engir nema þm. stjórnarflokkanna eða þá starfsmenn þeirra mega koma þar nærri. Ekki hefur þetta þó verið gert í sparnaðarskyni, því að aldrei hefur svo gífurlegum fjárupphæðum verið varið til nefndarstarfa við endurskoðun l. og samningu frv. eins og nú. Tilgangurinn getur því aðeins verið sá einn að útiloka stjórnarandstæðinga frá þátttöku í löggjafarstarfinu á jafnræðisgrundvelli við stjórnarflokkana, útiloka það, að sjónarmið þeirra og skoðanir komist að við undirbúning stórmála og raunar þeirra smærri einnig. Þetta kalla ég að vega að þingræðinu og troða á lýðræðislegum vinnubrögðum. En það er ekki aðeins með þessum hætti, sem öfugt og illa er að hlutunum staðið. Ofan á annað er æ ofan í æ leitað færis til þess að haga svo vinnubrögðum, að Alþ. sé sem mest óvirðing að. Það liggur nú fyrir, að aðilar utan Alþingis, þ. á m. kaupmannasamtök og iðnrekenda, hafa fjallað um þetta tollskrárfrv., ekki dögum saman, ekki vikum saman, heldur mörgum mánuðum saman, áður en þm. er sýndur sá trúnaður að fá að sjá frv. eða uppkast af því.

Í tímaritinu Frjálsri verzlun, sem út kom um s.1. áramót, þ.e.a.s. fyrir ársfjórðungi, segir þannig frá því, að kaupmannasamtökin hafi haft tollskrárfrv. til athugunar og fleiri aðilar hafi einnig haft það til athugunar, þ.e.a.s. þeir aðilar, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við tollamálin. Á sama tíma og allt þangað til í fyrradag var formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar synjað um að fá að sjá þetta frv. sem trúnaðarmál. Allir skyldu fyrr fá vitneskju um málið heldur en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Þannig heldur hæstv. ríkisstj. uppi virðingu Alþingis og sýnir um leið ást sína á þingræðinu. Og svo er þetta hneyksli, því að annað er ekki hægt að kalla það, kórónað með því, að sjálfur hæstv. fjmrh. hleypur með frv. á Varðarfund í fyrrakvöld og gerir Varðarmönnum grein fyrir frv., áður en hann flytur framsöguræðu sína hér á hv. Alþ., — fyrst Vörður, síðan Alþingi. Þennan sama hátt hafði þessi hæstv. ráðh. á, þegar hann á sínum tíma bar fram frv. ríkisstj. um skattamál. Gleðiboðskapur hans þá um stórfellda skattalækkun auðfélaganna í landinu var fyrst fluttur í Verði, síðan á hv. Alþingi. Þessi framkoma hæstv. ráðh. er því ekkert einstakt frumhlaup nú, heldur regla, sem hann virðist vera að reyna að skapa og reyna að festa í sessi. Sjálfur er þessi hæstv. ráðh., eins og kunnugt er, einn aðaleigandi að heildsalablaðinu Vísi, og það er því varla tilviljun, að einmitt heildsalastéttin hefur notið forréttinda fram yfir hv. Alþ. um það að fjalla um þetta frv. Það er vafalaust, að heildsalarnir, meðeigendur hæstv. ráðh. að dagblaðinu Vísi, eru búnir að hagnast vel á því að hafa fengið í hendur fulla vitneskju um fyrirhugaðar breytingar á tollskránni nærri því ársfjórðungi áður en hún er lögð fram hér á hv. Alþingi. Það hefur áreiðanlega ekki verið þeim alveg ónýtt að geta hagað innkaupum sínum og sölum í samræmi við slíka vitneskju. Ég tel, að slík vinnubrögð sem ég hef hér lýst og þó í fáum orðum þurfi að fordæma eftirminnilega, og ég vil vona, að þeir tímar séu ekki langt undan, að breyting verði á breytni þeirra, sem með völdin fara, að þessu leyti.

