25.02.1963
Neðri deild: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

90. mál, sjómannalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni samgmrn. af sjútvn., eins og fram var tekið við 1. umr., og hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Síðan málið var fyrst tekið fyrir, hefur n. yfirfarið frv. vandlega og orðið sammála um þær brtt., sem hv. þdm. hafa fyrir framan sig á þskj: 300, en einstakir nm. hafa þó sem fyrr óbundnar hendur gagnvart frekari brtt.

N. hefur áður við meðferð þessa sama frv. fengið umsagnir um það frá ýmsum aðilum. Hafa bæði Alþýðusamband Íslands og Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tjáð sig meðmælt frv., skólastjóri stýrimannaskólans hefur ekki séð ástæðu til þess að gera við það aths., eftir að hafa borið það undir kennara skólans í sjórétti. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur í umsögn sinni gert nokkrar aths. við frv., sem n. hefur þó að athuguðu máli ekki séð ástæðu til að taka til greina. Þá er þess að geta, að þegar frv. lá fyrir Alþingi 1961, barst þinginu áskorun frá verkamannafélaginu Þrótti í Siglufirði um að fella frv., þar sem í því fælist skerðing á réttindum verkamanna og sjómanna. Sjútvn. er sammála um, að þessi skoðun sé á algerum misskilningi byggð, því að frv. gengur tvímælalaust í gagnstæða átt. Það tryggir sjómönnum aukinn rétt, t.d. þegar veikindi eða slys ber að höndum.

Ég skal nú víkja nokkru nánar að einstökum gr. frv. og styðst þá við grg., sem ráðuneytisstjóri samgmrn., Brynjólfur Ingólfsson, hefur gert um þetta efni, og mun ég jafnframt gera grein fyrir brtt. n. við frv.

1. gr. frv. á við 2. gr. l. nr. 41 1930. Um ráðningarsamning skipstjóra eru nú í gildi þau ákvæði, að báðir aðilar geta sagt honum upp með þriggja mánaða fyrirvara, og sé ráðningu þá slitið í íslenzkri höfn, er skipið kemur til fermingar eða affermingar. Skipstjóri getur þó eftir 18 mánaða starfstíma sagt upp samningi sínum með þriggja mánaða fyrirvara til ráðningarslita í erlendri höfn, þar sem skipið kemur til fermingar eða affermingar. Í frv. er lagt til, að í báðum framangreindum tilfellum komi það nýmæli, að ráðningarslit geti ekki einungis farið fram þar, sem skipið kemur til fermingar eða affermingar, heldur einnig þar, sem skipið hættir siglingu. Mundi þetta geta skipt máli í vissum tilfellum, t.d. þegar skip kemur í höfn að lokinni ferð og ekkert er ákveðið, um, hvenær það hefur ferð að nýju, e.t.v. ekki fyrr en eftir nokkurn tíma.

2. gr. frv. svarar til 2. mgr. 4. gr. í l. nr. 41 1930. Samkv. 4. gr. gildandi sjómannalaga á skipstjóri rétt til þriggja mánaða launa, ef honum er vikið úr starfi sakir veikinda eða meiðsla, sem gera hann óhæfan til starfsins. Þetta gildir þó ekki, ef skipstjórinn á sjálfur sök á eða hefur leynt veikindum sínum eða meiðslum, er hann réðst á skipíð. Breyting sú, sem frv. felur í sér, hnígur að því að rýmka nokkuð síðari mgr. 4. gr., og er þar gert ráð fyrir, að skipstjóri missi því aðeins laun þá þrjá mánuði, sem um getur í 1. mgr., að hann hafi leynt veikindum sínum eða meiðslum með sviksamlegum hætti eða valdið sjúkdómi þeim eða meiðslum, sem eru orsök ráðningarslita, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Í grg. með frv. segir m.a.:

„Hin ströngu ákvæði núgildandi 2. mgr. 4. gr. geta reynzt ósanngjörn, sérstaklega ef meiðsli ber að höndum við skyldustörf. Sama er um það, ef skipstjóri hefur ekki skýrt frá sjúkdómi eða meiðslum, er hann réðst á skipið, ef slíkt yrði ekki talið sviksamlegt atferli af hans hálfu. Grunur einn mundi því yfirleitt ekki nægja til að svipta skipstjóra launum, og ekki heldur vitund um sjúkdóm eða meiðsli, sem skipstjóri hefur ástæðu til að álíta svo smávægileg, að þau mundu ekki hindra hann í starfi, þó að annað kunni að reynast síðar.“

