07.03.1963
Efri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

142. mál, landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi

Frsm. (Jón Arnason):

Herra forseti. Hér er um mál að ræða, sem segja má að sé að öllu leyti hliðstætt frv. því um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum, sem hér var til umr. næst á undan. Eina efnisbreytingin, sem frv. felur í sér, er um hækkun lánsheimildar til hafnarframkvæmdanna. Er hér um hækkun að ræða úr 12 millj. kr., sem nú er, í 50 millj. kr. Sú heimild, sem nú er í gildi, mun að mestu leyti vera fullnýtt, en hins vegar er nú fyrirhugað að hefja framkvæmdir að nýju á komandi sumri, skv. upplýsingum, sem fram koma í bréfi hafnarmálastjóra, dags. 13. nóv. s.l. um mál þetta. Þar er sagt m.a., að þá standi yfir áætlunargerð um byggingarframkvæmdir í Rifshöfn og muni þær áætlanir gera ráð fyrir framkvæmdum, sem kosta muni um 30–40 millj. kr. Er þá aðeins átt við næsta áfanga, sem að vísu mun taka meira en eitt ár að framkvæma. Það er því augljóst mál, að sú hækkun lánsheimildar, sem frv. kveður á um, er sízt of mikil. Þessar byggingarframkvæmdir, sem hér um ræðir og nú eru fyrirhugaðar af báðum þessum þýðingarmiklu landshöfnum, í Keflavík og á Rifi á Snæfellsnesi, eru nú orðnar mjög brýnar og aðkallandi, og hefur þeirra vissulega verið beðið með eftirvæntingu um langan tíma af þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máll.

Það er einróma till. sjútvn., að frv. þetta verði samþ. og að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.