Það, sem ég nú hef sagt, varðar að sjálfsögðu aðeins sjálf vinnubrögðin í þessu máli og framkomuna gagnvart hv. Alþingi af hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. sérstaklega, en ekki sjálít málið, efni þess, hvaða breytingar það hefur í för með sér í tolla- og skattamálum, hvaða breyt. það boðar í þeim efnum. Eins og að líkum lætur, hefur hvorki mér né öðrum stjórnarandstæðingum gefizt neitt ráðrúm til þess að kanna frv. til neinnar hlítar, og þess vegna hlý t ég að geyma mér til siðari umr. aths. um einstök atriði.

Það er gert mikið úr því, að hér sé um stórfelldar tollalækkanir að ræða. „Tollalækkanir um 100 millj. kr.“, hljóðaði t.d. þversíðufyrirsögn heildsalablaðsins í fyrradag. Og ég vil ekki að óreyndu rengja það, að sú staðhæfing úr grg. frv. sé rétt, að miðað við óbreyttan innflutning nemi tollalækkanir um 97 millj. kr. En í því sambandi fer heldur varla hjá því, að rifjað sé upp, hversu mikið tollar hafi hækkað í tíð núv. hæstv. ríkisstj. og hversu óveruleg þessi lækkun, sem hér er ráðgerð, er á móti henni, þó að hún ætti eftir að verða raunveruleg, sem ég tel útilokað, eins og ég mun víkja að síðar. Samkv. gildandi fjárl. fyrir yfirstandandi ár nema þeir tollar og aðflutningsgjöld, sem hér eru nú sameinuð í einn toll, 1347.4 millj. kr., þ.e.a.s. vörumagnstollur 40 millj., verðtollur 567, söluskattur 605.4 og innflutningsgjöld 135, og er þá sleppt smærri sköttunum, sem renna ekki beint í ríkissjóð og skipta ekki höfuðmáll. Árið 1959, síðasta fjárlagaárið fyrir viðreisn, námu þessir tollar, þ.e.a.s. aðeins þessir tollar, en ekki allir tollar og skattar, samanlagt tæplega 500 millj. kr. Hækkunin á þessum hluta skattheimtunnar, sem hér er um að ræða, er því yfir 850 millj. frá árinu 1959 eða nánast 170%. Það er hátt í þreföldun. Sé hins vegar miðað við hækkun allra tolla og skatta á þessu tímabili, þá er hækkunin 1070 millj., og sé miðað við árið 1958, verður myndin enn þá dekkri, því að á því tímabili, þ.e.a.s. miðað við fjárlög næsta ár og fjárlög 1958, nemur hækkun allra tolla og skatta 1220 millj., eða rétt um þreföldun, úr 628 millj. í 1848 millj. Þrátt fyrir 100 millj. kr. lækkun stendur samt eftir tollahækkun, þó að aðeins séu teknir þeir tollar og skattar, sem hér er um að ræða, upp á 750 millj., eða 150% frá árinu 1959, og sýnist það vera vel viðunanlegt afrek hjá hæstv. ríkisstj. á ekki lengri tíma.

