11.03.1963
Neðri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hingað er nú komið úr Ed. frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Bakkasel í Öxnadal, og kveður 1. gr. frv. á um það, að ríkisstj. sé heimilt að selja Öxnadalshreppi nefnda jörð fyrir verð, sem dómkvaddir menn meti. En þetta frv. er flutt af tveimur hv. alþm., sem sæti eiga í Ed., og raunar flutt eftir beiðni hreppsnefndar Öxnadalshrepps. í bréfi oddvitans, sem prentað er sem grg. fyrir frv., er bent á, að Bakkasel hafi verið úr ábúð og ónytjað tvö undanfarin ár að öðru leyti en því, að Öxnadalshreppur hafi leigt landið og notað sem afrétt. Telur oddvitinn, að litlar líkur séu til, að jörðin fari í ábúð á næstu árum, og færir fyrir því ýmis rök. Aftur á móti telur oddvitinn, að bændum í Öxnadalshreppi sé ávinningur að því að nýta jörðina sem afréttarland, svo sem verið hefur undanfarin tvö ár, en eins og áður er sagt, hefur hreppurinn landið á leigu einmitt í þessu skyni. Með tilliti til þessara aðstæðna og þeirra líkinda. að Bakkasel muni ekki byggjast að nýju, er það ósk hreppsins að fá landið keypt, enda komi jörðin helzt að gagni sem afrétt fyrir Öxndælinga. Að öðru jöfnu hefur það yfirleitt verið venja Alþ. að virða slíkar röksemdir sem þessar og veita þá ríkisstj. heimild til þess að selja jarðirnar. Ef ekki kæmi fleira til, mundi Alþ. áreiðanlega nokkuð samhljóða samþykkja þessa sölu Bakkasels nú til Öxnadalshrepps.

Í umr. þeim, sem átt hafa sér stað í hv. Ed. um þetta mál, hafa komið í ljós fleiri sjónarmið en hagsmunir Öxnadalshrepps í afréttarmálum. Hafa ýmsir hv. þm. bent á, sem rétt er, að Bakkasel gegni alveg sérstöku hlutverki í samgöngumálum Norðurlands vegna legu sinnar í þjóðbraut, vöruflutninga og annarra samgangna, einkum að vetrarlagi. Um margra ára skeið var Bakkasel eina byggða bólið milli efstu bæja í meginbyggð Öxnadals og fremstu bæja í Norðurárdal í Skagafirði. Á milli er Öxnadalsheiðin, versta torfæran og á margan hátt hættulegasti kaflinn á leið langferðabifreiðanna milli Norður- og Suðurlands. Er ávallt talsverð slysahætta á Öxnadalsheiði, fyrst og fremst á vetrum á hálum og bröttum vegi, enda hafa orðið þar allmörg bílslys og oft raunar mildi, að ekki fór verr en raun varð á. Það er því með réttu þess vert að gefa samgöngumálunum á þessu svæði sérstakan gaum, þegar rætt er um að veita heimild til þess að selja umrædda jörð, og þá fyrst og fremst það, að hvaða leyti Bakkasel geti komið að gagni til umferðaröryggis. Ég hygg, að allir séu sammála um, að Bakkasel sé þannig staðsett, að nauðsynlegt sé að hafa þarna einhvern viðbúnað, sem miðar að öryggi vegfarenda á Öxnadalsheiði og nágrenni. En um það kunna að verða skiptar skoðanir, í hvaða formi sá viðbúnaður þyrfti eða ætti að vera miðað við núverandi aðstæður.

Svo sem kunnugt er, eru rétt um 30 ár síðan áætlunarferðir almenningsvagna hófust milli Akureyrar og Reykjavíkur, en tæplega 20 ár síðan byrjað var á nokkuð föstum ferðum flutningabifreiða. Lengi framan af gegndu áætlunarferðir almenningsvagnanna mjög stóru hlutverki í samgöngum milli Reykjavíkur og Akureyrar og gera það að sjálfsögðu enn, þó að nokkuð hafi dregið úr því með tilkomu flugferða. Aftur á móti eykst stöðugt notkun stórra flutningavagna á þessari leið, og má heita, að flesta daga vikunnar fari slíkar bílalestir um þjóðveginn milli áðurgreindra staða og flytji margs konar verzlunar- og iðnaðarvarning fram og til baka. Hygg ég, að Akureyringar einir eigi um 20 stóra flutningavagna, sem eru í förum milli Norður- og Suðurlands, hvenær sem fært er, hvort heldur er að sumri eða vetri. Hið sama er að segja um almenningsvagnana eða rúturnar, sem svo eru kallaðar, þeim er haldið gangandi allan ársins hring, eftir því sem aðstæður leyfa. Umferðin um Öxnadal og Öxnadalsheiði er því afar mikil allan ársins hring, og vegurinn hjá Bakkaseli er því hin mesta lífæð fyrir alla flutningastarfsemi.

