08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

227. mál, tollskrá o.fl.

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, sem á sæti í fjhn. þessarar hv. d., varð að fara heim til Akureyrar, áður en kæmi til 2. umr. þessa máls. Honum vannst þó tími til að taka þátt í störfum n. og ganga frá nál. og brtt. við frv. Eru brtt. hans prentaðar á þskj. 545. Hv. þm. hafði einnig gert drög að grg. fyrir till. sínum og bað mig, áður en hann fór, að flytja þá grg. við þessa umr. Í henni koma fram meira eða minna andsvör við nokkrum aths., sem hv. frsm. meiri hl. hefur nú gert, bæði við brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. svo og nál. hans. En hv. þm. farast orð á þessa leið í sinni grg.:

Það er ofur eðlilegt, að sú heildarstefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í skatta- og tollamálum á valdaferli sínum, sé höfð í huga, þegar þetta frv. er metið. Sú heildarstefna liggur líka alveg ljós fyrir. Ríkisstj. hefur með hverri athöfn sinni í þessum málum stefnt að ákveðnum og augljósum markmiðum, fyrst og fremst þeim að færa skattheimtuna yfir á almenna neyzlu landsmanna með sem jöfnustum þunga, afnema, svo sem frekast er unnt, beina stighækkandi skatta og útsvör og setja í þeirra stað söluskatta, jafna skatta á hvers konar neyzlu og eyðslu án alls tillits til þess, hvort um nauðþurftaeyðslu er að ræða eða óhófseyðslu. Horfið skal sem lengst frá þeim auðjöfnunar- og tekjujöfnunarsjónarmiðum, sem áður settu nokkurn svip á skattakerfið. Jafnframt því, sem skattabyrðin var þannig færð í sívaxandi mæli yfir á almenning, hefur svo verið létt sköttum og skyldum af tekjuháum einstaklingum og auðfélögum í landinu. Þannig má segja, að á sama tíma og seilzt var með söluskattskerfinu langt niður í vasa tekjulágs eða jafnvel tekjulauss fólks, voru auðfélögin í landinu að mestu gerð skattfrjáls með margháttuðum ívilnunum þeim til handa, stórauknu skattfrelsi arðgreiðslna, beinni skattalækkun, nýjum fyrningarreglum o.s.frv. Svo langt er nú komið í þessum efnum, að tekju- og eignarskattar hafa á undanförnum árum komizt niður í 5–6% af heildarskattheimtunni til ríkissjóðs, en þessi beina skattheimta eftir efnum og tekjum nam við upphaf viðreisnartímabilsins um 20% af skatta- og tollabyrðinni til ríkissjóðs. Af þessum 5–6% greiða fyrirtækin og þar á meðal samanlögð auðfélög landsins sennilega minna en helming, eða aðeins 2–3% af skatta- og tollabyrðinni. Verður það að teljast vel að verið á ekki lengri tíma að hafa þannig komið þeim aðilum í landinu, sem meginhluta alls fjármagns og gróðarekstrar hafa með höndum, í tölu skattleysingja. Á sama tími hefur svo verið lagður á almennur söluskattur, sem ekki hlífir neinum, ekki barninu í vöggunni, öryrkjanum, sjúklingnum, gamalmenninu, heldur heimtar miskunnarlaust, að þeir borgi hver sinn hlut til þarfa ríkisins. Jafnhliða hafa tvennar gengisfellingar margfaldað þá tolla, sem lagðir eru á við innflutninginn og ná til flestra vörutegunda, sem landsmenn kaupa, en á sölusköttunum einum til ríkisins hefur orðið sú breyting, að þeir hafa verið hækkaðir um sléttar 500 millj. kr. frá árinu 1959, úr 151 millj. í 650 millj., eða um 330%, en sé hlutinn, sem rennur til sveitarfélaganna, einnig meðtalinn, nemur hækkunin 600 millj. eða nálægt 400% . Á sama tíma hafa svo gengisfellingar hækkað verðtollinn úr 295 millj. kr. árið 1959 í 567 millj. kr. á yfirstandandi ári, eða nær tvöfaldað hann.