Við mjög fljótlega athugun á þessu frv. virðist meginlækkunin vera á hátollaflokkum, skartgripum og skranvöru, allveruleg á varahlutum í bifreiðar, lítils háttar á landbúnaðarvélum og siðan smávægilegar lækkanir á mjög mörgum vörutegundum, en þó í langflestum tilvikum mjög lítilfjörlegar. Smávægilegar hækkanir eru einnig algengar og þ. á m. á algengum nauðsynjavörum. Á matvörum virðast hækkanir og lækkanir vegast nokkurn veginn á og sömuleiðis á vefnaðarvörum og skófatnaði, ekki er hróflað við hinum óhæfilega tolli á byggingarefni, en sumt efni til byggingarstarfsemi hækkar, svo sem algengur viður, krossviður, gólfdúkur, pípur úr járni og stáli, miðstöðvarkatlar o.fl. Og á þeim byggingarvörum, sem ekki eru þannig beinlínis hækkaðar, eru lækkanirnar engar eða þá alveg hverfandi. Nú hefði manni virzt, að alveg sérstakar ástæður hefðu verið til þess að nota einmitt slíkt tækifæri sem heildarendurskoðun tollskrár er til þess að létta nokkuð þær drápsklyfjar tolla, sem hvíla á byggingarstarfseminni í landinu, sem vafalaust væri ein allra raunhæfasta aðgerðin til þess að mæta vaxandi húsnæðisskorti og ýta undir aukna byggingu íbúðarhúsa. Þegar þess er gætt, að tollar og innflutningsgjöld af byggingarefni eru í mörgum tilfellum fjórði partur til þriðji partur af verði efnis, má glögglega sjá, að af miklu er að taka, ef vilji væri fyrir hendi til að létta fyrir byggingariðnaðinum. En á það hefur ekki verið litið við þessa endurskoðun. Hæstv. fjmrh, sagði í gær, að þetta hefði verið mjög til athugunar, en hefði reynzt ókleift af þeim ástæðum, að ef byggingarefni hefði átt að lækka til íbúðarhúsa, þá hefði einnig þurft að taka byggingarefni til annarrar byggingarstarfsemi með og af því hefði leitt allt of mikla tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð. Ég vil nú benda hæstv. ráðh. á, að mér sýnist, að það væru til mjög auðveldar leiðir til þess, að þetta kæmi aðeins íbúðarhúsabyggingariðnaðinum til góða, t.d. með svipuðum hætti og um endurgreiðslu væri að ræða á vélum til báta og fleira, sem fordæmi eru fyrir. Það væri að mínu viti mjög auðvelt að meta það, hvað tollarnir væru á hverri íbúð, og endurgreiða þá, þegar íbúðin væri fullgerð. Það væri mjög auðveld aðferð til þess, að ekki þyrfti endilega að lækka tolla á allri byggingarstarfsemi, þótt þeim væri létt að einhverju leyti af íbúðabyggingariðnaðinum.

Eins og fram hefur komið, er allveruleg hækkun á bifreiðum, og enn þá er búsáhöldum haldið í mjög háum eða 100% tollflokki. Mér virðist því alveg vera augljóst, að lækkanirnar, sem leiðir af þessu frv., muni reynast léttar í vasa venjulegs neytanda, jafnvel þótt engin ný gjöld yrðu hækkuð í stað þeirra, sem hér er lagt til að verði lækkuð.

Enda þótt segja megi, að lækkun um 97 millj. kr. á gjöldum, sem áður er búið að hækka um 850 millj., sé þó alltaf nokkurs virði, þá verður varla svo um þessi mál rætt, að ekki komi að spurningunni um það, hvort fjármálastjórnin í heild gefi vonir um eða vissu um það, að þessi lækkun verði raunhæf, þ.e.a.s. engin ný önnur gjöld verði sett í staðinn eða önnur hækkuð, sem fyrir eru. Í því sambandi er kannske rétt að minna á það, sem sjálfsagt flestir muna, að í áróðrinum hefur hæstv. ríkisstj. alltaf verið að lækka tolla og skatta allt viðreisnartímabilið, þó að hinar köldu tölulegu staðreyndir hafi sagt nokkuð aðra sögu. Það væri áreiðanlega alveg blindur maður, sem ekki gerði sér fulla grein fyrir því, að allt bendir alveg ótvírætt til þess, að fjárþörf ríkissjóðs vaxi á þessu Ég þó alveg sérstaklega á næsta ári um gífurlegar upphæðir að óbreyttri fjármálastjórn, og þar ber margt til, að sú aukna fjárþörf að óbreyttri fjármálastjórn verður meiri en nokkru sinni áður á skömmum tíma. Almenn dýrtíð fer vaxandi risaskrefum, vísitala framfærslukostnaðar fer hækkandi í svo til hverjum mánuði sem liður, og launastéttirnar snúast til varnar í dýrtíðinni hver af annarri. Opinberir starfsmenn standa nú í kjarasamningum, og hæstv. ríkisstj. hefur þegar boðið þeim launahækkanir upp á a.m.k. 1 hundrað millj. kr. Ekki mun vera óvarlegt að áætla, að sú upphæð tvö til þrefaldist, áður en yfir lýkur.