Þá kem ég að 3. gr. frv., sem svarar til 7. gr. laganna. 3. gr. frv. er efnislega að mestu shlj. 7. gr. gildandi laga, en greinin orðuð um og bætt við einu atriði, því, að skipstjóri sé skyldur að ganga undir læknisskoðun, áður en hann byrjar störf á skipi. Þetta skilyrði er einnig lagt til að sett verði um skipverja almennt, sbr. 5. gr. frv., og er því ekki breytt frá þeirri stefnu 7. gr. l. nr. 41/1930, að sama gildi um skipstjóra og skipverja almennt, að því er að þeim málum lýtur, sem gr. fjallar um.

4. gr. frv. á við 9. gr. l. Samkv. 9. gr. gildandi laga ber skipstjóra að ráðgast við 1. vélstjóra um ráðningu starfsmanna við vélgæzlu og við 1. stýrimann um ráðningu háseta. Hér er einnig lagt til, að skipstjóri skuli ráðfæra sig við bryta um ráðningu aðstoðarmanna hans. Þá er í frv. lagt til, að felld verði niður eftirfarandi klausa úr núgildandi 9. gr. 1.:

„Skipstjóri má eigi ráða neinn mann á skip, er hann veit, að er ráðinn annars staðar.“

Mér virðist skýringin á niðurfellingu þessarar mgr. vera sú, að sá aðili, sem ræður sig á tveim stöðum, hljóti sjálfur að bera ábyrgð á því athæfi. Um fyrra atriðið varðandi brytann er þess getið, að það sé í samræmi við ákvæði annarra norrænna sjómannalaga.

5. gr. frv. á við 10. gr. l. nr. 41/1930. Samkv. 10. gr. núgildandi laga má ekki ráða börn yngri en 14 ára til vinnu á skipi, ekki kyndara eða kolamokara yngri en 18 ára eða hjálpardrengi við vélgæzlu yngri en 16 ára. Hér er, með skírskotun til laga um barnavernd, nr. 39/1947, lagt til, að fyrst nefnda markið verði hækkað í 15 ár, að því er til pilta tekur, en verði 18 ár fyrir stúlkur, þannig að óheimilt sé að ráða til starfa á skipi yngri drengi en 15 ára og yngri stúlkur en 18 ára. Þess er getið í grg., að aldursmark þetta, 18 ár varðandi konur, sé sama og í sænskum lögum, en í norsku sjómannalögunum sé aldursmark þetta 20 ár. Lagt er til, að aldursmarkið varðandi kyndara og kolamokara sé ábreytt, en um hjálpardrengi í vél verði það hækkað um eitt ár og verði 17 ár. Ekki er í grg. n., sem frv. samdi, gefin önnur skýring á því, hvers vegna aldurstakmarkið er lægra um kyndara og kolamokara en aðstoðardrengi í vél, en sú, að ákvæðið um aðstoðardrengina sé í samræmi við tilsvarandi ákvæði í dönsku sjómannalögunum. Þá er hér loks nýmæli, sem áður var vikið að í sambandi við 3. tölul. 3. gr. frv., að enginn skipverji megi hefja starf á skipi, nema hann hafi áður gengið undir læknisskoðun. Um þetta segir í grg.: „Eins og sambúð skipverja er háttað, verður að telja þetta nauðsynlega heilbrigðisráðstöfun, Í lögum eru nú engin almenn ákvæði um slíka skyldu, en sérákvæði, sem að þessu lúta, eru í 8. og 15. gr. berklavarnarlaga, nr. 66 frá 1939.“

Við 5. gr. frv. er 1. brtt. sjútvn. N. leggur til, á eftir 1. málsl. komi orðin: „nema um skólaskip sé að ræða.” Það vill segja, að n. telur, að það megi ráða yngri drengi en tiltekið er í gr. á skólaskip, og gengur þá út frá því að sjálfsögðu, að að öðru leyti sé lögleg áhöfn á slíkum skipum. En n. taldi nauðsynlegt að taka þetta fram, vegna þess að útgerð skólaskipa er nú tekin nokkuð að tíðkast.

