27.11.1962
Efri deild: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

105. mál, dýralæknar

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta fn. þarf ekki langra skýringa við. Efni þess, eins og segir í grg., er að leggja til, að Eyjafjarðardýralæknisumdæmi verði skipt í tvö dýralæknisumdæmi. Ástæðan til þessarar breytingar er sú, að það er bæði af þeim dýralækni, sem nú gegnir embætti í þessu umdæmi, og einnig af yfirdýralaekni talið óviðunandi vegna hins mikla fjölda grípa, sem er í þessu umdæmi, að hafa þar aðeins einn dýralækni.

Nú um nokkurt skeið hafa verið starfandi tveir dýralæknar á Akureyri. Hins vegar er skv. gildandi dýralæknalögum ekki heimilt að launa nema einn dýralækni í hverju umdæmi, og er því aðstaða hins dýralæknisins algerlega óviðunandi. Héraðsdýralæknirinn hefur hins vegar sagt, að ef hann missti þennan dýralækni, þá teldi hann algerlega óviðunandi, að hann gæti gegnt þessu starfi. Niðurstaðan í þessu máli er sú, að við þm. úr Norðurl. e. í þessari hv. d. flytjum frv. um það í samráði við yfirdýralækni, að umdæminu verði skipt.

Í grg. er tekið upp úr bréfi yfirdýralæknis um þetta mál, og er þar að finna nákvæmar skýringar á því, hvað felst í frv., og að ég hygg skýrustu rökin fyrir því, að nauðsynlegt sé að breyta dýralæknalögunum að þessu leyti. Það er kunnugt, að ekki hafa fengizt dýralæknar að vísu í öll umdæmi landsins. En þó að menn af þeim sökum vildu halda því fram, að ekki ætti að skipta umdæminu, sem hér um ræðir, til að tryggja fyrst dýralækna í önnur umdæmi, þá mun það ekki leysa neinn vanda að þessu leyti, vegna þess að það yrði að reyna að finna einhverja lausn á þessu vandamáli í Eyjafirði, þannig að þessi dýralæknir gæti verið þar áfram. Hann vill gjarnan vera nyrðra og mundi naumast sækja um þau embætti önnur, sem hér kunna að vera laus. Ég tek þetta aðeins fram til þess að útskýra það, sem væru að telja má einu hugsanlegu andmælin gegn þessu frv., að ekki væri alls staðar skipað í embætti og þá mundi það ekki leysa neitt þann vanda, þó að menn af þeirri ástæðu teldu sér ekki fært að fallast á þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Það er annað dæmi þess, að héraði eða einni sýslu hafi verið skipt, þ. e. hér á Suðurlandi. Arnessýslunni hefur verið skipt í 2 umdæmi vegna þess, hve gripafjöldi hefur verið þar mikill, og þar er því fordæmi fyrir því, að þetta sé gert, auk þess sem Eyjafjarðarumdæmi nær, eins og menn sjá af frv., einnig yfir hluta af Þingeyjarsýslu.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að orðlengja frekar um málið. En svo sem tekið er fram í lok grg., hefur þótt rétt að hafa þetta frv. í því formi að taka inn í það þær breytingar, sem gerðar hafa verið á dýralæknalögum undanfarin ár, og fella þau lög jafnframt úr gildi, þar sem það er augljóslega miklu handhægara að hafa þessi lagaákvæði öll á einum stað.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.