04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

186. mál, sala Vatnsenda og Æsustaða

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er komið frá Ed., þar sem það hefur verið samþ. Það v ar flutt inn í þingið að tilmælum dóms- og kirkjumrn. og er efni þess það að heimila ríkisstj. að auglýsa til sölu og selja prestssetursjarðirnar Vatnsenda í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi og Æsustaði í Austur-Húnavatnssýslu.

Landbn, þessarar hv. d. hefur athugað frv., og leggur meiri hl. n. til, að það verði samþ., en minni hl. n., hann skipar hv. 6, þm. Sunnl., leggur til, að frv. verði fellt.

Ástæðan fyrir því, að farið er fram á þessa heimild, er sú, að það hefur verið ákveðið skv. óskum þar um og að fengnum till, hlutaðeigandi aðila að flytja prestssetrin á hentugri staði í prestaköllunum. Ætlunin mun vera að flytja prestssetrið frá Æsustöðum á stað i nánd við Bólstaðarhlíð, en þar hefur myndazt nokkurs konar miðstöð þess byggðarlags, en prestssetrið á Vatnsenda mun eiga að flytja í nýbýlahverfi, sem er að rísa upp í landi jarðarinnar Fremstafells í Köldukinn.

Ég vil aðeins skýra frá því til þess að sýna, að það er hagræði að því að flytja prestssetrið frá Æsustöðum, þar sem ég þekki aðstæður, og núv. prestur þar, séra Jón Ísfeld, hefur á þessum vetri ráðizt í það að halda uppi unglingafræðslu í sínu prestakalli. Hefur hann þann hátt á, að hann tekur unglinga heim á það heimili, þar sem hann býr nú, en hann býr ekki á Æsustöðum, vegna þess að íbúðarhúsið þar er ekki talið íbúðarhæft. En ef prestssetrið yrði flutt, eins og ráð er gert fyrir í þessu frv., í nánd við Bólstaðarhlíð, þá mundi hann, ef honum sýndist svo, sem ég vona, halda áfram þessu merka starfi að reka þarna unglingaskóla, og þá mundi aðstaða hans mjög batna, því að þá væri hægt að nota félagsheimili sveitarinnar, Húnaver, til þessa skólahalds.

Það er í frv. fyrirhugað, að andvirði þessara prestssetra, sem hér er farið fram á að heimila sölu á, renni til hinna nýju prestssetra, og er það í samræmi við ákvæði 7. gr. l. um skipun prestakalla.

Við í landbn. vitum ekki annað en það sé full eining um þessar breyt. heima í prestaköllunum, og m.a. af því að svo er, þá leggur n. til, að þetta frv. verði samþ.