12.02.1963
Neðri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

91. mál, siglingalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Á þskj. 254 liggur fyrir ein brtt. frá sjútvn. við frv. til l. um breyt. á siglingalögum, nr. 59 30. nóv. 1914. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 12. gr. 2. málsl. 4. mgr. í 2. tölulið (217. gr.) orðist þannig:

Nú ferst skip eða er dæmt ábætandi, og er þá vátryggingarsala óskylt að láta vátryggingarfé af höndum, fyrr en 14 dögum eftir að hann átti þess kost að afla þeirra upplýsinga, er þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðina og ákveða upphæð bótanna.“

Þessi brtt. er flutt samkv. ábendingu, sem fram kom frá Íslenzkri endurtryggingu um, að þetta ákvæði, eins og það er í frv., væri í ósamræmi við gildandi ákvæði í 1. um vátryggingarsamninga, og er þessi till. fram borin til þess að fyrirbyggja það misræmi.

Hv. dm. hafa sjálfsagt athugað frv. um ný siglingalög gaumgæfilega. Það liggur hér nú fyrir í þriðja skipti, og allir þeir aðilar, sem sjútvn. hefur sent frv. til umsagnar og athugunar, hafa eindregið mælt með því, að það yrði samþ. Einnig er vitað, að það er full þörf á, að þessi löggjöf sé færð í nútíma horf. Hins vegar er það svo, að það er býsna mikið verk að fara nákvæmlega yfir frv. og bera það saman við 1., vegna þess að frv, er þannig upp sett, að það er allt flutt sem breytingar við einstakar greinar og einstaka liði gildandi laga. En frv. felur í sér ákvæði um það, að ef þær breytingar, sem það fer fram á, ná fram að ganga, þá verði lögin í heild endurprentuð. Verður þessi lagabálkur þá allur mun aðgengilegri en nú er fyrir menn að átta sig á, og ef svo kynni að vera, að sjútvn. og öðrum, sem fjallað hafa um málið, hafi yfirsézt um einhver atriði, sem þyrfti að færa til betri vegar, þá mætti síðar meir sníða þá vankanta af, þegar búið er að endurprenta löggjöfina í heild. En ég vil fyrir mitt leyti, og ég held, að ég mæli þar einnig fyrir hönd sjútvn., leggja á það áherzlu, að það er orðið mjög aðkallandi og tímabært, að þetta frv. nái fram að ganga.