18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki mikið lengja þessar umr., en það voru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á þó í máli mínu, sumt að gefnu tilefni. Það mætti margt um þetta mál efnislega ræða. Ég skal þó forðast að fara út í almennar umr. um það.

Þegar þetta gjald var á lagt, gerði ég þá grein fyrir mínu atkv. um það mál, að jákvæði mitt byggðist eingöngu á því, að það væri yfirgnæfandi meiri hl, fulltrúa bænda, sem óskaði eftir því að fá heimild til þess að innheimta þetta gjald, og að öðrum kosti mundi ég ekki hafa greitt málinu atkv., því að það var skoðun mín og er raunar skoðun mín enn, að þarna hafi kannske verið farið með, — ja, við getum kallað það stórhug, — meiri stórhug af stað en heppilegt hefði verið, þó að alltaf beri að sjálfsögðu að virða slíkt framtak. Afstaða mín til þessa máls í dag og ástæðan til þess, að ég greiði atkv. með framlengingu Í þessa gjalds, er sú, að eins og málið stendur, er óumflýjanlegt annað en að innheimta þetta gjald nú, a.m.k. alveg næstu árin, því að það gefur auga leið og það mun hafa haft áhrif á marga þá, sem upphaflega voru á móti gjaldinu, að það getur orðið mjög afdrifaríkt fyrir bændasamtökin, sem eru búin að leggja í þessa byggingu nú, ef það kæmist allt í þrot, m.a. vegna þess, að það er engin vissa fyrir því, að þau gætu án verulegra fjárhagsáfalla komizt út úr málinu, þótt þau vildu það. Og af þessum sökum er ég í dag miklu minna hikandi en ég var í upphafi við það að greiða atkv. með þessu máli og taka afleiðingunum af því, sem gert hefur verið. Hitt er allt annað mál, að ég get efnislega tekið undir það, sem fram kemur í grg. hv. minni hl. landbn. Þar kemur vissulega fram sjónarmið, sem hefði vel komið til greina og hefði mátt segja, að hefði verið réttara ráðið í upphafi þessa máls um framkvæmdir á því. En það er miklum mun erfiðara nú að ætla sér að færa málið inn á þær brautir en það hefði verið þá.

Þessi bygging er mjög glæsileg, og það er rétt, semi hv. 9. þm. Reykv. sagði hér, að það verður vafalaust síðar meir talið bændasamtökunum til mikils sóma að hafa reist þetta stóra og myndarlega hús. En því miður hefur hér orðið um að ræða stærri fjárhagsbyrðar en menn í upphafi létu sér detta í hug. Orsakir þess skal ég ekki rekja, bæði að húsið varð að lokum jafnvel enn stærra en upphaflega var ætlað og enn fremur hitt, að allur tilkostnaður hefur mjög aukizt á seinni árum, þannig að húsið hefur orðið miklum mun dýrara en gert var ráð fyrir. En það, sem blasir við nú, er að það verður að ljúka húsinu, þannig að það verði hæft til þeirra nota, sem það er ætlað, og eins og sakir standa í dag, þá hygg ég, að það sé rétt mat, að það sé lítt mögulegt að koma þessu máli á þann grundvöll, að bændasamtökin verði ekki beinlínis fyrir stórtjóni, ef, þetta gjald verður ekki framlengt, því að möguleiki samtakanna til að fá lán til að ljúka húsinu byggist að verulegu leyti á því, að sú trygging sé fyrir hendi, sem í þessu gjaldi er fólgin.

Hitt er svo allt annað mál, og undir það vil ég mjög taka með þeim, sem það hafa rætt hér, að það er að minni hyggju fráleitt með öllu, að bændasamtökin fari sjálf að reka þarna hótel. Það er rétt, að þau eru ábyrg fyrir þessum rekstri í dag. En ástæðan til þess er sú, að það er ekki talið gerlegt, — og ég hygg, að það sé rétt, — að bjóða út hótelreksturinn, fyrr en byggingunni er það langt komið, að hótelrýmið sjálft sé tilbúið til afnota. Það mundi enginn maður taka þetta húsrými á leigu sem hótel eða til neinna hluta, meðan það er ekki hálfkarað. En það mun vera ákveðin ætlun forustumanna bændasamtakanna að bjóða síðan hótelreksturinn út, en reka ekki hótelið í eigin nafni.

