22.10.1962
Neðri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

32. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Flm. (Ragnar Guðleifsson):

Herra forseti. Frv. það til laga, er ég leyfi mér hér með að flytja, er um breyt. á l. nr. 23 6. maí 1955, um landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi. Breytingin er í því fólgin, að ákvæði laganna um heimild ríkisstj. til lántöku vegna byggingar hafnarinnar breytist þannig, að heimildin hækkar úr 25 millj. kr., sem hún nú er, í 70 millj. kr. Þetta er stórt stökk, og menn hljóta því að álykta, að hér liggi á bak við miklar fyrirhugaðar framkvæmdir, enda er það svo, og mun ég skýra það nokkru nánar,

Fyrir rúmlega 16 árum voru samþ. lög hér á hinu háa Alþ. um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum. Ég er þess fullviss, að fyrir þeim, er að þessari lagasmíð stóðu, hefur það vakað, að þarna yrði byggð höfn, er bæri nafnið landshöfn með réttu, höfn, er fullnægði þeim kröfum, sem gerðar eru til fullkominnar fiskihafnar, og þá einnig útflutningshafnar fyrir öll Suðurnesin. En fyrst og fremst yrði þetta lífhöfn allra þeirra mörgu fiskimanna, er veiðar stunda á Faxaflóa og nálægum miðum, höfn, er væri þeim mönnum, er sækja hinn raunverulega gullforða okkar í greipar Ægis, öruggt vígi að lokinni erfiðri sjóferð.

Því spyrjum við í dag: Hafa vonir og áætlanir þessara manna rætzt? Hefur hin fyrirhugaða landshöfn verið byggð? En því miður verðum við að svara þessum spurningum að mestu neitandi. Landshafnarsvæðið er takmarkað milli Vatnsness, sem liggur sunnan að Keflavíkurhöfn, og Hákotstanga, er liggur suðaustan að Njarðvíkurhöfn, eða Vatnsnesvík og Njarðvík, svo og strandlengjan þar á milli. Við Vatnsnes er nú hafnargarður um 200 m langur, sem nær út á um 13 m dýpi. Þar fer fram öll afgreiðsla stærri flutningaskipa, og garðurinn skýlir fyrir norðan- og austanátt, en í suðaustanátt er höfnin illa varin og því engan veginn örugg. 1 höfninni eru nú fjórar bátabryggjur, og við þær fer fram afgreiðsla fiskiflotans, svo og við hafnargarðinn, þegar þar er rými vegna flutningaskipanna. En þegar við höfum það í huga, að á s.l. ári voru afgreidd 344 flutningaskip í þessari höfn, þá verður okkur ljóst, að skipin eru í höfninni svo að segja daglega, og reiknum við þá með helgum dögum sem rúmhelgum. Afgreiðsla fiskibátanna fer því aðallega fram við bátabryggjurnar, en þar er hægt að afgreiða 10-12 báta samtímis við hagstæðustu skilyrði, þ.e.a.s. þegar flóð er, en aðeins 3 báta, þegar skilyrðin eru verst, þ.e. þegar dýpi er minnst um stórstraumsfjöru.

Þegar það liggur nú fyrir, að á vetrarvertíð og þegar síld veiðist á haustvertíð koma í höfnina daglega 70–100 bátar og fá þar afgreiðslu, þá má gera sér í hugarlund, að þarna er öll aðstaða til afgreiðslu mjög erfið. Um þetta segir svo í skýrslu landshafnarstjórnar, er lögð var fyrir fund, er ég mun síðar geta, og ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Er einstök heppni, að ekki verður stórtjón á mönnum og skipum í veðrum, þegar Grindavíkurhöfn og Sandgerðishöfn lokast vegna brima og bátar þaðan leita vars í Keflavíkurhöfn, sem verður þá þeirra lífhöfn, þrátt fyrir hinar mjög slæmu aðstæður. Það má teljast kraftaverk, að allur út- og innflutningur, sem fer um höfnina, skuli geta átt sér stað við núverandi aðstæður, og tekst því aðeins, að samvinna allra aðila er mjög góð og mikið unnið í nætur- og helgidagavinnu, sem svo leggur aukinn bagga kostnaðar á þá, sem við framleiðsluna starfa. Þegar á allt þetta er litið, má merkilegt heita, en er þó staðreynd, að óvíða mun meira aflamagn koma á land á einn stað en einmitt í þessari höfn.”

Á s.l. ári var landað i landshöfninni 50 þús. smál. af nýjum fiski, þar af 19 þús. smál. af síld. Þetta er að vísu 50% aukning frá árinu áður vegna síldarmagnsins, en þetta magn er 8.5% af heildarafla landsmanna það árið.

En höfnin er ekki aðeins löndunarhöfn fyrir fiskiflotann, hún er einnig útflutningshöfn, og þá ekki aðeins fyrir Keflavík og Njarðvíkur, heldur einnig fyrir öll Suðurnes.

Eins og ég gat um áðan, eru svo að segja á hverjum degi flutningaskip í höfninni. Og á s.1. ári komu þangað og fengu afgreiðslu 344 flutningaskip. Þessi skip fluttu út 33500 tonn sjávarafurða, sem eru að útflutningsverðmæti um 360 millj. kr. eða 12% af heildarútflutningi sjávarafurða landsmanna árið sem leið. Auk þessa eru ýmsar aðrar vörur lagðar á land í höfninni, svo sem sement, timbur, salt, olíur, tómar síldartunnur o. fl., og nemur það vörumagn rúmlega 100 þús. tonna. Er heildarmagn aðfluttrar vöru á s.1. ári því 151191 tonn.

