19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. l. minni hl. (Skúti Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil enn gera tilraun til að fá nokkrar lagfæringar á þessu frv. um tollskrá. Eg hef flutt hér fáeinar brtt. á þskj. 698.

1. brtt. mín er um það, að tollur af steypustyrktarjárni verði lækkaður úr 35 í 15%.

Mundi það þá verða tollað á sama hátt og þakjárn. Þetta er, eins og allir vita, mjög nauðsynlegt byggingarefni.

Næst flyt ég allmargar brtt. við 84, kafla tollskrárinnar. Þar er fyrst till. um, að dísilhreyflar færist úr 10% í 4%. Við 2. umr, lagði ég til, að þeir yrðu tollfrjálsir. Þarna er líka um að ræða till. um lækkun á tolli á allmörgum áhöldum og vélum vegna landbúnaðar úr 10% í 4%. Áður hafði ég borið fram till. um að gera þessi tæki tollfrjáls. Með því að ákveða 4% toll á þeim, mundu þau verða tolluð með sama hætti og ýmsar nauðsynjar til sjávarútvegsins, og mér finnst það eðlilegt, að þessir atvinnuvegir sitji við sama borð. Áður hafði ég lagt til, að bæði þessi tæki og eins ýmsar nauðsynjar sjávarútvegsins yrðu gerðar tollfrjálsar. Það var því miður fellt hér í hv. deild. Þarna er einnig um að ræða nokkra tollalækkun á mælitækjum og fleiri slíkum tækjum, nokkru minni lækkun en ég lagði til við 2, umr.

Þá er við 85. kafla. Þar legg ég til, að tollur af ýmsum heimilistækjum, rafmagnsknúnum, lækki úr 80 í 60%. Áður hafði ég flutt till. um, að þeir lækkuðu niður í 40%. Ég vil nú gera tilraun til að fá þó þessa leiðréttingu á þessum tolli. Ég hlustaði í gær á útvarpsumr. hér frá Alþingi. Einn hæstv. ráðh., sem þar talaði, stefndi máli sínu einkum til húsmæðra og taldi sig hafa verið mikinn vin þeirra, og manni skildist á taii hans, að hann vildi vera þeim hlýr og góður hér eftir. Mér þótti því rétt að gefa þessum hæstv. ráðh. tækifæri til þess að greiða atkv. með svolítilli lækkun á tolli af ýmsum heimilistækjum, sem húsmæður hafa mikla þörf fyrir. Ég vil vænta þess, að honum verði það ljúft þegar á næsta degi, eftir að hann mælti svo fagurlega til húsmæðranna.

Síðasta till. mín er um það að lækka tolla af hjóladráttarvélum úr 10 niður í 4%. Áður hafði ég lagt til, að þær yrðu gerðar tollfrjálsar. Eins og ég hef áður bent á, þurfa nú bændur að láta miklu meira afurðamagn til kaupa á dráttarvél en fyrir 4 árum, þrátt fyrir að búið sé að lækka tolla af vélunum niður í 10%.