Þegar hvort tveggja er haft í huga, heildarhækkun tolla og skatta til ríkissjóðs upp á 1220 millj. kr. frá árinu 1958 og jafnframt eðlisbreyting skattheimtunnar, þá dylst heldur ekki, að hér er um að ræða eina allra drýgstu orsökina til þeirrar hrörnunar lífskjara, sem orðin er á þessu tímabili viðreisnarinnar, eina af meginorsökum þess dýrtíðarflóðs, sem mætt hefur á almenningi stöðugt þyngra með hverju viðreisnarári, sem liðið hefur.

Það var alltaf nokkuð sennilegt og raunar fyrirsjáanlegt, að þegar á líði kjörtímabilið og einkanlega þegar fast tæki að líða að kosningum, þá mundi ríkisstj. hefja eitthvert undanhald, taka upp einhvers konar yfirbótastefnu í bili og ef til vill hverfa þá að því að skila einhverju aftur af þeirri gífurlegu skatta- og tollaaukningu, sem hún hafði staðið fyrir, a.m.k. meðan hún væri að komast yfir kosningarnar. Yfirbótaaðgerðirnar hófust svo samkv. áætlun á siðasta þingi með frv. ríkisstj. þá um lækkun aðflutningsgjalda, en þá var talið, að skilað væri til baka rúmlega 40 millj. kr. af þeim hækkunum, sem þá voru orðnar. Og nú, 1–2 mánuðum fyrir kosningar, er svo hert á yfirbótaaðgerðunum og sagt, að nú eigi að létta tollabyrðina um 97 millj. kr. Þessum endurgreiðslum á örlitlu broti skatta- og tollaaukninganna er svo ætlað það hlutverk í áróðrinum að fá menn til að gleyma því, sem áður hefur gerzt, og horfa fram hjá því, hver heildarniðurstaðan hefur orðið, — gleyma því, að hér er aðeins um að ræða hverfandi smáræði af þeim hækkunum, sem orðið hafa.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d. leiddi hv. 5. þm. Norðurl. e. að því rök, að miðað við óbreytta fjármálastjórn væri alveg augljóst, að hér væri ekki um raunhæfar frambúðarlækkanir að ræða. Fjárþörf ríkissjóðs mundi aukast þegar á þessu og næsta ári um mörg hundruð millj., og ef fylgt væri líkri stefnu og áður, þyrfti ekki að fara í neinar grafgötur um, að úrræðin til þeirrar tekjuöflunar yrðu stórhækkun almenna söluskattsins eða gengisfelling, nema hvort tveggja yrði undir stjórn núv. stjórnarflokka.

En jafnvel þótt hér yrði um raunverulegar lækkanir að ræða, sem bókstaflega engar líkur benda til, þá er aðferðin við lækkanirnar, valið á þeim vörutegundum, sem tollur er lækkaður á, mjög einkennandi fyrir stefnu hæstv. ríkisstj., og má með sanni segja, að á undanhaldi sínu hverfi hún í engu frá þeirri meginstefnu, sem hún hefur fylgt í tolla- og skattamálum. Bæði 1961 og aftur nú er fylgt þeirri meginreglu að velja úr þær vörutegundir, sem almennum neytanda er minnstur hagur í að lækkaðar verði. Þar eru lúxusvörur og hvers kyns ónauðsynlegur varningur látinn sitja í fyrirrúmi. 1961 var einvörðungu um lækkun á hátollavörum að ræða, og í velflestum tilfellum voru verðlagsákvæði afnumin af þeim vörum, sem lækkaðar voru í tolli. Hagsmunir innflytjenda og kaupmanna voru látnir sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum almennings. Nú er enn í meginatriðum fylgt sömu stefnu. Mestu lækkanirnar eru á hátollavarningi, sem flestu venjulegu fólki liggur í léttu rúmi, hvort er í hærra eða lægra verðflokki. Í annan stað eru svo rekstrarvörur verzlunarstéttarinnar settar í sérflokka og þær lækkaðar mjög í tolli. Virðist því ekkí að undra, þó að vel hafi farið á með höfundum þessa frv. og kaupsýslustéttinni, eins og hæstv. fjmrh. lagði sérstaka áherzlu á í sinni frumræðu hér í þessari hv. deild.

Hér er sem sagt fylgt þeirri stefnu að jafna tollana, draga mjög úr þeim mismun, sem gerður er á vörutegundum og að verulegu leyti hefur verið byggður á nytsemi þeirra. Ef gengið er út frá því, að tollar í heild sem tekjustofn verði álíka gildur þáttur í heildarskattheimtunni í framtíðinni eins og þeir eru nú, er suðsætt, að þegar til lengdar lætur stendur breytingin á tollaflokkunum innbyrðis ein eftir, þ.e.a.s. tollarnir verða jafnháir eða hærri en áður, aðeins h vila þeir léttar á ónauðsynlegri varningi, en þeim mun þyngra á almennum neyzluvörum. Verði slík útjöfnun tollanna eina varanlega afleiðingin, t.d. að afstaðinni gengisfellingu, sem leiddi af sér hækkun gjaldstofnanna, er alveg auðsætt, að allur almenningur er verr settur eftir en áður.

Þetta eru fyrst og fremst ástæðurnar fyrir því, að við fulltrúar Alþb. teljum breytingarnar, sem hér eru ráðgerðar á tollskránni, til vafasamra bóta, þegar á heildina og horfur allar er litið, þótt þær séu það í einstökum tilvikum. Þetta mundi þó koma miklu greinilegar í ljós, ef fyrir lægju nákvæmir útreikningar á því, hvernig þessi áætlaða 97 millj. kr. lækkun skiptíst eftir vörutegundum, og þá einnig, hve hækkanir eru miklar og á hvaða vörutegundir þær skiptast. Því miður hefur ekki tekizt að fá um þetta neitt nákvæmt yfirlit, og tollskrárnefndin gat ekki orðið við óskum hv. 5. þm. Norðurl. e. um að gefa n. slíkt yfirlit. Þó hafa um þetta fengizt þær upplýsingar, sem nú skal greina: Landbúnaðarvélar og önnur landbúnaðartæki lækka um 8.1 millj. kr. Vélar og tæki til sjávarútvegs lækka um 8.3 millj. kr. Varahlutir í bifreiðar lækka um 21 millj. Pappír og umbúðir lækka um 8.9 millj. Smíðatól og önnur verkfæri lækka um 3.6 millj. Dúkar og ytri fatnaður lækkar um 15.4 millj., en hækkar hins vegar um 4.9 millj. Allar aðrar lækkanir eru 45.4 millj. að frádregnum hækkunum. Í þessum 45.4 millj, kr. er meginuppistaðan alveg vafalaust glingur og annar hátollavarningur, og má þá glöggt sjá, að lækkanirnar snerta yfirleitt alls ekki venjulegar neyzluvörur almennings eða a.m.k. svo hverfandi litið, að ekki er unnt að segja, að um neinar lækkanir sé að ræða. Þær upplýsingar tollskrárnefndar, að breytingarnar séu nánast ómælanlegar á vog framfærsluvísitölunnar, sanna þetta líka alveg augljóslega.

Næsta athyglisvert er einnig, að langstærsta lækkunin, varahlutir til bifreiða, kemur á vörutegund, sem fer í gegnum sölu bifreiðaverkstæða, en alveg nýlega hafa öll verðlagsákvæði verið afnumin á þjónustu þeirra. Verður því að teljast mjög vafasamt, hvort eða að hve miklu leyti þessi lækkun kemur til skila til bifreiðaeigenda. Hér er greinilega fylgt fordæminu frá 1961 með því að lækka helzt þær vörur, sem jafnframt eru undanþegnar verðlagsákvæði.