Viðreisnarkrónurnar duga æ skemmra til hverra nota sem er og ekki síður til ríkisþarfa en annars, og ríkisbáknið vex auk þess með hverju ári. Á s.l. ári voru ríkisútgjöld áætluð 1748 millj. kr., og á þessu ári gera fjárlög ráð fyrir, að sú upphæð hækki í 2194 millj. kr. eða um 346 millj. Það er því áreiðanlega ekki of áætlað, að stökkið frá yfirstandandi ári og til þess næsta verði miklum mun stærra, þó að ekkert sérstakt komi til. 600–700 millj. kr. útgjaldaaukning miðuð við óbreytta fjármálastjórn og með hliðsjón af ýmsum ráðstöfunum, sem nú er verið að gera á löggjafarsviðinu beint vegna kosninganna, sem nú fara í hönd, og flestar eða allar eru skrifaðar á reikning framtíðarinnar, slík aukning verður að teljast fullvís. Og á sama tíma ætlar svo ríkisstj. að lækka tollana. Hvernig verður þessu komið heim og saman? Hæstv. ríkisstj. reiknar kannske ekki með því, að hún þurfi að leysa þann vanda, sem við blasir vegna dýrtíðarstefnu hennar, og vonandi verður sú reyndin á, að þjóðin kveðji þar aðra til í kosningunum í vor.

Það var auðfundið á ræðu hæstv. fjmrh. hér í gær, að hann gerir sér nokkra grein fyrir því, að einhvern veginn verður ríkisstj. að reyna að svara því, hvaða úrræði hún hafi á hendinni, hvernig hún ætiar að leysa úr fjárþörfunum. En það verð ég að segja, að svo auðveldlega sem hæstv. ráðh, reyndi að sleppa út úr þeirri spurningu hér í gær, er ekki líklegt að ríkisstj. sleppi gagnvart nokkrum meðalgreindum manni. Hæstv. ráðh. tilgreindi fjórar uppsprettur, sem ríkisstj. hygðist ausa af í framtíðinni: Í fyrsta lagi tekjuafgangur ríkissjóðs s.l. 3 ár, sem hann taldi vera röskar 200 millj. kr. Það er ástæða til þess að spyrja út af þessu: Verður þetta fé, sem ríkisstj. hefur pínt út úr almenningi umfram þarfir, handbært á næsta ári, og sannar þessi útkoma nokkuð um afkomu 1963 og 1964? Ég held ekki. Í öðru lagi nefndi ráðh. þá reynslu, sem orðið hefði af lækkun hátolla 1961, að sú lækkun hefði fremur aukið tolltekjur heldur en hitt. Hér er áreiðanlega dregin mikil ályktun út frá lítilfjörlegri forsendu. Auðvitað skeði það óhjákvæmilega í fyrstu lotu eftir lækkun hátollavaranna og jafnframt afnám verðlagsákvæða á þær, að ofsalegt kapp greip heildsalastéttina um að ryðja þessum vörum inn á markaðinn, og af því stafa auknu tolltekjurnar fyrsta slagið. En þetta sannar auðvitað ekkert um það, að hér sé um neina stórvægilega breytingu til langframa að ræða, enda hefur reynslan af innflutningi hátollavaranna ævinlega verið sú, að hann gengur í bylgjum og á honum hafa orðið hliðstæðar sveiflur eins og nú hafa orðið eftir tollalækkanirnar, þó að ekki hafi verið um neinar slíkar breytingar að ræða.