Þá vík ég að 6. gr. frv., sem svarar til 12. gr. l. Þessi brtt. er sama eðlis og 1. gr. frv, um ráðningarslit skipstjóra. Samkv. þessari breytingu getur skipverji sagt upp skiprúmi, ekki aðeins í höfn, þar sem skip fermir eða affermir, heldur einnig þegar skip hættir siglingum.

7. gr. frv. svarar til 13. gr. l. Fyrri mgr. frvgr. er efnislega shlj. 13. gr. l. nr. 41/1930, nema bætt er við þriðja tilvikinu, þegar heimilt er að fara úr skiprúmi, þ.e.a.s. þegar skipið hættir siglingu. Vísast um þetta atriði til skýringa hér að framan við 1. og 6. gr. frv. Samkv. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir mikilli lengingu á uppsagnarfrestum á skiprúmssamningum. Nú er uppsagnarfrestur einn mánuður hjá stýrimönnum, vélstjórum og loftskeytamönnum ekki hjá brytum, eins og ranglega er sagt í grg. með frv. Hjá öðrum skipverjum er uppsagnarfrestur 7 dagar, nema á íslenzkum fiskiskipum einn dagur. í frv. er lagt til, að fresturinn verði hjá stýrimönnum, vélstjórum, loftskeytamönnum og brytum 3 mánuðir, hjá öðrum skipverjum einn mánuður, nema á íslenzkum fiskiskipum 7 dagar. Hér er um mikla lengingu að ræða á frestinum, og hefur nefnd sú, sem frv. samdi, skýrt breyt. þannig, að samkv. gildandi lögum sé um óvenjulega stutta uppsagnarfresti sjómanna að ræða, því að almennt má telja, að föstum starfssamningum verði aðeins sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara hið skemmsta. Þessir stuttu uppsagnarfrestir sjómannalaganna munu hafa verið settir með það fyrir augum, að útgerð skipa er að ýmsu leyti ótryggari en venjulegt er um annan atvinnurekstur. Búast má við, að oft verði með litlum eða engum fyrirvara að taka skip úr notkun, t.d. vegna viðgerðar, af því að ekki sé völ á nýjum flutningasamningum, fiskveiðar bregðist o.s.frv. Væri þá óheppilegt, ef útgerðarmaður væri bundinn við langa uppsagnarfresti. Einnig getur verið óhagkvæmt fyrir skipverja, sem ekki fellur dvöl á skipi, að vera bundinn þar um langan tíma. En þó að tillit sé tekið til þessara sjónarmiða, verður samt að telja, að uppsagnarfrestir l. séu óhæfilega stuttir. Er því lagt til, að frestir þessir verði lengdir svo sem í þessari gr. frv. segir.“

Ekki verður því neitað, að hér er um að ræða talsvert róttæka breytingu. En þó eru frestir þeir, sem gert er ráð fyrir í frv., að því er til óbreyttra skipverja tekur, ekki lengri en lögfest er um verkamenn og iðnaðarmenn, faglærða og ófaglærða, sem unnið hafa á vikukaupi í eitt ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda, sbr. lög nr. 16/1958, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

9. gr. frv. svarar til 16. gr. l. frá 1930. 16. gr. núgildandi laga fjallar um það, hve lengi skipverja er skylt að vinna störf sín, eftir að hann hefur rétt til að fara úr skiprúmi, ef þess er krafizt, en það er í tvo daga, eftir að skip kemur til hafnar, nema 4 daga, ef um seglskip er að ræða. N. leggur til, að þetta sérákvæði um seglskip verði fellt niður, og byggir það á því, að það ákvæði sé úrelt nú orðið.