Á fyrstu árum mannflutninga milli Reykjavíkur og Akureyrar, og raunar alllengi fram eftír, gegndi Bakkasel hlutverki sínu sem óhjákvæmilegur áfangi á leiðinni. Þar var jafnan stanzað og notið veitinga, a.m.k. á suðurleið, enda var þá torfærara og langsóttara frá Akureyri en nú er, eftir að miklar vegarbætur hafa átt sér stað, svo að leiðin er nú ekin á allt að helmingi skemmri tíma en fyrrum. Veitingastarfsemi í Bakkaseli hlaut því að leggjast af í þeim mæli, sem var, meðan langferðavagnarnir höfðu þar fasta viðkomu. Þá tók einnig að sneiðast um arðgæfan afkomugrundvöll fyrir ábúendur Bakkasels, og reyndist smám saman erfitt að fá menn til þess að búa þar, þótt reynt væri að bæta afkomuna með nokkrum styrkveitingum, enda fór svo að lokum, að seinasti ábúandi Bakkasels fluttist þaðan fyrir u.þ.b. 3 árum; eða í fardögum 1960, og telur vegamálastjóri, sem hefur umráð jarðarinnar fyrir hönd ríkisins, að ekki fáist ábúendur á jörðina, og er sammála hreppsnefndinni um það, að líkurnar fyrir því, að Bakkasel komist í ábúð að nýju, séu næsta litlar. Þá hygg ég, að vegamálastjóri sé þeirrar skoðunar, að hægt sé að nota Bakkasel til öryggis í umferðinni, án þess að jörðin sé í ábúð, nefnilega með því, að ríkið starfræki þar sæluhús, eins og verið hefur að undanförnu. Hins vegar hefur komið fram hér í umr. á Alþingi, að ekki sé nægilega vel séð fyrir umferðarörygginu, nema því aðeins að Bakkasel sé í ábúð, þ.e. að fólk sé á staðnum. Ef það sjónarmið reyndist rétt og ef það er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir umferðaröryggi á Öxnadalsheiði, að það sé búið í Bakkaseli, þá er auðvitað ekkert vit í, að ríkið afsali sér jörðinni og afhendi hana Öxnadalshreppi sem afrétt, þá verður að synja um þessa söluheimild. Verði aftur hitt sjónarmíðið ofan á, sem vegamálastjórnin virðist hallast að, að ábúð í Bakkaseli sé ekkert sérstakt skilyrði fyrir notum staðarins í umferðaröryggisskyni, þá er ekkert því til fyrirstöðu að selja Öxnadalshreppi jörðina til afréttarnota, því að sem slík er hún mikilvæg bændum í Öxnadal og fullkomið sanngirnismál, að þeir njóti þeirra gagnsmuna, sem jörðin býr yfir og helzt verða nú nýttir.

Ég þekki nokkuð til í Bakkaseli og þori að fullyrða, að jörðin er ákaflega rýr að gæðum, þó að hún hafi haft nokkra kosti áður fyrr, meðan aðrir búskaparhættir voru við lýði. Ræktunarland er þar sáralítið og búskapur þar

því ekki eftirsóknarverður og á margan hátt alveg ástæðulaust að halda henni í byggð, enda er byggðasaga Bakkasels ærið stutt, og telur Bernharð Stefánsson fyrrv. alþm., sem er nákunnugur sögu þessarar sveitar, að Bakkasel hafi fyrst orðið bújörð um miðja síðustu öld. Lengri er sú saga ekki, og minnir hún nokkuð á þá þróun, sem varð á Austurlandi á svipuðum tíma, þegar skortur var á jarðnæði þar og allmargir bændur settust að í Jökuldalsheiði, en síðan lagðist sú byggð af með breyttum tíma. Um búskap í Bakkaseli verður því ekki að ræða, nema ríkið styrki ábúandann verulega með kaupgreiðslum eða fjárstyrk og þyrfti sá styrkur þá að verða eftirsóknarverðari en hann hefur verið hingað til. Í sjálfu sér gæti ég fyrir margra hluta sakir fallizt á þá lausn að styrkja menn þannig til ábúðar á jörðinni, því að vissulega er það æskilegt, að mannabyggð sé á þessari fjölförnu leið og að hún teygist sem allra lengst upp undir heiðina, og mundi það út af fyrir sig verða til öryggis vegfarendum. En þó held ég, að þetta sé engan veginn einhlítt. Á það verður að benda, að kostnaðurinn við að koma Bakkaseli í byggð að nýju afmarkast ekki af því einu að auka styrk eða kaup til væntanlegs ábúanda. Jarðarhús eru mjög léleg, og er óhjákvæmilegt að byggja þar upp að nýju, ef sómasamlegt á að teljast. Mundi það kosta stórfé, en engar líkur til þess, að hægt yrði að rísa undir kostnaðinum af búskap einum saman, og er þá hætt við, að fljótlega drægi að því, að hús dröbbuðust niður, jafnvel þótt fé væri veitt til uppbyggingar í því skyni að reka búskap.