Hitt vil ég einnig taka undir, að ég álít það fráleitt með öllu, ef hótelið verður baggi á bændasamtökunum, þannig að þetta gjald þurfi að notast til þess að greiða rekstrarhalla. Þá álít ég, að sé orðið fullkomlega tímabært að endurskoða málið í heild. En það er erfitt að segja nokkuð um það í dag, og ég hef sannast sagna ekki þá trú, að það sé líklegt, að forustumenn bændasamtakanna mundu láta sér hugkvæmast það að starfrækja þetta hótel á eigin vegum eða eiga áfram þennan hluta byggingarinnar, sem til hótelrekstrar er notaður, ef það sýnir sig, að reksturinn sjálfur eða leiga hótelsins gefur ekki þann arð, að það fái staðið undir byggingarkostnaðinum. Það væri mjög fráleitt, og ég er hræddur um, að þá færi að koma mikill kurr í marga bændur, ef það væri sýnt, að það ætti að nota þetta gjald til þess að greiða rekstrarhalla, sem er auðvitað allt annað mál en að koma byggingunni upp.

Ég mundi því segja og taka undir með þeim mönnum, sem hafa nú gagnrýnt þetta mál, að það væri fullkomin ástæða til endurskoðunar á þessu gjaldi og þessari tilhögun allri saman um þessa fjáröflun, ef og þegar það sýnir sig, að gjaldið verður notað til þess að greiða rekstrarhalla af byggingunni, því að vitanlega er það rétt, og ég þykist sannfærður um það, að forustumenn bændasamtakanna geri sér fulla grein fyrir því, að þessa leið er ekki hægt að fara, og það yrði þá að reyna að finna möguleika til þess að afsetja annaðhvort hluta byggingarinnar eða koma hótelrekstrinum í hendur aðila, sem hefðu aðstöðu til þess að tryggja nægileg verkefni fyrir hótelið. Það mætti vel hugsa sér, að það yrði reynt að koma á einhverri samvinnu milli þeirra aðila, sem t.d. stunda fólksflutninga milli Íslands og annarra landa, ef þess gerðist þörf, til þess að reyna að tryggja framtíðarrekstur þessa hótels.

Ég skal engu spá um það, hvernig þessi rekstur muni ganga i framtíðinni, þó að ég fyrir mitt leyti hafi nokkrar efasemdir um það, að hann skili þeim árangri, sem áætlanir hafa verið gerðar um. En um það skulum við ekkert fullyrða í dag. Mér finnst, að það sé ekkert áhyggjuefni út af fyrir sig, þá að yrði veitt þessi heimild, sem hér um ræðir í þessu frv., því að að sjálfsögðu má hvenær sem er á tímabilinu fella þessa heimild niður, ef það sýnir sig, að óskynsamlega sé á þessu máli haldið, hótelið sé rekið með halla á kostnað bændasamtakanna eða á einhvern þann hátt málum þannig hagað, að hér sé beinlínis verið að nota fé bænda til að greiða hallarekstur, sem á að vera ástæðulaust að þurfi að greiða. En ég fæ ekki séð, að með nokkru móti sé nú hægt að komast undan því að framlengja þetta gjald, þétt það vafalaust sé engum manni gleðiefni að þurfa að gera það, því að vissulega væri sannarlega það bezta, að þess þyrfti ekki með.

Ég skal ekki orðlengja frekar, herra forseti um málið, en langaði aðeins til að láta þessi orð falla hér, sem nokkurs konar grg. þá um leið fyrir afstöðu minni til frv., þegar þar að kemur.