17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

243. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um þetta frv. á fundi, þó ekki haft ýkjalangan tíma til meðferðar þess, þar sem málið er mjög nýlega fram komið.

N. virðist, að þær nýju undanþágur frá skemmtanaskatti, sem veita á samkv. þessu frv., séu yfirleitt mjög til bóta. Því muni verða fagnað af vissum aðilum í menningarlífinu, að t.d. leiksýningar allar losni nú við að greiða þennan skatt, ýmsir tónleikar, og sérstaklega muni margvísleg félög, sem vilja gjarnan halda skemmtanir, bæði fyrir meðlimi sína og jafnvel til fjáröflunar, telja, að frv, sé mjög til bóta.

N. spurðist sérstaklega fyrir um, hvort það væri ekki alveg tryggt, að æskulýðsskemmtanir án vínveitinga, eins og þær sem reyndar hafa verið hér í Reykjavík nýlega og gefið hafa góða raun, væru undanþegnar skemmtanaskatti, og var n. tjáð, að ákvæði frv. mundu duga til þess.

Til þess að vega upp á móti tekjutapi, sem verður við þessar varandi undanþágur, sem teknar eru í 2. gr., og enn fremur til þess að afla nokkurra nýrra tekna með skemmtanaskatti, sem þá renna til félagsheimila og annarra þeirra málefna, sem fá skemmtanaskattinn, er bætt við nýjum flokki, sem verður 4 flokkur þessa skatts, og lagt gjald á vínveitingar í veitinga- og samkomuhúsum. Í sambandi við þetta atriði, sem er í 1. gr. frv., hafa orðið nokkrar umr. um það, hvert tímatakmark þessa nýja gjalds skuli vera. Í frv. er gert ráð fyrir, að það skuli koma til skjalanna fyrst kl. 6 að kvöldi, þ.e. klukkustundu áður en vínveitingar mega hefjast í þeim húsum, sem hafa leyfi til þeirra. Áður en n. fjallaði um frv., átti formaður sambands veitingamanna tal við formann n. og lét í ljós það sjónarmið, að einhver misskilningur hefði orðið í samtölum um þetta ákvæði, því að málið hafði verið rætt við samtökin, og óskaði hann eftir því, að tímatakmarkinu kl. 6 yrði breytt í kl. 9. Hann færði fram þau rök, að framan af kvöldi væri matartímt og nú orðið fjöldi manns, sem af ;ýmsum ástæðum, þ. á m. ferðamenn og aðrir, neytti máltíða í þessum húsum, án þess að þeir væru þangað komnir til þess að sækja dansskemmtun með vínveitingum. En höfuðtilgangur með þessum nýja skatti væri að ná til skemmtana, sem væru sambærilegar við þá dansleiki, sem áður hafa verið skemmtanaskattsskyldir. Um þetta var rætt við einn aðila, tollstjóra, og á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þar fengust, gerir n. till. um, að í staðinn fyrir kl. 6 komi kl. 8; farin millileið í þeirri von, að þeir gestir þessara veitingahúsa, sem raunverulega koma þangað fyrst og fremst til þess að neyta matar, verði þangað komnir inn fyrir þann tíma, en þeir, sem koma þangað eftir að kl. er orðin 8, munu koma til kvöldsetu, dansskemmtunar eða annars og séu því sá hópur manna, sem fyrst og fremst er ætlunin að láta greiða skemmtanaskatt.

Mér skilst, að nokkrar umr. hafi orðið við ýmsa aðila um þetta atriði síðan og að hæstv. menntmrh. muni e.t.v. hafa einhverjar aths. við þetta að gera, en svona leit málið út frá sjónarmiði menntmn., og hún gerir því aðeins till. á þskj. 649 um að breyta þessu tímamarki, en mælir í heild með frv., telur að þær breytingar, sem það gerir ú skemmtanaskattinum, séu mjög til bóta, að framkvæmd hans ætti að verða í stórum atriðum mun þægilegri, réttlátari og betri en verið hefur.