Loks nefndi hæstv, ráðh. aukinn innflutning. Það er auðvitað rétt, að ef allt er með felldu um okkar atvinnulif og lífskjör fara batnandi og fólki fjölgar, þá hlýtur innflutningur að vaxa. En að innflutningur vaxi svo á einu ári, að tolltekjur vaxi af honum um 600—700 millj. kr., eða meira en 50% á einu ári, það er hins vegar svo fjarstætt, að það sætir hreinni furðu, að hæstv. fjmrh. skuli láta sér slíkar fullyrðingar um munn fara. Eða hvað halda menn annars, að yrði um gjaldeyrisafkomuna með slíkum innflutningi, og hve miklar kjarabætur þyrfti almenningur að fá, til þess að slík eftirspurn skapaðist, sem til þyrfti. Nei, þessi svör hæstv. fjmrh. eru ekkert annað en vífilengjur og undanfærslur við að svara þeirri mikilvægu spurningu, sem hér er um að ræða, hvernig ríkisstj. ætli að mæta fjárþörfinni, sem dýrtíðarstefna hennar hefur skapað.

Ég held, að hið rétta svar liggi nokkuð ljóst fyrir, þegar reynslan af stjórnarstefnunni undanfarin ár er höfð í huga. Sú reynsla bendir alveg ótvírætt til þess, að það, sem koma skuli, sé margföldun á hinum almenna söluskatti eða gengisfelling, nema hvort tveggja verði, sem ég tel langlíklegast. En auðvitað á ekkert slíkt að ske fyrr en eftir kosningar. Fram að kosningum á að telja almenningi trú um, að lækka eigi tollana, efla tryggingastarfsemi, veita aukið fé í húsbyggingar, efla hvers konar sjóði, auka framlög til margs konar nauðsynlegrar starfsemi o.s.frv., o.s.frv. En þegar búið er að kjósa, þá má hefja sama leikinn, eins og gert var í ársbyrjun 1960: lækka gengið, margfalda söluskatta, skerða lífskjörin, allt skv. þeirri formúlu, að almenningur sé svo gleyminn, að í lok kjörtímabilsins sé hann orðinn óminnugur á það, sem gert var á fyrra helmingi þess. Þá megi gjarnan sýna honum hnefann af hjartans lyst, ef honum er bara klappað með lófa rétt fyrir kosningar. Og það er það, sem nú er verið að gera. Það er verið að sýna fleðulæti rétt fyrir kosningar. Tollskráin, sem hér liggur fyrir, er einn þáttur þessara fleðuláta, tryggingafrv. annar, úthlutun 500 millj. kosningalána þriðji, og það mætti telja lengur. En reikningnum verður ekki framvísað fyrr en að loknum kosningum, en þá kemur hann líka alveg jafnörugglega og nótt fylgir degi, þó að nú sé reynt að láta menn halda, að allt það umstang, sem nú á að bjarga stjórnmálaflokkunum, kosti ekki nokkurn skapaðan hlut.

Hér áður fyrr var það oft háttur svíðinga, sem höfðu rakað saman auði í jarðeignum eða lausu fé, að gefa ríflega fyrir sálu sinni, þegar dauðinn nálgaðist. Ill samvizka knúði þá til þess að skila einhverju af auði sínum aftur til kirkju eða til fátækra. Hæstv. ríkisstj. fer líkt að. Hún keppist við að gefa fyrir sálu sinni, þegar hún veit dóminn nálgast, en sá er þó munur á, að fjármálastjórn hennar hefur verið með þeim hætti, að hún verður ýmist að hafa gjafir sínar í formi ávísana, sem engar innstæður eru til fyrir, eða taka lán með okurvöxtum til þess að geta annazt greiðslurnar. En ég hygg, að almenningur verði ekki ríkari af slíkum gjöfum, heldur þvert á móti. Hann verður ekki betur settur, þó að glysvarningur sé lækkaður í tolli, ef á eftir fer almenn hækkun söluskatts eða gengisfelling, heldur miklu verr en áður.

