05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

156. mál, bændaskólar

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að tala í þessu máli og geri ekki mikið að því að tala hér, af því að ég er nú þannig gerður, að ég er latur að fást við það, sem mér finnst ekki bera neinn árangur, og við vitum það, sem erum í stjórnarandstöðunni, að þó að við förum að koma með einhverjar till., þá er ekki mikið gert með þær.

En hæstv. landbrh. var að brýna flokksbróður minn og frsm. minni hl. á því, að hann kæmi ekki með neina ástæðu fyrir því að vilja ekki samþykkja frv., svo að ég fór að líta yfir frv. og rak augun í ýmislegt smávegis, sem ég hefði álitið að færi betur að hafa á annan hátt. Það er t.d. byrjað að segja, að hér á landi skuli vera þrír skólar, er veita verklega og bóklega menntun bændaefnum og öðrum þeim, sem hyggjast gera landbúnaðarstörf að lífsstarfi sínu. Skulu þeir vera að Hólum í Hjaltadal, Hvanneyri í Borgarfirði og hinn þriðji á Suðurlandi, þegar lokið er byggingu skólahúss og öðrum nauðsynlegum undirbúningi. Skólarnir nefnast bændaskólar. Ég álít, að það hefði farið betur að byrja ekki að slá þessu alveg föstu með þriðja skólann. Það hagar nú þannig til, að þessir tveir skólar, sem við höfum, hafa ekki verið báðir fullsetnir undanfarið, og það virðist ekki vera sérstaklega mikill áhugi á því að sækja nám i bændaskólum, og það er ábyggilegt, að það, sem ríður mest á, er að hafa þessa skóla þannig útbúna, að þeir séu til fyrirmyndar og menn geti þar eitthvað lært. Það er betra að hafa færri skóla og hafa þá í betra lagi. Ég held, að það hefði því farið betur á því að ákveða að hafa tvo skóla og hafa aðeins heimild til að stofna þriðja skólann, orða þetta dálítið öðruvísi. Sumir halda því meira að segja fram, að það sé nóg að hafa einn bændaskóla. Ég hef átt tal um þetta við Guðmund á Hvanneyri t.d. og átti það síðast í vetur, og mér fannst vera talsvert hik á honum að halda því fram, að þyrfti meira en einn skóla. Það helzta, sem hann fann að því, var, að það yrði óþægilegt að koma fyrir mjög mörgum nemendum við verklegt nám. Vitanlega væri betra að hafa einn skóla, sem væri á allan hátt vel útbúinn og vel skipaður kennurum, heldur en hafa tvo vanrækta, það er ég sannfærður um.

Það er nú svo með þessa bændamenntun, að hún er góð og æskileg. En aðstaðan er nú að verða þannig hjá flestum bændum, að þeir hafa mikla véltækni og drengir, sem alast þar upp, læra þetta frá því fyrsta. Ég er því ekki viss um, að þeir geti gert mjög mikið viðvíkjandi því að nota vélar á bændaskólanum, enda er ekki tími til þess fyrir þá. Þeir eru búnir að læra miklu meira heima hjá sér. Hitt má vel vera, að þeir geti lært eitthvað að gera við vélar, ef þeir hefðu þá góða tilsögn í því.

Þá stendur í 2. gr.: „Rekstri skólabúanna skal haga þannig, að nemendum sé til fyrirmyndar og lærdóms.“ Ég álít, að þetta sé nokkuð mikið sagt, að skylda skólana til að haga þessu þannig, því að það gætu verið vissar ástæður fyrir því, að þetta sé ekki hægt. En það er eftir því, hvernig skólastjórar og kennarar veljast að þessum skólum, hvernig þetta tekst. Það væri betra að orða þetta svolítið öðruvísi og hafa minni fullyrðingu í þessu og segja t.d.: Reynt skal að haga þessu þannig. Það færi betur á því, svo að það þyrfti ekki að þverbrjóta lögin.

Svo kemur 4. gr.: „Við hvern skóla um sig skal vera skólastjóri og eigi færri en 5 fastir kennarar, miðað við fullt skólastarf.“ Þetta er nokkuð mikið sagt, að skylda að hafa 5 kennara. Við skulum segja, að Hólar væru kannske skipaðir 30 nemendum og ómögulegt væri að fá kennara, því að við vitum, að það hefur gengið afleitlega að fá kennara til bændaskólanna. Ég held, að það v æri réttara, til þess að ráðh. þyrfti ekki að brjóta lög, að orða þetta þannig, að það væri heimilt að hafa allt að 5 kennurum, ef þörf gerðist, eða eitthvað svoleiðis, því að það er leiðinlegt að hafa lög, sem kannske er ómögulegt annað en þverbrjóta. Raunar liggja engar sektir, — ég sé það ekki í þessu frv., — við því að brjóta það, en það er bara vitleysa að vera að hafa lögin þannig, að það sé kannske óhjákvæmilegt að brjóta þau.

