01.11.1962
Neðri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 58 er flutt af landbn. þessarar hv. deildar, en nefndinni hafði borizt ósk um flutning frv. frá byggingarnefnd Bændahallarinnar og stjórn Búnaðarfélags Íslands, og þótti n. sjálfsagt að verða við óskum þessara aðila um flutning málsins hér í þinginu, en hefur að sjálfsögðu óbundnar hendur í afstöðu sinni til málsins.

Með lögum nr. 38 frá árinu 1945 var búnaðarmálasjóður stofnaður. Skv. þeim l. var bændum gert að greiða til búnaðarmálasjóðs 1/2% af því verði, sem þeim er greitt á hverjum tíma fyrir nær allar framleiðsluvörur landbúnaðarins. Og í 1. gr. laganna segir, að verja skuli fé sjóðsins til stuðnings og eflingar sameiginlegum nauðsynjamálum bændastéttarinnar, eftir því sem búnaðarþing ákvarðar og landbrh. samþykkir. Árið 1959 var svo samþ. hér á hv. Alþingi ákvæði til bráðabirgða við lögin um búnaðarmálasjóð, og átti ákvæði þetta að gilda til 4 ára, og með því var bændum gert að greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins og skyldi viðbótargjald þetta renna til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til þess að reisa hina svonefndu Bændahöll, stórhýsi það, sem nú er risið hér við Hagatorg í Reykjavík.

Um s.l. áramót hafði búnaðarmálasjóður greitt til Bændahallarinnar 8 millj. 260 þús. kr., en á sama tíma höfðu bændur greitt til búnaðarmálasjóðs 29 millj. 330 þús. kr. eða rösklega það. Ákvæði þetta um 1/2% viðbótargjaldið féll úr gildi í árslok 1961, en byggingarnefnd Bændahallarinnar og stjórn Búnaðarfélags Íslands telja, að byggingin geti ekki næstu 4 árin misst af þeim tekjum, sem gjald þetta gefur, og því er fram komin ósk þessara aðila um það, að bráðabirgðaákvæði búnaðarmálasjóðslaganna verði framlengt um 4 ára skeið, eða til ársloka 7.965, og er það, eins og hv. þm. sjá, efni þessa frv., sem hér er til umr.

Það er nú sýnt, að allur kostnaður við byggingu og búnað Bændahallarinnar mun ekki verða undir 100 millj. kr., og þegar það er haft í huga, að 70% af þessum kostnaði er lánsfé, má öllum það ljóst vera, að byggingunni mun ekki veita af þeim tekjum, sem 1/2% viðbótargjaldið gefur næstu 4 árin. Og mun efalaust ýmsum sýnast, að það megi gott heita, ef ekki þarf að framlengja gjaldið að þeim tíma liðnum. En þess er að vænta, að þessi glæsilega bygging gefi það ríkulegar tekjur, að til þess þurfi ekki að koma.

Eins og ég sagði, höfum við í landbn, óbundnar hendur í afstöðu okkar til þessa frv., en ég fyrir mitt leyti get sagt það, að ég sé ekki, að hv. Alþ. komist hjá því að framlengja þetta viðbótargjald, enda mun það vera í samræmi við óskir bændastéttarinnar, a.m.k. meiri hluta hennar, því að fulltrúar hennar bæði á búnaðarþingi og stéttarsambandsfundum hafa samþykkt að óska eftir því, að gjald þetta verði framlengt.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr.