18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

227. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka meiri hl. hv. fjhn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu frv. Ég mun ekki fara hér út í umr. um tollskrána eða ræða um nál. og till. beggja minni hl. Það eru aðeins fullyrðingar hv. frsm. minni hl., bæði í ræðum og nál., varðandi sjálf vinnubrögðin, undirbúning og málsmeðferð, sem ég tel skylt og rétt að víkja að örfáum orðum.

Hv. þm. hafa haft þau ummæli hér, að undirbúningur málsins, málsmeðferð og vinnubrögð séu vítaverð og fordæmanleg. Og rökin, sem þeir reyna að færa fyrir þessu, eru aðallega þessi: Í fyrsta lagi hafi sérfræðingar, en ekki stjórnmálamenn eða þingmenn, unnið að undirbúningi málsins. Í öðru lagi, að áður en málið var lagt fyrir Alþingi, hafi það verið sent kaupmönnum og iðnrekendum til athugunar. Í þriðja lagi, að ég hafi talað um málið í stjórnmálafélagi, áður en ég gerði Alþ. grein fyrir málinu.

Að því er varðar fyrsta atriðið, þá eru að sjálfsögðu ýmsar aðferðir, sem má hafa um undirbúning slíkra stórmála sem tollskrár. Stundum er höfð sú aðferð, að skipuð er nefnd stjórnmálamanna, þingmanna, af hálfu ríkisstj., eða Alþingi sjálft kýs slíka nefnd pólitískri kosningu. Við höfum reynslu af ýmsum slíkum n. Stundum hafa þær gefizt vel, stundum. miður. Ég kann þess mörg dæmi, að slíkar pólitískar n. hafa verið skipaðar, einmitt til þess að athuga tolla- og skattamál. Þær hafa unnið árum saman, en uppskeran orðið harla lítil. Er þess skemmst að minnast, og þó ekki skemmst að minnast, því að það er nú kominn líklega rúmur áratugur síðan, að sett var á laggirnar n. undir forustu hv. 1. þm. Norðurl. v., frsm. 1. minni hl., Skúla Guðmundssonar, til þess skv. þál. að endurskoða allt skattakerfi landsins og tekjustofna sveitarfélaga sem og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þessi skattamála- og tekjustofnanefnd starfaði undir forustu þessa ágæta þingmanns árum saman, en eftir allt það starf og alla þá fundi og öll þau ár, sem hún starfaði, varð eftirtekjan sorglega lítil, því að ég veit ekki til, að neinar heildartill. hafi frá þeirri nefnd komið, og að lokum sálaðist hún. Ég nefni þetta dæmi vegna þess, að það er nærtækt, af því að sá maður, sem hér hefur uppi ádeilur um þennan undirbúning og þessa starfsháttu, á einmitt þessa fortíð að baki sér í skattamálum. Ég vil taka það fram, að ýmsar n., sem skipaðar hafa verið þm. um ýmis mál, hafa að sjálfsögðu skilað ágætu starfi. En reynslan er misjöfn.

Þegar ákveðið var að hefja endurskoðun á tollskránni í heild með það fyrir augum að bæta úr allri þeirri ringulreið, sem smám saman hefur verið að skapast um okkar aðflutningsgjöld, þá kom til greina, hvort ætti að ráða til þeirra starfa fyrst og fremst þm., stjórnmálamenn úr öllum flokkum, eða hvort ætti að velja til þess sérfræðinga og embættismenn. Ég taldi alveg einsætt, að til þess að vinna að svo flóknu og vandasömu máli sem þessu væri sú leiðin heppilegri að velja til þess 4 reynda og færa embættismenn, sem allir voru þaulkunnugir þessum málum. Það var gert, til þess valdir hagstofustjórinn, tollstjórinn í Reykjavík og ráðuneytisstjórarnir í fjármála- og viðskmrn. Síðar var bætt við sérfræðingi í iðnaðarmálum, sem einnig hafði sérstaklega fengizt við tollamál áður.

Ég er sannfærður um, að þessi vinnubrögð eru heppilegri, og ég er sannfærður um það líka, að ef hin leiðin hefði verið farin, að skipa í þetta þm. frá öllum flokkum, þá lægi tollskráin ekki fyrir Alþ. nú og ætti vafalaust langt í land. Ég tel þess vegna, að því fari fjarri, að ríkisstj. sé ámælisverð eða vítaverð fyrir þessi vinnubrögð. Ég tel einmitt, að hún hafi valið hina hentugustu leið.

Önnur ádeilan hjá þessum tveim hv. þm. er sú, að ég hafi, áður en málið var lagt fyrir Alþingi, sent frv. kaupmönnum og iðnrekendum. Í því sambandi vil ég taka fram, að hér er um tvær leiðir að ræða. Tollskráin snertir svo atvinnuvegina í landinu, að á einhverju stigi málsins verður að gefa samtökum þeirra og fyrirsvarsmönnum tækifæri til að fjalla um hana, og þá eru tvær leiðir til. Önnur er sú, að þeir sérfræðingar, sem undirbjuggu málið, hefðu samband við þessi samtök atvinnuveganna, áður en málið kæmi til Alþingis, til að heyra þeirra aths. og þeirra óskir. Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir, sem ber hann, og ég býst við, að enginn vefengt, að á einhverju stigi máls sé rétt að hafa samband við þessi samtök. Þetta er önnur leiðin. En hin er sú, að tollskrárnefndinni hefði verið bannað að ræða við nokkurn sérfræðing eða fulltrúa frá þessum samtökum, leggja málið þannig fyrir og ætla þingnefndum að ræða við öll þessi samtök og fulltrúa þeirra. Ég býst við, að þá hefði heyrzt hljóð úr horni um, að málið væri illa undirbúið, þar sem ekki hefðu verið kannaðar óskir og sjónarmið atvinnuveganna. Ég ætla líka, að það hefði tekið ærið mikinn tíma hjá Alþ. og n., ef þessi vinnubrögð hefði átt að hafa.