Við þm. Alþb. erum þeirrar skoðunar, að við endurskoðun tollskrárinnar til lækkunar hefði átt að miða að því að lækka í verði þær vörutegundir, sem mestu máli skipta fyrir almenna neytendur, ekki sízt með tilliti til þess, að þeir hafa. orðið fyrir þyngstum búsifjum af völdum skattastefnu viðreisnarstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. gaf nefnd þeirri, sem að endurskoðuninni vann, fyrirskipanir í alveg öfuga átt, og er því við hann einan og ríkisstj. að sakast í þeim efnum. Hann vildi lækka tolla og verð á gimsteinum, silfurpletti, fílabeini og flosvefnaði úr silki, en hækka tolla á ýmsum matvörum og öðrum lífsnauðsynlegum varningi. Hann vildi láta lækka tolla á skrautvörum, perlum og tilbúnum blómum, en halda öllum tollum eða hækka þá á búsáhöldum og byggingarefni. Við því er auðvitað ekkert að segja, þótt við séum ósammála hæstv. ráðh. í þessum efnum, en hitt er furðulegra, að hæstv. ráðh. skuli halda þeirri firru fram, að slíkar lækkanir sem hann valdi séu almenningi meiri kjarabót en þótt gagnstæðri stefnu hefði verið fylgt í vörutegundavali.

Það hefur verið upplýst í þessum umr., að rúmlega 3 ára vinna sérfræðinga hæstv. ríkisstj. liggi að baki þessu frv., en jafnframt liggur svo fyrir, að okkur, sem miða viljum tillögugerð af okkar hálfu við alveg andstæð sjónarmið í veigamiklum atriðum, eru ætlaðir 4–5 sólarhringar til þess að mæta okkar till. Þessum vinnubrögðum, þessum bolabrögðum mótmælti hv. 5. þm. Norðurl. e. við 1. umr. málsins, og þau mótmæli skulu endurtekin hér nú. Okkar stjórnarandstæðingum ber að öllum réttum lögum og hefðbundnum venjum jafn réttur til tillögugerðar sem stjórnarflokkunum, en okkur er í reynd synjað um slíkt jafnrétti. Þrátt fyrir þessi óþingræðislegu vinnubrögð hæstv. ríkisstj. hafði þó hv. 5. þm. Norðurl. e. notað hinn skamma tíma, sem honum var ætlaður til þess að kanna þetta mál, til þess að bera fram brtt. í samræmi við þær skoðanir, sem hér er lýst. Að sjálfsögðu gat ekki sakir tímaskorts verið um neina heilsteypta tillögugerð að ræða.

Brtt. hv. þm. á þskj. 545 ná til nær hundrað vörutegunda og auk þess til allra aðflutningsgjalda af byggingarefni til íbúðarhúsa.

Skv. frv. er öllum búsáhöldum haldið í 100% tollflokki, eða í öðrum hæsta tollflokki. Slíkt kapp er lagt á að halda öllum búsáhöldum í svo háum flokki, hvaða áhöld sem um er að ræða, að ekki er einu sinni gætt sjálfsagðasta samræmis. Þannig rísa tollarnir á búsáhöldin í ýmsum flokkum langt upp úr því, sem vörur úr hliðstæðum efnum og í sama flokki bera. Þannig eru leirvörur yfirleitt tollaðar 20–30%, þar til kemur að búsáhöldunum, þau eru sett í 100% flokk. Glervörur eru flestar tollaðar 35–50%, þ.e.a.s. aðrar en borðbúnaður, hann skal í 100% flokkinn. Járn- og stálvörur bera yfirleitt 10–35% toll, nema búsáhöld í þeim flokki, þau skulu hafa sín 100%. Aðstandendur þessa frv. virðast þannig leggja alveg sérstaka áherzlu á að tolla þessa almennu vöru sem allra hæst og ganga svo langt í þessu, að fullkomið ósamræmi er í miðað við aðrar vörur, og hlýtur það jafnvel að valda miklum tæknilegum erfiðleikum fyrir tollayfirvöldin.