Ég gat þess áðan, að hafnarsvæði landshafnarinnar lægi á svæði tveggja sveitarfélaga, Keflavíkur og Njarðvíkur. Þessi staðsetning hafnarinnar hefur óefað átt sinn þátt í því, að framkvæmdin við að gera höfn þessa að veruleika hefur dregizt lengur en æskilegt hefði verið og upphaflega var vænzt. En hvað sem liðna tímanum liður, þá má nú vænta, að þáttaskil séu fram undan í sögu þessarar hafnar, því að nú hefur það skeð, að aðilar þeir, sem hér eiga hlut að máli, sem eru landshafnarstjórn og sveitarstjórnir Keflavíkur og Njarðvíkur, hafa sameiginlega samþ. framkvæmdaáætlun, er landshafnarstjórn samþykkti 1959, um byggingu hafnarinnar, og kemur þessi áætlun fram í ályktun, er áðurnefndir aðilar samþykktu á sameiginlegum fundi, er haldinn var í Keflavík 29. sept. s.1., og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn lýsir einhuga stuðningi við verkáætlun landshafnarstjórnar frá 1959 um byggingu hafnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að hægt verði að afgreiða samtímis við góð skilyrði 3 flutningaskip, 25 fiskibáta af stærðunum allt að 150 tonn, að séð verði fyrir geymsluplássi innan hafnar fyrir allt að 150 fiskibáta af stærðum 75–150 tonn. Fundurinn telur ástand í hafnarmálum hér svo alvarlegt, að stefna verði að því að ljúka fyrrnefndri áætlun á næstu 4 árum. Til þess að svo megi verða, beinir fundurinn þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún taki þetta mikla hagsmunamál byggðarlaganna til skjótrar úrlausnar og útvegi fjármagn um 50–60 millj. kr., svo að uppbygging hafnarinnar geti hafizt af fullum krafti þegar á næsta vori.“

Þótt það komi ekki beint fram í þessari ályktun, hvernig framkvæmdum verði hagað, þá sýnir tillöguuppdráttur, sem verkáætluninni fylgir, að aðalframkvæmdin er fólgin í því að gera örugga bátahöfn í Ytri-Njarðvík, jafnhliða því að bæta sem mögulegt er afgreiðsluskilyrðin innan hafnarinnar við Vatnsnes. Þessi ályktun ber það með sér, að það er þungi lagður á það, að framkvæmdir geti hafizt hið fyrsta og að þeim verði hraðað sem verða má. Og þetta er ekki að ástæðulausu. Sjómennirnir, sem sækja á miðin við Suðurnes á vetrarog haustvertíðum og leggja upp afla sinn í þessari höfn, þekkja bezt, hve tifullkomin höfnin er og öryggi þar lítið. Helgarfríin þeirra hafa oft hafnað þar, og margar óveðursnætur verða þeir að gæta þar báta sinna, ef verða mætti til þess að koma í veg fyrir tjón. Auk þess er rými hafnarinnar mjög takmarkað, og veldur það varandi erfiðleikum með ári hverju, því að bátunum er ávallt að fjölga, og á síðustu árum hafa þeir stækkað úr 40–50 smál. í 70—250 smál.

Vegna þessa hef ég lagt fram þetta frv., ef verða mætti til þess að flýta gangi mála. Þótt hér sé ekki farið fram á bein fjárframlög í frv., heldur aðeins heimild til handa ríkisstj. til lántöku, þá tel ég rétt að líta aðeins á fjárhagshlið þessa máls. Þá spyr sjálfsagt einhver: Svarar þetta kostnaði fjárhagslega? Getur slík höfn borið sig? Verður hún ekki alltaf baggi á ríkinu?

Ég treysti mér ekki til þess að segja fyrir um, hvort sú höfn, sem samkv. framkvæmdaáætlun landshafnarstjórnar er fyrirhuguð, getur staðið undir stofnkostnaði. Því verður framtíðin að skera úr. Ég veit hins vegar, að ríkið hefur ekki þurft til þessa að gefa með landshöfninni í Keflavík og Njarðvíkum. Ég fletti að gamni upp í reikningum hafnarinnar árin 1958—1961, og þá kemur í ljós, að á þessum árum er árlegur hagnaður hafnarinnar frá 339 þús. til 690 þús., eða um hálf milljón árlega. Auk þess eru afskriftir þessi árin nær hálf millj. kr. á ári hverju. Þessi er afkoma hafnarinnar, þrátt fyrir það að hafnar- og vörugjöldum er mjög stillt í hóf og með þeim lægstu, er hér á landi þekkjast. Mér er líka ljóst, að enginn mun treysta sér til að reikna, hve mikið það hefur kostað og mun kosta árlega, ef ekkert verður að gert í hafnarmálum þessara byggðarlaga. Við vitum hins vegar, að árlega kostar viðhald bátanna hundruð þúsunda vegna óöruggrar hafnar. Það hefur kostað skipstapa, og slíkt getur kon:ið fyrir aftur. Og þá getum við ekki gleymt slysahættunni, sem slíkum mannvirkjum fylgir.

Við verðum því ávallt, þegar meta á gildi slíkra mannvirkja, að hafa í huga, að þeirra hlutverk er ekki aðeins það að afla tekna, heldur miklu fremur að verja líf manna og eignir. Og því er það, að oft getur kostnaðurinn orðið meiri við að bíða og framkvæma ekki en sem svarar kostnaði við að byggja mannvirkið.

Ég hef lokið máli mínu og vænti þess, að mál þetta fái jákvæða afgreiðslu 8 þessu þingi. Ég legg til, að málinu verði að umr. loknum vísað til 2. umr. og sjútvn.