10. gr. frv, svarar til 18. gr. l. nr. 41/1930. 18. gr. núgildandi laga fjallar um það, hvenær skipverji byrjar að taka kaup og hve lengi hann heldur því, svo og um viss atvik, sem valdið geta kaupmissi. Í 2. mgr. 18. gr. nú er sagt, að skipverji haldi kaupi til afskráningardags og að honum meðtöldum, enda hafi hann eigi áður misst rétt til kaups vegna sjúkleika eða af öðrum orsökum. Nánari reglur eru ekki um þetta settar í l., nema í 32. gr., þar sem heimilað er að víkja skipverja úr skiprúmi, ef hann er haldinn sjúkdómi, sem er hættulegur, eða hefur orðið fyrir veikindum eða slysum. Hins vegar er ekki að því vikið, hve lengi skipverji haldi launum, þrátt fyrir meiðsli eða veikindi, ef honum er ekki sagt upp. Í frv. er lagt til, að settar verði um þetta fastar reglur. Er fastráðinn skipverji forfallast vegna veikinda eða meiðsla, skal hann eiga rétt til launa í tvo mánuði, sé hann stýrimaður, vélstjóri, bryti eða loftskeytamaður, en ella einn mánuð, skipstjóri þó 3 mánuði, sbr. aths. við 2. gr. frv. Þó er lagt til, að kaup skuli aldrei greitt í slíkum forföllum lengri tíma en hlutaðeigandi hefur verið í þjónustu útgerðarinnar, er slysið verður eða veikindi byrja.

Í 3. mgr. 10. gr. frv., sem verður 4. mgr. 18. gr. l., eru tekin upp sams konar ákvæði um atvik, sem valda launamissi, og áður er frá greint varðandi skipstjóra, sbr. aths. við 2. gr. frv. Þessi mgr. er ný og virðist til bóta, því að ekki er rétt, að útgerðarmaður þurfi að greiða laun í slysa- og veikindaforföllum, ef hinn slasaði hefur valdið meiðslum sínum af stórfelldu gáleysi eða af ásetningi eða leynt með sviksamlegum hætti veikindameinbugum sínum, er hann réðst á skip.

Ég vil láta þess getið, að ein höfuðaths. Landssambands ísl. útvegsmanna við frv. er einmitt við 10. gr. þess, 2. málsgr., og segir svo í umsögn Landssambandsins um það atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er farið inn á þá braut að lengja þann tíma, sem skipverjar skulu taka laun hjá útgerðinni vegna veikinda eða slysa. Sýnist oss með öllu óverjandi, að hið háa Alþingi samþykki slík ákvæði. Eins og nú háttar, heldur skipstjóri launum í 3 mánuði, stýrimaður og vélstjóri í 1 mánuð og aðrir skipverjar í 7 daga. Samkv. l. um almannatryggingar greiðir Tryggingastofnun ríkisins skipverjum dagpeninga frá og með 8. degi, ef um slys er að ræða, en frá og með 11. degi, ef um veikindi er að ræða. Ef skipverji á hinn bóginn nýtur fastra launa hjá vinnuveitanda sínum, sem nemur meira en 1/3 af dagpeningum þeim, sem Tryggingastofnunin greiðir, ber honum engir dagpeningar, meðan hann fær þau laun. Af þessu sést, að með samþykkt þessarar gr. frv. yrði um það að ræða að velta útgjöldum, sem Tryggingastofnun ríkisins nú ber að greiða, yfir á útgerðina.“

Sjútvn. taldi ástæðu til vegna þessarar aths. að bera þetta atriði undir Tryggingastofnun ríkisins, og með bréfi, dags. 12. febr. 1962, hefur Tryggingastofnunin látið n. í té svo hljóðandi umsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi, dags. 9. þ.m., hefur sjútvn. Nd. óskað umsagnax um 10. gr. frv. til l. um breyt. á sjómannal., en þar er gert ráð fyrir, að réttur skipverja til kaups vegna sjúkdóms og meiðsla verði lengdur frá því, sem nú er, og er sérstaklega skýrt frá umsögn L.Í.Ú., þar sem segir, að með samþykkt greinarinnar sé verið að velta útgjöldum, sem Tryggingastofnun ríkisins nú beri að greiða, yfir á útgerðina. Það er rétt, að með auknum rétti launþega í einstökum starfsgreinum til kaups í veikinda og slysatilfellum getur dregið úr dagpeningagreiðslu slysatryggingar eða sjúkrasamlags, þótt ekki þurfi það ætíð svo að vera, t.d. ekki þegar um svo langvinn veikindi er að ræða, að hámarksdagpeningar eru greiddir hvort sem er. Um hitt atriðið, að verið sé að velta yfir á útgerðina útgjöldum, sem Tryggingastofnuninni beri að greiða, er það að segja, að slysatryggingu sjómanna greiða útvegsmenn hvort sem er einir með iðgjöldum sínum, og ef útgjöld vegna slysa lækka, kemur það útvegsmönnum til góða, þegar til lengdar lætur, í lægri iðgjaldagreiðslum. Um sjúkratryggingar gegnir nokkuð öðru máli. Segja má, að ef kostnaður vegna sjúkradagpeninga til sjómanna lækkar, komi það fram í lækkuðum iðgjöldum allra samlagsmanna og lækkuðum framlögum ríkissjóðs og sveitarfélaga. Hins vegar hafa flestar aðrar stéttir einnig fengið aukin kaupréttindi í slysa- og veikindatilfellum á undanförnum áratugum, og verður ekkert um það fullyrt, hvaða stétt þar hefur sparað sjúkrasamlögum mest útgjöld. Það verður því ekki séð, að ívitnuð viðbára L.Í.Ú. gefi tilefni til breytingar á frv.“

