28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

90. mál, sjómannalög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get haft um þetta frv. nokkuð svipaðan formála og ég hafði um siglingalögin, þegar þau voru lögð fyrir þessa hv. d. nú fyrir skömmu, að strangt tekið bæri mér kannske ekki að mæla fyrir því hér, þar sem það er flutt af hv. sjútvn. Nd. En við það vil ég þó bæta því, að bæði hefur n. flutt frv. að minni ósk og eins hef ég áður verið flm. að því, þegar frv. hefur komið hér fram á fyrri þingum.

Sjómannalögin voru skilin frá siglingalögunum 1930 í samræmi við Norðurlandalöggjöf um þetta efni. Endurskoðun hefur svo farið fram á þeim í sambandi við endurskoðun siglingalaganna og hefur fylgzt með þeim lögum bæði nú og áður. En eins og ég gat um, þegar siglingalögin voru hér til umr., þá hafa þau verið flutt áður á þrem þingum og verið í undirbúningi nú um allmörg ár, þannig að æskilegt væri nú að geta komið þeim frá. Ég held, að meginbreytingarnar í þessum sjómannalögum séu ekki stærri en svo, að þær geti flestar heimfært undir lagfæringar, og þó þannig, að leitazt hefur verið við með þessum breytingum að reyna að samræma sjómannalögin alveg eins og siglingalögin við hliðstæða löggjöf Norðurlandaþjóðanna, sem aftur hefur verið samin og endurskoðuð með hliðsjón af bæði alþjóðasamþykktum um þessi efni og gildandi lögum í öðrum löndum.

Hv. sjútvn. Nd. hefur haft þetta mál alveg eins og siglingalögin til athugunar á þrem þingum, sent það til umsagnar flestra þeirra aðila, sem til greina geta komið að athuga lagabálk eins og þennan, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það bæri að samþykkja frv. með örlitlum breytingum, sem n. gerði við það og samþ. voru í hv. Nd. og eru prentaðar á þskj. 316. Ég sé ekki ástæðu til að fara hér að rekja þessar breytingar, sem gert er ráð fyrir í frv. Þær eru margar að tölunni til, en flestar smávægilegar. !

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til hv. sjútvn.