Eins og ég áður sagði, er auðvitað engin leið fyrir okkur stjórnarandstæðinga að ræða þetta mál, þetta flókna frumvarpsbákn í einstökum atriðum að þessu sinni. Það verður að bíða síðari tíma. Sennilegt verður þó að telja, að sú gagngera formbreyting, sem á tollskránni hefur verið gerð, sé til verulegra bóta á vinnubrögðum tollayfirvalda, þar á meðal sú breyting að bræða saman margs konar gjöld í einn toll. Í því sambandi verður þó ekki fram hjá því gengið, að með þessari sambræðslu hefur endanlega verið svikið að fella niður hinn svonefnda bráðabirgðasöluskatt í tolli, 8%, sem lagður var á í ársbyrjun 1960. Honum er nú í reyndinni gefið eilíft líf í tollakerfinu, þó að sjálft nafn hans eitt hverfi. Vörumagnstollurinn er einnig lagður af og verðtollur einn settur í staðinn. Sú breyt. hefur það m.a. í för með sér, að þungi tollheimtunnar verður enn þá háðari genginu en áður, og þannig er auðveldað að hækka tollheimtuna með einu pennastriki með gengisfellingu. En áður hefur gengisskráningarvaldið verið tekið úr höndum Alþ. og fengið í hendur bankastjórnar Seðlabankans. Það þarf þess vegna ekki lengur að leita samþykkis Alþ. til þess að hækka tollana, hvort sem um væri að ræða jafngildi þeirrar lækkunar, sem nú er lögð til, eða miklum mun meiri hækkun.

Varanlegt gildi breytinganna nú er þess vegna einvörðungu fólgið annars vegar í sjálfri formbreytingunni og hins vegar í breyt. á gjaldaflokkum innbyrðis, sem ég dreg að lítið rannsökuðu máli að vísu mjög í efa að sé í heild til bóta fyrir almenning.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í gær, að þessi breyting á tollskránni mundi hafa lítil áhrif á vísitölu framfærslukostnaðar, og fór í því sambandi hæðilegum orðum um það, hvernig fyrrv. ríkisstjórnir hefðu leikið sér með vísitöluna, eins og hann orðaði það, og reynt að láta hana sýna sem minnsta hækkun, þegar verið var að hækka tolla og skatta. Þetta er auðvitað að ýmsu leyti rétt hjá hæstv. ráðh. En hinu sleppti hann alveg, að geta um, að með nýja vísitölugrundvellinum, sem gekk í gildi 1959, var gerð á honum gerbreyting, þannig að hann er nú miklu raunhæfari mælikvarði en áður á þær breytingar, sem verða raunverulega á lífskjörum með hækkuðu verðlagi, og gefur tiltölulega rétta mynd af því, hvernig útgjöld manna breytast með breyttu verðlagi á neyzluvörum og þjónustu. Hinar algengustu og fábrotnustu lífsnauðsynjar, sem áður vógu mikið í vísitölugrundvellinum, eru þar nú léttari en áður, en aðrar vörur teknar inn í ríkara mæli og í meira samræmi við þá neyzlu, sem nú er almennt hjá almenningi. Það er þess vegna hreint ekki jafnauðvelt og áður var að leika sér með þennan mælikvarða, þó að viljinn væri fyrir hendi.

Þegar þessa er gætt, sannar sú fullyrðing hæstv. fjmrh., að þessar tollabreytingar hafi lítil áhrif á vísitöluna, auðvitað mjög greinilega, að áhrif þeirra á lífskjör venjulegs neytanda verða harla litil. Það er auðvitað líka svo, að raunveruleg lífskjör batna harla litið við það, þó að silfurplett og skartgripir úr gulli og silfri lækki í tolli. Verkamaður, sem hefur tæpast til hnífs og skeiðar, er litlu betur settur fyrir það, þó að 5 þús. kr. gullúr lækki um 200–300 kr. í verði eða tollur lækki á filabeini. En það eru slíkar kjarabætur, sem hæstv. ráðh, telur almenningi alveg sérstaklega hagkvæmar. Ég get því vel tvítekið það, að ég tel fullan vafa leika á því, að þær breytingar, sem gerðar eru til jöfnunar á tollaflokkunum innbyrðis, séu til nokkurra bóta fyrir hagsmuni almennings, eða a.m.k. mjög vafasamt, að svo sé.