Eftir að sjútvn. hafði fengið þessa umsögn Tryggingastofnunar ríkisins um aths. L.Í.Ú., taldi n. ekki ástæðu til að taka aths. til greina.

Vík ég þá að 11. gr. frv., sem á við 19. gr. l. frá 1930. Samkv. 2. mgr. 19. gr. l. nr. 41/1930 getur skipverji á siglingu erlendis krafizt greiðslu í þeirri mynt, sem gjaldgeng er á greiðslustað, með því gengi, er bankar þar þá greiða fyrir mynt þá, sem kaupið er talið í í samningum. í frv. er lagt til, að í stað þessa ákvæðis komi: „Um rétt til greiðslu í erlendri mynt fer eftir því, sem landslög ákveða á hverjum tíma.“ Telur n., að núgildandi ákvæði 2. mgr. fái ekki staðizt, eins og gjaldeyrismálum nú er háttað hér á landi.

12. gr. frv. á við 23. gr. l. nr. 41/1930. Í 23. gr. gildandi laga eru ákvæði um það, að ef skipverjum fækkar; á meðan á ferð stendur, skuli það kaup, sem við það sparast, skiptast á milli þeirra, sem eftir eru, í hlutfalli við aukna vinnu þeirra, enda hafi þeir ekki fengið hana greidda. Í frv. n. er lagt til, að viðbót komi við greinina, og er efni hennar það, að ef stýrimönnum fækkar, meðan ferð stendur yfir, skuli það kaup, sem útgerðinni þá sparast, skiptast jafnt milli skipstjóra og stýrimanns eða stýrimanna. Með þessu er sú eina breyting gerð, að skipstjóri fær sama rétt til viðbótarlauna vegna aukinnar vinnu eins og aðrir skipverjar nú hafa. Sjútvn. er sammála um þessa viðbót við 12, gr. l. að því er varðar skipstjóra, en leggur til, að 12. gr. 1. verði öll umorðuð, eins og segir í brtt. okkar nr. 2 á þskj. 300.

13. gr. frv. á við 28. gr. l. nr. 41 frá 1930. 28. gr. l. er um það, hvenær og hve lengi útgerðarmanni sé skylt að annast skipverja í veikindum. N. leggur til, að hér verði skotið inn sams konar ákvæði og um getur hér að framan varðandi þau atvik, sem firrt geta útvegsmenn skyldu til kaupgreiðslu í slysa- eða veikindaforföllum skipverja, þ.e. ef hann hefur sjálfur bakað sér þessa meinbugi af ásetningi eða með stórfelldu gáleysi eða leynt þeim sviksamlega, er hann réðst á skipið. Hér mundu þessar sömu ástæður valda því, að útgerðarmanni væri ekki skylt að annast kostnaðinn vegna veikindanna.

14. gr. frv. á við 29. gr. l. Núgildandi 29. gr. er um skyldu skipstjóra til að sjá um útför og ráðstafa eignum skipverja, sem deyr fjarri heimkynnum sínum. Breytingin, sem frv. felur í sér, er fyrst og fremst sú, að skipstjóra er gert skylt að tilkynna vandamönnum látið og enn fremur að senda öskuna heim, ef hinn látni er brenndur. Orðalagið „tilkynna eftirlifandi maka, ef til er“ er klaufalegt. N. leggur til, að það verði lagfært með því að fella niður orðið „eftirlifandi“, sbr. brtt. okkar um þetta atriði á þskj. 300.

15. gr. frv. á við 1. mgr. 30. gr. l. frá 1930. Hér er aðeins um að ræða orðalagsbreytingar, sem ekki þarfnast skýringa. Þó er, eins og í næstu grein á undan, bætt við, að skylda útgerðarmannsins til að kosta greftrun hins látna nái einnig til líkbrennslu, ef sá háttur er hafður á.