Það mætti teljast umtalsverð kjarabót fyrir allan almenning, að búsáhöld væru lækkuð í tolli, og leggjum við því til, að búsáhöld í öllum flokkum lækki úr 100% í 50%, og yrði samt um hærri toll að ræða en samrýmist tolli fjölda annarra vörutegunda.

Þá er lagt til á þskj. 545, að nokkur lækkun verði samþ. á öðrum heimilistækjum, svo sem kæliskápum og þvottavélum, en slík lækkun mundi mest, a.m.k. í fyrstu, koma til góða ungu fólki, sem er að stofna heimili, og fátækustu heimilunum í landinu, sem enn hafa ekki haft efni á að veita sér þessi lífsþægindi, sem meiri hluti fólks telur nú sjálfsögð, ekkert síður en fatnað og matvæli. Lækkunartillögum okkar varðandi þessi tæki er mjög í hóf stillt, þ.e.a.s. tollurinn lækki úr 80% í 50%, eða sama og lagt er til að búsáhöld verði tolluð. Samt yrði þar um 15% hærri toll að ræða en á hliðstæðum tækjum, t.d. í iðnaði og verzlun, sem bera yfirleitt 35% toll.

Þá fjalla brtt. um allmargar almennar neyzluvörur, og eru þessar helztar, að nýir og þurrkaðir ávextir lækki úr 40% tolli í 30%, en í sumum tilvikum er nú um hækkun að ræða, svo sem á sveskjum, rúsínum o.fl. Með hliðsjón af því, að strásykur og molasykur er ótollaður, virðist óeðlilegt, að annar sykur, sem mjög margir telja hollari til neyzlu, svo sem púðursykur og þrúgusykur, sé tollaður verulega, og því er hér lagt til, að allur sykur sé tollfrjáls og að tollur á sírópi og hunangi sé lækkaður allverulega, en hér er um skyldar neyzluvörur að ræða. Kryddvörur eru í háum tollflokki, 100%, og er lagt til, að þær verði lækkaðar í 70%. Svipað er að segja um bökunardropa og hliðstæðar vörur til matargerðar, sem eru óhæfilega hátt tollaðar í frv.

Enn eru till. um lækkun á allmörgum matvælum og hreinlætisvörum. Þannig ber te 70% toll, og er það óeðlilegt, þar sem kaffi, sem er alveg hliðstæð vara, er tollfrjálst. Í fatnaðarflokknum er lagt til, að ytri fatnaður karla, kvenna og barna lækki úr 90% niður í 60% , sem virðist alveg nægileg vernd fyrir íslenzkan fataiðnað, og nærfatnaður úr 90% og 70% niður í 50%. Sjóstígvél er lagt til í frv. að verði tolluð 25% , en munu nú vera tolluð um 26% . Sjóstígvél má segja að séu ein allra dýrasta rekstrarvara sjámanna og fólks, sem vinnur við fiskverkun. Virðist engin sanngirni í að tolla slíkar vörur hærra en fjöldann allan af rekstrarvörum til útgerðarinnar, sem mjög margar eru í 3% tollflokki. Er því lagt til á þskj., að sjóstígvél lækki niður í 2%, toll. Skv. frv. er tollur á fimleikjatækjum og íþróttatækjum lækkaður allverulega, en er þó enn haldið í 80% tolli. Leggjum við til, að slík tæki, þ. á m. tæki til skíða- og skautaíþrótta, séu lækkuð úr 80% niður í 50%. Allir munu sammála um, að æskilegt sé, að æskulýður landsins beini áhuga sínum og lífsþrótti að viðfangsefnum göfugra íþrótta eins og skíðaíþróttarinnar. En það er staðreynd, að íþróttatækin eru mjög dýr og að verðlag á þeim hindrar mikinn fjölda barna og unglinga í því að verja tómstundum sínum til þessara íþrótta, og er það illa farið.

