26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

156. mál, bændaskólar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem sagt var hér í gær. Það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, gefur ekki tilefni til ræðuhalds um þetta mál. Það kom að því, sem ég bjóst við, að það kæmu ekki brtt. frá hans hendi við frv., heldur frávísunartill., og mér þykir það heldur leitt hans vegna, að hann skuli með þessari frávísunartili. vera að kveða upp sleggjudóm yfir þessu máli, órökstuddan, þar sem hann segir í till., að frv. sé á ýmsan hátt ófullkomið og eigi til þess fallið, ef að lögum verður, að efla bændaskólana og auka við tæknina i landinu, — heldur verra hans vegna, að hann skuli láta sér það sæma að viðhafa slík arð og láta það koma á prenti á þskj. um mál, sem hann sér ekki ástæðu til að flytja neina brtt. við.

Þetta frv. hefur verið hér í hv. d. á annan mánuð, og þess vegna hefur hv. þm. haft nægan tíma til þess að athuga, hvað það væri nú helzt, sem til bóta mætti verða við málið. En i stað þess að gera það, þá er lagt til að vísa málinu frá, án þess að færa fram ástæður fyrir því, hvers vegna það á ekki að samþykkja.

En það eru ýmsar aðferðir, sem menn hafa, og ein meginástæðan, ef ástæðu mætti kalla, er það, að það var enginn bóndi í þeirri nefnd, sem samdi frv. Það hefði vitanlega vel mátt hugsa sér það að hafa bónda í n., og frv. hefði vissulega getað orðið eins gott, þótt það hefði verið, ekki skal ég neita því. En með því að hafa báða skólastjórana á bændaskólunum, sem hafa áratugareynslu í kennslu og þekkja til búskapar eins vel og hver bóndi, þá virtist þetta mál vera nokkuð tryggt og vel fyrir því séð, og þar er til viðbótar einn færasti skólamaður landsins, sem hefur verið miðskólastjóri og vissulega sérstaklega vel til þess fallinn að tengja það saman, sem hv. 5. þm. Austf. var að tala um hér áðan, þ. e. gagnfræðamenntunina og búnaðarmenntunina. Og það er enginn vafi á því, að þótt þetta frv. gæti vitanlega verið fullkomnara, það vitum við, það er svo með öll mannanna verk, þá er ég sannfærður um, að þetta frv. er til bóta og mikilla bóta við búnaðarfræðsluna í landinu, ef það verður lögfest.

Þau atriði, sem hv. 5. þm. Austf. var hér að tala um áðan og eins í gær, að það mætti með reglugerðarákvæðum framkvæma flest af því, sem gert væri ráð fyrir að lögfesta í frv., og þess vegna gerðist ekki þörf á að lögfesta það, það er nú út af fyrir sig játning frá hendi hv. þm., að það sé eitthvað gott í frv., úr því hann telur, að það meg! framkvæma flest af því, sem er í því, með reglugerð. Það út af fyrir sig er játning á því, að það séu ákvæði í frv., sem eigi að framkvæma. En jafnvel þótt svo væri, að það mætti gera þetta, þá eru áreiðanlega skiptar skoðanir um það, og það væri óviðeigandi að gera þetta án þess að lögfesta það. Og það er eitt meginatriði, sem ég benti á í gær, jafnvel þótt það mætti framkvæma þetta án laga hvað kennsluna snertir, sem er þó mjög hæpið og vafasamt, þá er það þó með uppbyggingu skólasetranna ábyggilega til mikils stuðnings að fá þetta frv. gert að lögum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Þessi dagskrártill. er fram komin, það er staðreynd, og úr því að hv. 5. þm. Austf. og hv. 1. þm. Vesturl. vildu það viðhafa; þá er raunar ekkert við því að segja, en ég vænti þess, að meiri hl. hv. Ed. verði á móti dagskránni og samþykki frv.