16. gr. frv. á við 32. gr. l. 32. gr. núgildandi l. er um rétt skipstjóra til að segja skipverja upp skiprúmi, ef hann hefur um lengri tíma, — í frv. „um stundarsakir“, sem gefur skipstjóra nokkru rýmri hendur, — verið óvinnufær sakir veikinda eða slysa eða er haldinn sjúkdómi, sem er hættulegur fyrir aðra menn á skipinu. Breytingin, sem frv. felur í sér, er aðallega sú, að í 32. gr. er nú talið upp, hvernig fari um laun skipverja, ef honum er þannig sagt upp, en í frv. er aðeins vísað til hinna almennu ákvæða í 18. gr. 1., eins og gert er ráð fyrir að henni verði breytt og áður hefur verið skýrt í sambandi við 10. gr. frv.

17. gr. frv. er viðbót við 33. gr. l. 41/1930. 33. gr. l. fjallar um önnur þau atvik, sem gefa skipstjóra rétt til að víkja skipverja úr skiprúmi, en þau eru í aðalatriðum: 1) Óhæfni til starfa. 2) Óstundvísi. 3) Óhlýðni. 4) Refsivert athæfi. 5) Ef hann ber ágreining, er rís um starf hans á skipinu, undir erlend stjórnvöld. Er þá hin almenna regla, að skipverji, sem sagt var upp samkv. heimild 33. gr., á ekki rétt til kaups. Viðbótin, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að ef óstundvísi skipverja, sem kemur of seint til skips, er til komin vegna veikinda hans eða meiðsla, skal hann eiga rétt til kaups samkv, hinum almennu reglum 18. gr. 1., sbr. 10. gr. frv.

18. gr. frv. á við 37. gr. laganna. 37. gr. l. nr. 41/1930 fjallar um það, að skipverji, sem ráðinn er til ákveðinnar ferðar, eigi rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi, ef ferðinni er breytt til muna. Eins og greinin er nú, á skipverji þá rétt til kaups, ferðakostnaðar og fæðispeninga til ráðningarstaðar eða þess staðar, er ráðningu skyldi slitið. Í frv. er gert ráð fyrir, að kaupgreiðslan verði ekki bundin við heimferðina, heldur einn mánuð hjá stýrimönnum, loftskeytamönnum, vélstjórum og brytum og hálfan mánuð hjá öðrum skipverjum, nema eina viku hjá skipverjum á íslenzkum fiskiskipum. Ef skipverja er vikið úr skiprúmi, án þess að heimilt sé samkv. 32. eða 33. gr. 1., á hann rétt til kaups í nokkru lengri tíma en hér er gert ráð fyrir, eða 3 mánuði tilgreindir 4 starfshópar, almennir skipverjar einn mánuð, nema eina viku á fiskiskipum. Er ekki talið sanngjarnt annað en að skipverjar fái a.m.k. hluta af þessum fresti reiknaðan, ef þeir verða að fara úr skiprúmi af þeim ástæðum, sem um getur í 37. gr., og þeir fá engu um ráðið. Í grg. er upplýst, að þessi breyting sé í samræmi við gildandi ákvæði annarra norrænna sjómannalaga um bætur til handa skipverjum, þegar þannig stendur á.

19. gr. frv. (40. gr. l. 41/1930). 40. gr. l. 41/1930 fjallar um það, að skipverjar geti krafizt lausnar úr skiprúmi, ef skip missir rétt til að sigla undir íslenzkum fána, og hvernig fari þá um kaup þeirra. Fái þeir þá ferðakostnað og kaup fyrir tíma, sem nemur uppsagnarfresti. Þá er tekið fram í 2. mgr. gr., að þetta heimili ekki skipverja að krefjast lausnar úr skiprúmi, þótt skipstjóraskipti verði eða skipti verði á útgerðarmanni. Í frv. er lagt til, að þessi síðustu orð falli niður, og er það skýrt svo í grg., að rétt verði að teljast, að um þetta fari eftir almennum reglum um aðilaskipti að starfssamningum.

