19.02.1963
Efri deild: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

91. mál, siglingalög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að fylgja þessu frv. með nokkrum orðum úr hlaði hér í þessari bv. d., þó að það sé ekki í þetta sinn flutt sem stjórnarfrv., heldur af sjútvn. hv. Nd.

Þetta frv. er búið að vera alllengi á döfinni og hefur virzt eiga erfitt uppdráttar, eins sjálfsagt og það þó er að mínum dómi. Það var árið 1948 eða fyrir 14 árum, að ég sem þáverandi samgmrh. skipaði n. til þess að endurskoða siglingalögin. Í þessa n. voru skipaðir þeir Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, Gunnar Þorsteinsson hrl., Guðbjartur Ólafsson hafnsögumaður og Sigurjón A. Ólafsson alþm., en Þórður Eyjólfsson var formaður n. Þessi n. hóf þá þegar störf sín, en komst fljótt að raun um, að þessi mál voru öll í athugun hjá Norðurlöndunum öllum og nefndir að verki til þess að endurskoða þeirra lög um sama efni. Það varð því að ráði, að okkar nefnd beið með sín störf, þar til Norðurlandanefndir hefðu lokið sínum störfum, sem varð þó ekki fyrr en fyrir nokkrum árum. Og það varð til þess, að frv. kom ekki fram fyrr en árið 1958 og þá flutt af sjútvn. Nd. og aftur 1960, en það varð ekki útrætt. Enn var það flutt á síðasta þingi sem stjórnarfrv., en varð ekki heldur þá útrætt. Nú hefur sjútvn. Nd. enn flutt málið og hefur bæði nú og áður athugað það mjög rækilega. Þetta er þó frv. komið lengst á veg nú, að það er komið í fyrsta skipti í þessa hv. deild.

Farmennska er þannig uppbyggður atvinnuvegur, að hann er að mörgu leyti alþjóðlegur, og þess vegna mjög æskilegt, að þær reglur, sem um hann gilda í hinum ýmsu löndum, séu í eins miklu samræmi og mögulegt er, þannig að sín reglan gildi ekki á hverjum stað. Og við það er einmitt þessi endurskoðun og þetta frv. miðað, að leitast við að samræma íslenzka lagasetningu hinni erlendu og þá sérstaklega Norðurlandalöggjöfinni. Okkar siglingalög eru að stofni til og eiginlega mikið til enn frá 1914, og í núgildandi lögum um þessi efni eru ýmis ákvæði, sem bæði vegna breyttra tíma þurfa endurskoðunar við og eins fara nokkuð á svig við hliðstæð ákvæði erlend.

Meginbreytingin, sem í þessu frv. felst, er um réttarstöðu skipshafnarinnar, um flutningasamninga, um ábyrgð útgerðarmanna og umsjóveð. Ákvæði um skipshöfn voru þó tekin út úr siglingalögunum 1930 og hafa verið í sérstökum lögum síðan, en ákvæðin um flutningasamningana, ábyrgð útgerðarmanna og sjóveðin er að finna í 6., 11. og 12. gr. þessa frv.

Endurskoðunin, sem fór fram á síðasta áratug aðallega má segja, á Norðurlöndunum varð bæði til þess að samræma þeirra landa lagasetningu alþjóðareglum, sem um þetta gilda, bæði í alþjóðasamþykktum, sem gerðar hafa verið, og eins til samræmis við aðalreglur annarra landa. Í þessu frv. hér hefur svo verið þrædd nokkuð Norðurlandalöggjöfin, eftir því sem við á, og efnisákvæði þess eru, eins og ég sagði, þessi 3 aðallega: flutningasamningar, ábyrgð útgerðarmanna og sjóveðin. En auk þess eru leiðréttingar á gömlu lögunum, sem eru vegna breyttra tíma, breyttra staðhátta, breyttrar skipagerðar og breyttrar utanríkisþjónustu, því að þegar lögin frá 1914 voru sett, voru utanríkismál okkar Íslendinga í höndum Dana, og ákvæðin um erlenda ræðismenn og viðskipti við þá voru öll miðuð við danskar aðstæður.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja einstök atriði í þessu máli. Þau eru svo ákaflega mörg og ýtarleg í frv. og öll tæknilegs eðlis. T.d. eru breytingarnar við 6. gr., sem eru aðalbreytingarnar, nokkuð á annað hundrað og mjög ýtarlegar, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að vera að rekja þær hér. En ég vil aðeins taka fram, að bæði hefur hv. sjútvn. Nd. athugað öll þessi atriði mjög ýtarlega, fengið um frv. umsagnir sérfróðra manna og þeirra aðila, að ég ætla flestra, sem málið snertir. Og að lokinni þessari athugun hefur málið nú verið afgr. samhljóða frá Nd. og með sáralítilli eða aðeins einni smávægilegri breytingu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins leyfa mér að mælast til þess, að sú n., sem fær frv. til athugunar, sem væntanlega verður hv. sjútvn., komi því áfram, svo að frv. geti orðið að lögum nú á þessu þingi, því að sannast sagna er ekki alveg vansalaust, að við höfum ekki enn getað komið þessu máli frá og gert þessi ákvæði að lögum, svo sjálfsögð eru þau, bæði til þess að leiðrétta ýmislegt, sem betur þarf að fara, úr fyrri lagasetningu, og eins koma þeim nýmælum á framfæri, sem í frv. eru.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.