Nokkrar af brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. fjalla um lækkun á tolli á dagblaðapappír og algengum prentpappír, þ.e.a.s. tollur á blaðapappír verði felldur niður með öllu og tollur á prentpappír verði lækkaður úr 30% skv. frv. í 10% . Það er kunnugt, að blaðaútgáfa á í vök að verjast hér á landi og dagblöð flest, sem hafa ekki að baki sér aðila, sem ráða yfir auglýsingafjármagni, eru rekin með stórfelldu tapi. Tollur á nauðsynlegustu rekstrarvöru blaðaútgáfu er því raunverulega hemill á það prentfrelsi, sem okkur á að vera tryggt skv. stjórnarskránni, og er hætta á, að slíkir tollar geti aukið á sérréttindi þeirra, sem yfir fjármagni ráða meir en aðrir, til þess að koma málflutningi sínum á framfæri. Það má því segja, að tollfrelsi á nauðsynlegustu rekstrarvörum blaðaútgáfu sé þáttur í verndun prentfrelsisins. Að vísu mætti segja hið sama um aðrar rekstrarvörur til blaðaútgáfu, en ívilnun að því leyti er erfið eða óframkvæmanleg af tæknilegum ástæðum. Dagblaðapappír er hins vegar alveg í sérflokki og ekkert því til fyrirstöðu að hafa hann tollfrjálsan, þótt annar pappír sé tollaður. Það er einnig okkar skoðun, að tollur á venjulegum prentpappír sé allt of hár og að það geipiverð, sem nú er orðið á þessari vöru, sé þrándur í götu bókaútgáfu í landinu, sem yfirleitt berst mjög í bökkum, og því sé nauðsyn að lækka verulega tolla á prentpappír almennt, þeirri ómetanlegu menningarstarfsemi til styrktar, sem blaðaútgáfa landsmanna er.

Veigamesta brtt. er við heimildakafla tollskrárinnar og fjallar um endurgreiðslu á tollum af byggingarefnum til íbúðarhúsa. Er lagt til, að heimiluð sé endurgreiðsla, sem svari til allt að 75% af tollum á byggingarefnum til íbúðabygginga. Lagt er til, að við slíka endurgreiðslu sé beitt líkri aðferð og gert er varðandi efni til skipasmíðaiðnaðarins, þ.e.a.s., að ákveða megi, að endurgreiðslan sé miðuð við tiltekna upphæð á rúmmetra íbúðar og sé þá takmörkuð við 360 rúmmetra eða sömu íbúðarstærð og lánshæð hjá húsnæðismálastjórn ríkisins. Í framsöguræðu sinni við 1. umr. gat hæstv. fjmrh. þess, að til athugunar hefði verið lækkun á byggingarefnum með tilliti til þess að létta fyrir íbúðarhúsabyggjendum, en ekki hefði þótt fært að leggja út í lækkanir á þessum vörum, vegna þess að taka hefði þá þurft allar efnivörur til bygginga með og þá jafnt til íbúðarhúsa sem annarra bygginga og slíkt hefði orðið til of mikils tekjutaps fyrir ríkissjóð. Með þeirri brtt., sem hér er um að ræða, er bent á auðvelda leið til að greina hér á milli íbúðabygginga og annarrar byggingarstarfsemi og um leið á raunhæfa leið til þess að lækka allverulega byggingarkostnað? Það mun láta nærri, að tollur á 360 rúmmetra íbúð nemi nú um 50 þús. kr. Miðað við hæstu endurgreiðslu skv. till, yrði hún um 37–38 þús. kr. á íbúð. Væri gert ráð fyrir, að byggingarstarfsemi væri með eðlilegum hætti í landinu, þ.e.a.s. að árlega væru byggðar um 1500 íbúðir, næmi endurgreiðsla í heild nálægt 45 millj. kr. En eins og alkunnugt er, hefur bygging íbúðarhúsa dregizt mjög saman síðustu árin, þannig að ekki yrði hér um teljandi tekjumissi að ræða miðað við síðustu ár eða jafnvel engan, ef aftur tækist að koma byggingarstarfseminni í eðlilegt horf.