Ég hygg, að ýtarleg athugun, sem ég hef ekkert ráðrúm haft til að gera, á þeim 400 eða 500 tollskrárnúmerum, sem tollar eru hækkaðir á, og samanburður við ýmsar lækkanir, mundi leiða þetta allgreinilega í ljós, en ég vil aðeins nefna örfá dæmi, sem eru algerlega af tilviljun gripin upp úr tollskránni, um hækkanir, og sýnist mér, að í mörgum tilvikum sé þar um nauðsynjavörur að ræða. Þannig hækkar t.d. tollur á matarsalti pökkuðu, eplum, perum, rúsínum, sveskjum, ullargarni, vönduðu baðmullarefni, rafmagnsperum, bökunardropum, garðyrkjuverkfærum, vatnsslöngum, gólfdúk, byggingavið, krossvið, linoleumdúk, pípum úr járni og stáli til bygginga, miðstöðvarkötlum, benzíni, kartöflum, tómötum, belgávöxtum, púðursykri, flórsykri, kandís, súpum og súputeningum, sáraumbúðum og fleiri vörum til lækninga, litum til listmálunar og kennslu, handsápum, sjölum, klútum, hálsbindum o.fl.

Þetta eru aðeins dæmi tekin af algeru handahófi af þeim liðunum, þar sem um beinar hækkanir er að ræða. Það er sjálfsagt að geta þess, að hækkanir á þessum vörutegundum eru yfirleitt fremur lítilfjörlegar, en það er líka sama að segja um lækkanirnar, að þær eru það yfirleitt, mjög lítilfjörlegar.

Frá minni hálfu a.m.k. er það líka alveg óathugað mál, sem vel verður að athugast í nefnd, hver áhrif hinar innbyrðis breytingar hafa á iðnaðinn í landinu og einstakar greinar hans. Í ýmsum tilvikum getur tollvernd fyrir sérstakar iðngreinar átt fullan rétt á sér, þó að við höfum nú að vísu um skeið búið við svo lágt kaupgjald hér á landi, að okkar iðnaður, hverju nafni sem nefnist, hefur fyllilega getað staðizt samkeppni við erlendan iðnað aðeins þess vegna. En varla er hægt að reikna með slíku til frambúðar. Eins og ég áður sagði, virðast lækkanir á almennum neyzluvörum vera mjög óverulegar og aðeins lítill hluti af þeim 90–100 millj. kr. lækkunum, sem ráð er fyrir gert í heild. Frekar virðist vera um umtalsverðar lækkanir að ræða á hátolluðum lúxusvarningi, eins og ég sagði áðan, og skrani, og í öðru lagi á nokkrum rekstrarvörum atvinnuveganna.

Þegar þessa er gætt og jafnframt hins, að heildarskattheimtan er nú orðin upp á 1850 millj. kr., þá er auðsætt, að ekki er um að ræða neina afgerandi kjarabót til handa almenningi. En það má segja, að öllum lækkunum, jafnvei á þeim vörutegundum, sem minnst ástæða er til að lækkaðar séu, hljóti menn þó að verða fegnir í því skatta- og tollaflóði, sem hæstv, ríkisstj. hefur veitt yfir þjóðina á valdatíma sinum. En því aðeins eru slíkar ráðstafanir ánægjuefni, að full skilríki séu lögð fram fyrir því, að hér sé um varanlega heildarlækkun að ræða og engin undirmúl séu á ferðinni um fyrirætlanir um almenningi óhagstæðari skattheimtuaðferðir. Þess vegna hljóta þær spurningar að dynja á hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh.: Hvernig ætla þeir að leysa hina auknu fjárþörf ríkissjóðs á næstu tímum? Með hvaða hætti ætla þeir sér að afla þeirra 600–700 millj. kr., sem stjórnarstefnan hefur gert algerlega óhjákvæmilegt að afla á næsta ári eða jafnvel fyrr? Hver eru þeirra úrræði á þeim vanda, sem þeir hafa verið að skapa með fjármálastefnu sinni á undanförnum árum? Við þessum spurningum duga engin undanbrögð. Hér verða að koma hrein og bein svör, og á þeim svörum veltur að sjálfsögðu mjög allur heildardómur um þetta frv.