01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

156. mál, bændaskólar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál, hér við 1. umr. í hv. deild. Málið er komið úr Ed. Þar var samþykkt ein breyting við frv. Það var heimild til þess, að bændaskólarnir væru þrír, eins og hefur verið í lögum, þ.e. að þriðji bændaskólinn verði reistur á Suðurlandi, þegar efni standa til. En eins og l. eru núna, hefur verið gert ráð fyrir, að bændaskóli yrði byggður í Skálholti. Eftir að Skálholt er afhent kirkjunni til umráða, þykir ekki tilhlýðilegt að hafa í 1., að þar skuli einnig vera bændaskóli.

Frv. er samið af n., sem var skipuð 25. marz 1960. Í n. áttu sæti Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri, Kristján Karlsson fyrrv. skólastjóri á Hólum, Aðalsteinn Eiríksson fyrrv. skólastjóri, núverandi skólaeftirlitsmaður, Ásgeir Pétursson sýslumaður og Gunnar Vagnsson fulltrúi.

Það, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., er að auka til muna vélfræðinám í skólanum og samræma búnaðarnámið við breytta staðhætti. Það er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun á kennurum. Það er gert ráð fyrir því, að það þurfi ekki endilega að vera sams konar kennsla í báðum bændaskólunum, heldur gæti komið til greina að hafa nokkra verkaskiptingu þar í milli. Frv, stefnir sem sagt að því að samræma kennsluna við breytta staðhætti.

Aðsókn að bændaskólunum hefur að undanförnu verið nokkuð dræm, sérstaklega að Hólaskóla. Hvanneyrarskóli er fullsetinn nú og umsóknir að berast fyrir næsta ár. Aðsókn að Hólaskóla hefur aukizt aftur, og nú eru 18 nemendur í yngri deild skólans. Ef þeir koma allir til náms á næsta hausti og sæmileg aðsókn verður aftur að yngri deild, er ástæða til að ætla, að skólinn verði fullsetinn næsta ár, og lofar það nokkuð góðu.

Þess verður að geta, að aðbúnaður að bændaskólunum hefur ekki verið eins góður og æskilegt er að undanförnu. Fjárveitingar til viðhalds og uppbyggingar hafa verið of litlar. Þetta hefur verið aukið allverulega nú á fjárlögum 196l, og aftur á yfirstandandi fjárlögum, en slíkar fjárveitingar þurfa að halda áfram, ef uppbyggingu skólanna á að koma í það horf, sem nauðsynlegt má telja. Búnaðarskólanefnd hefur gert sér grein fyrir því, hvað þarf að gera á hvorum skóla til uppbyggingar, til þess að aðstaðan geti talizt sæmileg, og er út af fyrir sig nauðsynlegt að gera slíka áætlun, til þess að framkvæmdir geti orðið eins og eðlilegt og æskilegt er.

Ég tel það til mikilla bóta, ef þetta frv. verður að l. nú, frá því, sem verið hefur. Það samræmir búnaðarskólanámið við nútíðar búnaðarhætti. Þetta frv., ef að lögum verður, mun styrkja aðstöðuna til þess að bæta hag skólanna, og það mun sérstaklega stuðla að því, að vélfræðileg kennsla verði aukin í skólunum, en það er eitt af því, sem er nauðsynlegt hverjum bónda, að kunna meðferð véla og viðgerðir á þeim.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. að svo stöddu, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.