18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Fjhn. 3, hefur haft frv. til laga um tollskrá o. fl. til meðferðar og rætt eini þess á nokkrum fundum. Einn þessara funda sátu þeir sérfræðingar ríkisstj., sem frv. sömdu, og veittu þeir n. upplýsingar og skýringar á einstökum atriðum frv.

Tollskráin er mikið verk og vandasamt og að því er séð verður í skjótri svipar vel unnið af þeim, sem til þess voru kvaddir. Hins vegar skal það játað, að afgreiðslutími fjhn. um svo viðamikið og flókið mál hefur verið helzt til of skammur. Það kann því vel að vera, að einhverjir hlutir séu í þessum frumvarpsbálki, sem betur mættu fara, og reynslan á eftir að sýna, hvort þar þurfi um að baeta. Það er því eðlilegt og trúlegt, að endurskoðun verði látin fara fram fljótlega, eftir að nokkur reynsla hefur fengizt af tollskrá þessari í heild. Með hliðsjón af því og til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins hefur meiri hl. fjhn. látið hjá líða að bera fram nokkrar brtt.

Tollar varða alla þegna þjóðfélagsins bæði beint og óbeint, hvort heldur þeir eru neytendur, dreifendur vara eða framleiðendur. Samning heildartollalöggjafar, tollskrár, er því viðurhlutamikið mál, því að áhrifa þeirra gætir viða varðandi afkomu einstaklinga og í atvinnulífinu í heild og þá ekki hvað sízt í ríkisbúskapnum sjálfum. Á þetta sérstaklega við hér á landi, þar sem aðflutningsgjöld hafa, allt frá því að landið hlaut sína fjárhagslegu sjálfstjórn, verið aðaltekjustofn ríkisins, og enn í dag nema þeir 55% af heildartekjum ríkissjóðs, og er það hlutfallslega töluvert meira en almennt gerist í öðrum löndum.

Það má segja, að flestir séu sammála um, að þessi tegund skattheimtu gangi of langt hér á landi og geti, er fram líða stundir, skapað íslenzkum atvinnuvegum, einkum útflutningsatvinnuvegunum, erfiðleika, sökum þess að torvelt kann að reynast að sækja á um tollalækkanir erlendis hjá viðskiptalöndum okkar fyrir þær vörur, sem við viljum selja þeim, en á sama tíma að halda uppi hátollakerfi hér á landi. Hitt er svo annað mál, að ef létt yrði á tollum, þyrfti að skapa ríkinu aðra tekjustofna í þeirra stað, ef athafnasvið ríkisins ætti ekki að þrengjast til verulegra muna.

Meiri hl. n. hefur ekki talið það verkefni sitt að fjalla um þessa hlið málsins, enda staðreynd, að samkv, þessu frv. ætti tollabyrðin að lækka nokkuð, svo og að skv. frv. mun tollabyrði einstakra atvinnuvega haldast í svipuðu hlutfalli og lengi hefur verið og ákvarðað hefur verið af Alþ. og ríkisstjórnum, sem allir núv. þingflokkar hafa einhverju sinni átt aðild að.

Tollskráin er bálkun á tollum á innfluttum vörum á mismunandi vinnslustigi. Upphaflega voru ákvæðin um tolla hér á landi sem annars staðar í ótal lögum og reglugerðum, sem erfitt var að henda reiður á. Síðar var farið að sameina slíka löggjöf í einn lagabálk, tollskrá. Það mun hafa verið árið 1928, sem Þjóðabandalagið átti frumkvæðið að því, að samin var slík alþjóðleg gerð af tollskrá, og mun fyrsta íslenzka tollskráin, sem samin var árið 1939, hafa verið svipuð henni. Síðan hafa verið sniðnar aðrar gerðir af tollskrám og einkum þó eln, sem hlaut nafnið Brüssel-tollskráin eða Brüsselnomenclaturinn. Árið 1950 var sú gerð af tollskrá samþ. af allmörgum þjónum, og skrifuðu Íslendingar undir þann samning, en fullgiltu hann ekki. Nú munu öll lönd í Vestur-Evrópu hafa fullgilt þennan samning nema Ísland, og auk þess er hún nú í notkun á meðal 50 þjóða.

Það tollskrárfrv., sem hér liggur fyrir, er í samræmi við Brüssel-skrána, og þess má og geta, að það er einnig í samræmi við þá gerð af verzlunarskýrslum, sem Hagstofa Íslands semur og gefur út, og er það og til hægðarauka.

Tildrög þessa tollskrárfrv. munu vera þau, að í desembermánuði árið 1959 fól fjmrh. nefnd embættismanna ríkisins að endurskoða núgildandi lög um tollskrá og önnur aðflutningsgjöld, og skv. ákvörðun ráðh. skyldi við það starf fylgja eftirfarandi meginreglum:

1. Að núverandi aðflutningsgjöld og viðaukar þeirra skyldu sameinuð í einn verðtoll á hverja vörutegund.

2. Að samræma tolla á skyldum vörum.

3. Að verðtollur skyldi ekki vera hærri en 125% á neinni vöru.

4. Að heildartekjur ríkissjóðs rýrnuðu þó ekki tilfinnanlega.

5. Að gerð tollskrárinnar og niðurröðun vara væri í samræmi við gerð Brüssel-nomenclatursins svonefnda.

Fram að þessu hafa tíðkazt hér á landi einar tíu tegundir aðflutningsgjalda eða þessar: Vörumagnstollur, verðtollur, innflutningsgjald, söluskattur á innfluttum vörum, tollstöðvagjald, byggingarsjóðsgjald, rafmagnseftirlitsgjald, matvælaeftirlitsgjald og sérgjald af hjólbörðum, benzíni og bifreiðum. Hafa gjöld þessi numið í heild frá 0.1% upp í 270% af cif-verði aðfluttrar vöru.

Sú breyting, sem verður á skv. þessu frv., ef að lögum verður, er, að sameinaðir verða í einn verðtoll núverandi vörumagnstollur, verðtollur ásamt álagi, söluskattur af innfluttum vörum, tollstöðvagjald og byggingarsjóðsgjald, en hins vegar rafmagnseftirlitsgjald og matvælaeftirlitsgjald verða felld niður. Skali tollprósentunnar mun yfirleitt standa á heilum og hálfum tug, frá 5% til 125%. Algengasta tollprósentan í þessari skrá mun vera 35%. Númerum tollskrárinnar er eilítið fjölgað, þ.e.a.s. úr um 1800 í 1900.

Þetta er nú almennt um gerð tollskrárinnar að segja. Um efnahagslegu hlið málsins virðist vera ljóst, að fylgt hefur verið svipaðri stefnu og að undanförnu, reynt að lágtolla algengustu neyzluvörur og rekstrarvörur atvinnuveganna, en þó í flestum tilfellum hafðir sömu tolltaxtar og áður hafa tíðkazt og flestir um alllangt árabil.

Meiri hl. fjhn. telur, að í heild sé tollskrárfrv. þetta merkt og þarft mál, og virðist, eftír því sem menn hafa kunnugleika á, að til þess hafi verið vandað. Með þessum hætti verður tollakerfi landsmanna einfaldara og ótvíræðara, enda undanþáguheimildum talsvert fækkað. Það kann hins vegar auðvitað að koma í ljós, að einhverjir vankantar séu á verkinu, og vissulega er tímabært, að staldrað sé við og leitað úrræða, sem leiða mættu til almennrar tollalækkunar, en að svo stöddu telur meiri hl. frv. þetta til bóta og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt.