06.12.1962
Neðri deild: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

93. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Það er hyggja mín, að árið 1962 muni í búnaðarsögu okkar skipa sér á bekk með þeim árum, sem í annálum okkar eru stundum kalár kölluð. Þess mun hafa gætt í nær öllum héruðum landsins, að gróður hafi kalið á þessu árl, misjafnlega mikið að vísu og langmest þó á norðausturhluta landsins. Í þeim landshluta olli kalið stórfelldu tjóni. Athugun, sem gerð var á s.l. sumri að tilhlutan Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga á kali á ræktuðu landi þar i sýslu og tjóni af völdum þess, bendir til þess, að heymagn af túnum í þessu héraði verði í ár þriðjungi minna en á undanförnum árum. Af sumum túnum þar í sveitum varð ekki nema helmingsuppskera og sumum mun minni, og er kalinu að langmestu leyti um að kenna. Það er því alveg ljóst, að búendur í þessu héraði hafa orðið fyrir gífurlegu tjóni vegna uppskerubrests, og vart mun ástandið vera betra í héruðum þar norður undan og austan.

Það þarf því engan að undra, þó að þeir, sem fyrir slíkum áföllum verða, sem bændur í þessum landshlutum hafa orðið fyrir, beri fram óskir um aðstoð af hálfu hins opinbera, og ekkert er eðlilegra, þegar stórfelld áföll verða í einhverri atvinnugrein, ekki sízt þegar atvinnugreinin er svo mikilvæg fyrir þjóðarheildina sem landbúnaðurinn er, en að þing og stjórn komi til nokkurar hjálpar og létti þær byrðar, sem af ófyrirsjáanlegum orsökum hafa á þennan eða hinn atvinnuveginn verið lagðar.

Þetta frv., sem hér er til 2. umr., miðar í þessa átt, og þyrfti þó meira til að koma, ef vel væri. Landbn. þesarar hv. d. var á einu máli um það, að hér væri um svo mikið sanngirnismál að ræða, að sjálfsagt væri að mæla með samþykkt frv. En efni frv. er, svo sem hv. þm. vita, það, að greiða skuli sama jarðræktarstyrk og greiddur er skv. jarðræktarlögum á nýrækt á endurvinnslu túna, sem svo illa hafa farið af kali, að nauðsynlegt er að vinna þau upp og sá í þau grasfræi á ný.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að segja neitt til um það, hver kostnaður af þessu verður fyrir ríkissjóð. Vonandi verður hann sem minnstur, og að því þarf að vinna að gera hann sem minnstan, eftir því sem á okkar valdi er, m.a. með því að stuðla að áframhaldandi rannsóknum á orsökum kalsins og hyggja að því, hvernig gera má ræktunina sem öruggasta með tilliti til framræslu og vinnslu landsins og alls frágangs á því, svo að eitthvað sé nefnt. Einnig mun val grastegunda hafa mikið að segja, og verður það að fara eftír aðstæðum. Allt þetta mun þegar hafa verið nokkuð kannað, einkum af Sturlu Friðrikssyni magister, sem þegar hefur unnið í þessum efnum gott verk. Og nú alveg nýlega, fyrir 2 eða 3 dögum, var frá því skýrt í blöðum og útvarpi, að til landsins hefði verið flutt ódýrt tæki, sem þær vonir eru bundnar við, að með notkun þess megi koma gróðri í kalskemmdirnar án þess að til endurvinnslu landsins komi. Þetta tæki hefur ekki verið notað enn vegna þess, hve seint það kom til landsins á þessu ári. Væntanlega gefur það góða raun, og ég vil nota þetta tækifæri til að flytja þeim mönnum þakkir, sem hafa haft forgöngu um útvegun þess.

Framkvæmd jarðræktarlaganna mun vera ákveðin með reglugerð. Nefndinni sýnist rétt, að eins fari með ákvæði þessa frv., að framkvæmd þess verði ákveðin með reglugerð, annaðhvort sett inn í hina eldri reglugerð eða um það samin ný. Brtt., sem n. flytur og fylgir nefndarálitinu á þskj. 150, er aðeins formbreyting. Hún snertir ekki efni málsins, og vænti ég þess, að hv. þd. geti bæði fallizt á hana og samþ. þetta frv.