20. gr. frv. (2. mgr. 41. gr. l. 41/1930). Grein þessi fjallar um það, hvernig fer, ef skip ferst eða er dæmt óbætanlegt vegna sjótjóns. Samkvæmt 2. mgr. greiðir ríkissjóður ferðakostnað skipverja, sem þannig missa skiprúm, til heimalandsins, ef atvikin ber að erlendis. Einnig á skipverji rétt til launa vissan tíma: tvo mánuði, sé um stýrimann, vélstjóra eða loftskeytamann að ræða, en aðrir skipverjar einn mánuð. Taki ferðin lengri tíma en að framan getur, fær skipverji ekki laun fyrir þann tíma. Í frv. er í fyrsta lagi lagt til, að brytar bætist við í hóp þeirra, sem fá laun í tvo mánuði, og þar að auki komi inn ákvæði þess efnis, að kaup greiðist þó aldrei skemmri tíma en heimferðin tekur. Er því hér um að ræða rýmkun á rétti sjómanna.

21. gr. frv. fjallar um þá breytingu á greinatölu og tilvitnunum í gr., sem til kemur vegna greinar, sem bætt var inn í lög nr. 41 1930 með l. nr. 36 1941. Er þetta sjálfsagt og til þæginda, ef til heildarútgáfu laganna kemur, sbr. 43. gr. frv.

22. gr. frv. (54. gr. l. 41/1930). Í þessari gr. frv. eru ákvæði um ráðstafanir á munum, sem skipverji skilur eftir í skipi við ráðningarslit, án tillits til þess, af hvaða ástæðum hann fer úr skipi, en í núgildandi lögum ræðir aðeins um muni, sem skipverji, er strokið hefur úr skipi, skilur þar eftir. Sá munur er þó gerður hér, að hafi skipverji strokið, er heimilt að selja munina þegar í stað til lúkningar kröfum á hendur honum, sem útgerðarmaður eða ríkissjóður hefur eignazt vegna dvalar hans í skipi, en ella er sala ekki heimil fyrr en tvö ár eru liðin frá brottför skipverja, nema geymsla munanna sé sérstökum vandkvæðum bundin.

Þá vík ég næst að 24. gr. frv., sem svarar til 65. gr. l. 41/1930. Hér er sú breyting á gerð, að ekki skuli lengur skipta máli, ef skipstjóri vill beita refsivaldi sínu samkv. IV. kafla laganna og kveður til prófvotta, hvort sá, sem próf skal halda yfir, er yfir- eða undirmaður á skipinu. Í báðum tilfellum skuli prófvottar vera annar úr hópi yfirmanna, en hinn úr hópi undirmanna á skipinu. í gildandi lögum er ákveðið, að ef sá, sem yfirheyra á, er yfirmaður, skuli hafa báða prófvottana úr hópi yfirmanna, ef unnt er. Breyting þessi er rökstudd með því, að yfirsjónir yfirmanna kunni oft að varða tiltekna skipverja eða skipshöfnina í heild og því rétt, að fulltrúi undirmanna fái einnig að fylgjast með prófunum.

25.–44. gr. frv. varða allar almenn atriði og beinast að því að færa ákvæði l. nr. 41 1930 til samræmis við breytta stjórnskipun landsins og breyttar réttarfarsreglur og refsilög. Að öðru leyti þarfnast þessar greinar ekki skýringar. En ég vil þó taka fram, að sjútvn. flytur brtt. við 44. gr., sbr. þskj. 300, sem er á þessa leið:

„Framan við gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Ákvæði laga þessara um réttindi skipverja skulu í engu skerða rýmri rétt þeirra samkv. kjarasamningum.“

Með þessu ákvæði vill n. undirstrika, að að því er snertir réttindi skipverja samkv. l. sé eingöngu um að ræða lágmarksákvæði, og þar með á að vera girt fyrir sams konar misskilning í því efni sem fram kom í samþykkt verkalýðsfélagsins Þróttar á Siglufirði, sem ég gat um hér áðan.

Í 43. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ef frv. nái fram að ganga, skuli fella áorðnar breytingar á l. nr. 41 1930 inn í lögin, og gefa þau út svo breytt. Virðist þetta nauðsynlegt, þar sem hér er um að ræða lög, sem varða dagleg störf mikils fjölda manna og áríðandi er að til séu sérprentuð í sem aðgengilegustu formi fyrir almenning.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að mæla með því fyrir hönd sjútvn., að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem n. leggur til.