18.12.1962
Efri deild: 32. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess raunverulega að gera grein fyrir atkv. mínu í sambandi við þessa brtt., af því að ég álít æskilegt, að það komi fram sú skoðun, þannig að ekki verði misskilningur í sambandi við afstöðu til málsins.

Þetta frv. er flutt hér á Alþingi að beiðni tveggja aðalsamtaka bænda og í því formi, sem þessi samtök hafa frá því gengið, Ég álít, að þessi samtök séu ábyrg gagnvart sínum umbjóðendum um það að misfara ekki með þetta fé eða ráðstafa því á neinn óeðlilegan hátt. Einmitt vegna þess, hvernig frv. er til komið, tel ég fyrir mitt leyti ekki eðlilegt annað en að menn annaðhvort afgreiði frv. í þessari mynd eða séu á móti málinu í heild, því að það þyrfti allt nánari athugunar við, hvort það þjónaði þá sínum tilgangi, ef það ætti að fara að breyta því í verulegum atriðum nú frá því, sem það er.

Hitt vil ég gjarnan taka fram, að þó að ég greiði atkv. gegn þessari brtt., sem hér liggur fyrir, her alls ekki að skilja þá afstöðu þannig, að ég sé efnislega á móti því, að þeirra sjónarmiða verði gætt, sem í brtt. felast, þannig að í því felist nukkur viðurkenning á því, að það sé eðlilegt að nota gjaldið til þess að borga rekstrarhalla af þeim rekstri, sem fer fram í þessu húsi. Ég álít, að aðhald það, sem forustumenn bændasamtakanna hafa í því efni, sé nægilegt frá bændunum sjálfum og þeir muni ekki una því, að þannig yrði á málum haldið, og því þarflaust af Alþ. að vera að ákveða neitt um það. En til þess, eins og ég áðan sagði, að það verði ekki misskilið, að með þessu sé Alþ. að leggja blessun sína yfir, að gjaldið verði þannig notað, þó að brtt. sé felld, þá tel ég rétt, að það komi fram, að varðandi a.m.k. mína afstöðu í þessu máli er alls ekki heimilt að gagnálykta í því efni.