05.04.1963
Efri deild: 68. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

90. mál, sjómannalög

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur tvisvar áður verið lagt fyrir Alþingi án þess að ná fram að ganga. Að þessu sinni er það flutt af sjútvn. Nd., sem gerði á því smávægilegar breytingar, eftir að n. hafði leitað umsagnar um málið frá ýmsum aðilum.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft mál þetta til athugunar og kynnt sér efni þess eftir föngum. Aðdragandi frv. er, eins og fram kemur í grg., orðinn alllangur. Árið 1948 fól þáv. samgmrh., Emil Jónsson, nefnd manna að endurskoða bæði sjómanna- og siglingalögin. Þegar n. hóf starf sitt og leitaði umsagna um siglingalöggjöf ýmissa erlendra þjóða, m.a. á Norðurlöndum, kom í ljós, að þá voru starfandi n. á öllum hinum Norðurlöndunum til þess að endurskoða tiltekin atriði í siglinga og sjómannalöggjöf þessara þjóða. Með hliðsjón af því mun íslenzka n. hafa talið rétt að fresta afgreiðslu málsins um sinn, en fylgjast hins vegar með framvindu þessara mála á hinum Norðurlöndunum. Eftir að víðtæk endurskoðun hafði átt sér stað á sjómannalögum hinna Norðurlandanna, hafa þau öll sett ný sjómannalög, Danir og Svíar 1952 og Norðmenn 1953. Samkv. upplýsingum íslenzku n. höfðu þessar þjóðir allar með sér samstarf og samráð um þær breytingar, sem gerðar voru á eldri sjómannalögum þeirra.

Hér á landi hefur lengst af verið sama löggjöfin, sem náð hefur yfir hvort tveggja, sjómanna- og siglingalög. Það er fyrst 1930, sem þetta er aðskilið með sérstökum lögum, og var þá fylgt fordæmi hinna Norðurlandanna, sem þá höfðu nokkru fyrr, eða 1922–23, komið þeirri skipan á hjá sér.

Í grg. fyrir frv. segir m.a., að ekki séu gerðar neinar veigamiklar breytingar á réttarstöðu skipshafna, hér sé fremur um að ræða lagfæringar, ýmist til að nema burt úrelt ákvæði og setja önnur viðeigandi í staðinn eða til að feila fyrirmæli laganna betur að reglum almennrar atvinnulöggjafar. Það mun álit flestra, að rétt sé og æskilegt, að sem mest samræmi sé í siglinga- og sjómannalögum allra Norðurlandanna. Og með þessu frv. telur n., að stefnt sé að því, að slíkt samræmi rofni ekki. Þó er það svo, að í nokkrum atriðum hefur n. sýnzt réttara að víkja frá ákvæðum annarra sjómannalaga, þar sem það hefur sýnt sig, að það þótti betur við eiga með tilliti til íslenzkra atvinnuhátta og sérstöðu.

Ég sé ekki ástæðu, til að ræða ýtarlega einstök atriði frv. Málið ætti og að vera þm. allkunnugt, þar sem það hefur verið svo langan tíma í meðförum þingsins.

Sjútvn. Nd. sendi frv. til umsagnar ýmsum þeim aðilum, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta. Að fenginni umsögn þeirra og með hliðsjón af þeim ábendingum, sem þar komu fram, flutti n. síðan nokkrar brtt. við frv., og er þær að finna á þskj. 300. Voru þær samþykktar í Nd., en að öðru leyti er frv. óbreytt frá því, sem það var lagt fram.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 530 mælir sjútvn. með samþykkt frv. Ég tel óþarft að fara ýtarlega út í einstaka liði þess, en vil aðeins drepa á það helzta, sem ég tel mestu máli skipta.

Þá er það fyrst 4. gr. Í 2. gr. núgildandi l. er mælt, að skipstjóri skuli ráðgast við yfirvélstjóra um ráðningu manna, sem vinna við vélgæzluna. Er það látið haldast, en því nú bætt við, að skipstjóri skuli einnig ráðgast við bryta um ráðningu aðstoðarmanna hans og fyrsta stýrimann um ráðningu annarra skipverja. Er þessi breyting í samræmi við ákvæði annarra norrænna sjómannalaga.

Í 7. gr. er um allverulega breytingu að ræða hvað uppsagnarfrest snertir á skiprúmssamningum. Samkv. núgildandi lögum er uppsagnarfrestur hjá stýrimönnum, vélstjórum og loftskeytamönnum einn mánuður og hjá öðrum skipverjum 7 dagar, nema á íslenzkum fiskiskipum aðeins einn sólarhringur. Í þessu frv. er sú breyting, að uppsagnarfresturinn hjá stýrimanni, vélstjóra, bryta og loftskeytamanni skal vera 3 mánuðir, en einn mánuður á öðrum skiprúmssamningum, nema á íslenzkum fiskiskipum sjö dagar. Segja má, að uppsagnarfresturinn á skipaflotanum hafi verið of stuttur og þá sérstaklega á fiskiskipaflotanum, þar sem fyrirvarinn var aðeins einn sólarhringur, og tel ég, að sú breyting, sem hér er, þótt ekki sé meiri, sé til mikilla bóta.

10. gr. frv. felur í sér nokkrar breytingar á 18. gr. l. Er það aðallega varðandi sjúkleika eða meiðsli skipverja. Er í sumum tilfellum verulega aukin byrði útgerðarinnar með auknum greiðslum í þessu sambandi, og stafar af því, að bótatíminn verður nú lengdur.

Ýmsar smærri breytingar á sjómannalögun. um felur þetta frv. í sér. Má glöggt sjá, hvert efni þeirra er, í skýringum og grg., sem frv. fylgja. Eru þær flestar, eins og ég áður hef sagt, í því fólgnar að koma á lagfæringum, ýmist til að nema í burtu úrelt ákvæði og setja önnur, sem við eiga, í staðinn eða til að fella fyrirmæli laganna betur að reglum almennrar atvinnulöggjafar og samræma í heild íslenzk sjómannalög við hliðstæð lög annarra nágrannaþjóða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en mæli með því, að það verði samþ. og því vísað til 3. umr.