Ég taldi því og tel, að það hafi verið alveg sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð, að tollskrárn. var falið, áður en málið kæmi til Alþ., að kanna sjónarmið og óskir atvinnuveganna. Og þessir fulltrúar og samtök atvinnuveganna, sem leitað var til, voru ekki fyrst og fremst kaupmenn og iðnrekendur, eins og hv. frsm. leyfa sér nú að hafa við orð hér, þó að þeir viti betur. Þessi samtök atvinnuveganna, sem leitað var til áður, voru þessi: Samband ísl. samvinnufélaga, framleiðsluráð landbúnaðarins, Landssamband Ísl. útvegsmanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda, Verzlunarráð Íslands, Kaupmannasamtök Íslands, Stórkaupmannafélagið, — 9 samtök, sem eru fulltrúar fyrir okkar aðalatvinnuvegi.

Öll þessi samtök, ætla ég, að hafi fengið málið til athugunar nokkuð samtímis, og frá öllum þeirra komu aths., brtt. og óskir, sem farið var rækilega gegnum af tollskrárn., og það tekið til greina, sem unnt var. Þessi vinnubrögð hafa svo að sjálfsögðu sparað Alþ. og n. í þingi mjög mikinn tíma, og kemur það m.a. í ljós í því, hversu það eru tiltölulega fáar aths., sem borizt hafa til n. um breytingar. Út af þessari aths. held ég og er sannfærður um, að hér hafi verið rétt að farið, og hefði verið æskilegra, að þessir hv. þm. hefðu rætt málið á þessum grundvelli, en ekki lagt það fyrir með þeim blekkingum, að eingöngu hafi einhverjum kaupmönnum og iðnrekendum verið sýnt frv.

Í þriðja lagi sé vítavert og fordæmanlegt, að ég hafi flutt ræðu í landsmálafélaginu Verði um málið, áður en ég flutti framsöguræðu í Alþingi.

Nú er það vitanlega mikið álitamál, á hvaða stigi í undirbúningi stórmála eigi og megi ræða þau i stjórnmálafélögum. Vitanlega getur enginn ætlazt til þess, og það mun enginn maður í neinum flokki gera, að alveg sé það með öllu bannað að ræða eða hreyfa stórmálum í stjórnmálafélögum, fyrr en mál hefur verið lagt formlega með framsöguræðu fyrir Alþ. Enda ætla ég, að allir stjórnmálaleiðtogar á Íslandi hafi gert slíkt fyrr og síðar. Hins vegar má segja, að frv. eigi ekki að leggja fyrir og ræða nákvæmlega eða skýra í stjórnmálafélagi, áður en það hefur verið lagt fyrir Alþ. Þetta er auðvitað mikið álitamál, og ætla ég, að sumir leiðtogar andstöðuflokkanna á

Alþ. hafi á sínum tíma orðið fyrir allhörðu ámæli út af þeirra vinnubrögðum í þessu. En hvað hefur gerzt hér? Þessi ræða, sem ég flyt í landsmálafélaginu Verði, er ekki haldin fyrr en eftir að tollskrárfrv. með öllum skýringum og grg. hefur verið útbýtt á Alþ. Fyrst er málið lagt fyrir Alþ. og gerð ýtarleg grein fyrir því í grg. og skýrslum þeim, sem frv. fylgja, áður en ég flyt þessa ræðu, sem hv. þm. telja fordæmanlegt framferði. Eða líta þessir hv. þm. svo á, að einn ráðh, eigi að vera gersamlega múlbundinn, frá því að hann lætur útbýta frv. og þangað til hann kann að flytja framsöguræðu við 1. umr. málsins? Ég skal nefna dæmi þessu til skýringar. Venjulega líða ein til tvær vikur frá því, að fjárlfrv. er útbýtt á Alþ. og þangað til 1. umr. fer fram. Ætla þessir hv. frsm. tveir að bera það á borð fyrir þingheim, að fjmrh. eigi þá alltaf að vera múlbundinn og megi ekki segja eitt einasta orð í nokkru félagi þennan tíma, þessa eina eða tvær vikur, frá því að fjárlfrv. er lagt fyrir Alþ. og gert öllum landslýð heyrinkunnugt og þangað til 1. umr. kann að fara fram? Þetta er fjarstæða einber.

Í þessu tilfelli er enginn grundvöllur fyrir neins konar fordæmingu eða vitum. Þvert á móti, því að sú grg., sem ég flutti í þessu landsmálafélagi, er ekki flutt fyrr en eftir að allir alþm. hafa fengið tollskrána með öllum skýringum og grg. í hendur.

Ég taldi rétt vegna síendurtekinna árása þm., frsm. og málsvara stjórnarandstöðunnar, og blekkinga í blöðum þeirra einmitt um vinnubrögðin, um undirbúninginn og um málsmeðferðina, að láta þetta koma fram.