Slík endurgreiðsla tolla, sem hér er ráðgerð, er nokkuð hliðstæð þeirri niðurgreiðslu á byggingarkostnaði, sem Norðmenn tíðka. Þeir hafa farið inn á niðurgreiðslubrautina í þessum efnum, að vísu í formi vaxtalausra lána, þrátt fyrir það að þeir hafa mjög lága tolla á byggingarefni. Miða þeir sínar ráðstafanir við 70 m2 gólfflöt að viðbættri aukningu eftir fjölskyldustærð. Virðist það vel fært og mundi rúmast eftir till. hv. 5. þm. Norðurl. e., að nokkurt tillit yrði tekið til fjölskyldustærðar við endurgreiðsluna.

Flestum mun það ljóst, að húsnæðismálum okkar verði naumast komið í viðunandi horf eftir þær gífurlegu hækkanir, sem orðið hafa á byggingarkostnaði af völdum efnahagsaðgerða síðustu árin, nema til komi nýjar og stórfelldar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Brtt., sem hér um ræðir, er auðvitað ekki nein allsherjarlausn á því vandamáli. En spyrja má, ef nauðsyn slíkra opinberra aðgerða í húsnæðismálum er óhjákvæmileg: Hvaða aðferð er þá til nærtækari en sú að létta að nokkru af þeim sköttum og tollum, sem ríkið sjálít leggur á byggingastarfsemina og valda því með öðru, að í óefni er komið? Hér er auðvitað ekki um að ræða nema brot af þeim hækkunum, sem orðið hafa á byggingarkostnaði á síðustu 3–4 árum. En engu að síður væri þessi lækkun umtalsverð og mundi án efa, ásamt nauðsynlegum aðgerðum í lánamálum, létta undir með þeim, sem eru að byggja og koma til með að byggja sér íbúðir á komandi tímum, og það ef til vill án þess að ríkissjóður missti nokkurs í hvað tekjur áhrærir. Það mun ekki heldur fjarri, að tollar ríkissjóðs af íbúðabyggingum yrðu að þessari breytingu gerðri sízt lægri en þeir voru í upphafi viðreisnartímabilsins. Hér væri því aðeins verið að skila aftur því, sem gengisfellingarnar tvær og söluskattur í innflutningi hafa bætt á sjálfa tollana á þessu tímabili.

Eins og áður er sagt, hefur þess ekki verið neinn kostur tímans vegna að móta brtt. í fullu samræmi við þær meginskoðanir, sem við Alþýðubandalagsmenn höfum varðandi tollamálin í heild. Þó er vafalaust, að brtt. okkar, ef samþ. yrðu, mundu gerbreyta eðli þess frv., sem fyrir liggur, þannig að um yrði að ræða mjög verulegar hagsbætur fyrir almenning í landinu, í stað þess að skv. eigin sögn þeirra, sem að frv. standa, eru hagsbæturnar nú ekki stærri í sniðum en svo, að engin mælitæki eru tiltæk til þess að mæla þær, hvorki vísitalan né annað. Tekjutap ríkissjóðs, sem leiða kynni af samþykkt þeirra, mundi ekki reynast tilfinnanlegt. Áður er bent á það, að aukin byggingarstarfsemi mundi þannig fyllilega geta mætt tekjutapinu, hvað byggingarvörurnar snertir. En að öðru leyti eru brtt. þess eðlis, að þær mundu af öllum almenningi vera beint metnar til jafns við launahækkanir og þannig spara hinu opinbera og atvinnurekstrinum í landinu bein útgjöld. Það fer því fjarri, að þær stefni einhliða að tekjumissi fyrir ríkissjóð og jafnvel miklu síður en þær lækkanir, sem annars er gert ráð fyrir í frv.

Þessi er grg. hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir þeim brtt., sem hann flytur á þskj. 545. Hann lýsir sig að lokum þess albúinn, ef till. hans verða samþ. við þessa umr., að standa að hækkunartill. frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, á ýmsum lúxus- og óhófsvarningi, ef á sannast, að slíkt verði óhjákvæmilegt vegna samþykktar á till. hans.