É;g hef þá skoðun, að ríkinu sé ekki akkur í að halda eignarumráðum jarðarinnar í því skyni að koma þar upp búskap og það sé því ekkert því til fyrirstöðu að selja Öxnadalshreppi jörðina. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, að jörðin verði seld með ákveðnum skilyrðum, fyrst og fremst þeim, að ríkið haldi eftir jarðarhúsunum, sem nú eru til staðar, og jafnframt, að ríkið tryggi sér ævarandi rétt til þess að hafa áfram eða byggja nýtt sæluhús eða önnur mannvirki, sem nauðsynleg teldust til þess að auka öryggi í vetrarferðum um Öxnadalsheiði. Það er vafalaust höfuðatriði í málinu, séð frá sjónarmiði öryggismálanna.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að full ástæða er til að gera ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að auka umferðaröryggið í hinum erfiðu og áhættusömu vetrarferðalögum. Ég vil sérstaklega benda á það, að allir langferðabílar séu búnir talstöð, sem sé í sambandi við hlustunarþjónustu á einhverjum stað. Raunar mun þetta nú komið á hvað snertir rútubílana. Og hið opinbera ætti að stuðla að slíkri þjónustu með styrkveitingu fram yfir það, sem ná er. Eins er nauðsynlegt að setja reglur um það, að bílar séu ekki einir í slíkum ferðum, heldur séu jafnan fleiri í samfloti, og jafnframt finnst mér ástaeða til þess, að bílstjórar séu ekki einir í bílunum, heldur hafi þeir aðstoðarmann, a.m.k. á hættulegustu leiðum, eins og Öxnadalsheiði. Þá þarf einnig að fylgjast með búnaði bifreiða í vetrarferðum, þ. á m. að fyrir hendi séu skjólflíkur, t.d. ullarteppi og annar útbúnaður, sem nauðsynlegur er öryggi vegfarenda í slíkum ferðum, ef eitthvað ber út af. Raunar er ég ekki með þessum orðum að væna bifreiðastjóra um, að þeir sýni ekki næga aðgæzlu í ferðum sínum hvað þetta snertir, en hins vegar er full ástæða til þess, að eftir þessu sé litið með eðlilegu öryggiseftirliti.

Þetta mál hefur verið allvel kannað af hv. landbn. Ed., sem leitaði umsagnar nokkurra aðila um málið, og mæla þeir allir með sölunni. Allir viðstaddir nm. mæltu með samþykkt frv., en einn nm., hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, lýsti síðar í þingræðu yfir því, að hann vildi láta fresta málinu, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, lagðist eindregið gegn frv. í ræðum, sem hann flutti við 1. og 2. umr. í hv. Ed. Hins vegar var frv. samþ. óbreytt í d. og er nú hér til 1. umr. í þessari hv. þingdeild.

Málið mun að sjálfsögðu ganga til n., og hygg ég, að það væri æskilegt, að hv. landbn. leitaði umsagnar fleiri aðila, sem hagsmuna hafa að gæta í þessu máli, t.d. Norðurleiðar h/f og þeirra bifreiðastöðva á Akureyri, sem einkum stunda vöruflutninga á þessari leið. Eins kynni það að vera til athugunar fyrir n., hvort ekki sé rétt að bæta inn í frv, ákvæðum, sem tryggja nauðsynlega fyrirvara af ríkisins hálfu, ef úr sölu verður. Hef ég áður gert grein fyrir, hverja ég tel mikilvægasta slíkra fyrirvara, og skal ekki endurtaka það, en minni aðeins á þetta, ef hv. landbn. vildi athuga það mál sérstaklega.