Þeir einir geta orðið kennarar við bændaskólana, sem lokið hafa kandidatsprófi í búfræði, eða þeir, sem hlotið hafa hliðstæða menntun eða meiri. Sé sérstakur kennari ráðinn til kennslu í almennum greinum, skal gera þar sömu menntunarkröfur og til kennara við skóla gagnfræðastigsins. Þessir 5 kennarar eiga sem sagt allir að vera háskólagengnir menn, kandídatar, og það er nú gott og blessað, ef mögulegt er að fá 5 kandídata til að kenna. En það hefur nú gengið fullilla. Það var hér um bil ómögulegt að fá kennara að Hólum í haust t.d.

Svo álít ég, að víðvíkjandi því að gera við vélar og kenna söng og svoleiðis, þá sé ekki brýn nauðsyn, að það sé búfræðikandidat, því að það getur verið hálærður búfræðikandídat, sem getur ekki rekið upp eitt einasta bofs. Og eins er viðvíkjandi viðgerð á vélum Hann getur verið dúr frá Kaupmannahafnarháskóla eða hvaða háskóla sem er í heiminum í búfræði og verið sá erkiklaufi, að hann geti ekki gert við nokkra vél, þannig að þetta ætti ekki að vera svona strangt. Það væri t.d. hægt að orða það á annan hátt en þetta, ekki „þeir einir“, heldur hafa þetta þannig, að þetta yrði gert í samráði við skólastjórann. Það þurfa að vera búfræðikandídatar til að kenna sum fögin, en ekki öll. Svo álít ég vera fullmikið að skylda algerlega til að hafa 5 fastakennara, sein eiga að vera búfræðikandídatar. Auk þess er gert ráð fyrir tímakennslu. En ég vil hafa þetta meira heimildarlög, vil ekki hafa það svona ákveðið, af því að ég vil ekki, að ráðh. brjóti lög. Ég álít, að það væri hægt að orða þessar greinar skynsamlegar.

Annars er óþarfi fyrir mig að vera að skipta mér af þessu. Ég býst ekki við, að það verði mikið gert með þetta. En ástæðan til þess, að ég fór að tala í þessu máli, var sú, að ég var raunar hálfhissa á því, að minn ágæti flokksbróðir og frsm. gat ekki bent á neinn punkt, ekkert annað en blessað búnaðarþingið. Satt að segja hef ég samúð með ráðh. þar, því að búnaðarþingið var ekkert of gott til að endurskoða frv., úr því að því var sent það. Og þetta er hálfgerð leti að geta ekki bent á eitthvað, sem mátti betur fara, fyrst ég gat gert það og lesið það yfir á tveimur mínútum. En mér finnst þetta engin afsökun.

Mér líkar það vel hjá hæstv. ráðh. að vera húsbóndi á sínu heimili og þola engan slóðaskap, og ef búnaðarþing gat ekki unnið í þessu máli, þá var ástæðulaust að vera að bíða eftir því, að því þóknaðist að gera það. Hann er yfirmaður allra búnaðarmála hér á landi og átti náttúrlega að skipa þeim að gera þetta eða rökstyðja, hvers vegna þeir vildu ekki gera þetta eða hvað þeim fyndist að. En það er ekki rétt að láta þetta bitna algerlega á frsm. okkar ágæta flokks, því að hann vitnaði bara í búnaðarþingið, og þá átti fyrst og fremst að skamma búnaðarþingið. Svo er nú alltaf þessi skemmtilegi tónn, þegar þeir tala, ég kemst þá alltaf í gott skap, — þm. þeirra Sunnl. Hann er svo frumlegur og vingjarnlegur og svo er húmor í þessu öllu. En það var bæði í þetta skipti og oftar, sem mér finnst hæstv. landbrh. vera bæði langorður og fullharðorður í garð minna ágætu flokksbræðra, þó að ég hafi ekki undan því að kvarta.

Fleira hef ég svo ekki að segja um þetta í bili.