07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ágæt uppástunga, að hv. landbn. taki þetta mál til betri athugunar. Það var ekki svo vel athugað hjá henni, nema minni hl., áður en þetta kom hingað í d. til okkar, þannig að ég held, að það væri full þörf á því, að það væru höfð öll þau afbrigði frá þingsköpum, sem annars hafa tíðkazt hér, að stöðvuð væri 3. umr. og máli vísað aftur til n., vegna þess að það væri full þörf á því, að n. ynni sitt verk dálítið betur.

Ég er samþykkur þeim hluta af till. hæstv. dómsmrh., að þessu máli sé vísað aftur til n. En ég er ekki samþykkur hinu, að það sé farið að skella saman þeim öðrum málum, sem hér liggja fyrir um sölu þjóðjarða eða annarra jarða, sem eru ekki í einstaklingseign. Ég álit, að það sé ekki rétt og það sé rétt að fara með hvert af þessum málum alveg út af fyrir sig, vegna þess að hér er um að ýmsu leyti mjög ólíkt að ræða.

Það er þá í fyrsta lagi í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að taka kristfjárjörð úr eign — ja, Jesú Krists, skulum við segja, og afhenda einstökum mönnum og rifta gjafabréfi frá 1838 samkv. því. Það var nú svo, að það hafa verið gerð mörg góð gjafabréf í sambandi við jarðir hér á Íslandi, og það hafa legið fyrir áður lagafyrirmæli hér á Alþingi um að rifta slíkum gjafabréfum. Ég man sérstaklega eftir því gjafabréfi, sem Helgi, er var bóndi í Þykkvabæ, hafði gert 1913, þar sem hann gaf jörð sína hreppnum og mælti svo fyrir, að hans afkomendur skyldu fá að búa á jörðinni. En það mátti ekki veðsetja hana. Það var mjög skynsamlegt ákvæði, sem betur hefði verið að hefði gilt um allar jarðir á Íslandi, að það mætti ekki veðsetja þær, því að ástandið, sem nú er að skapast með þeim kapítalísku framleiðsluháttum á Íslandi, er að fara að verða nokkurn veginn ómögulegt fyrir börn bændanna, sem á jörðunum búa, að taka við þeim, a.m.k. ef það eru fleiri en eitt barn, þannig að einstaklingsjarðeignarrétturinn á Íslandi er nú að verða fjötur um fót fyrir íslenzka bændur til þess að geta unnið á sínum jörðum og framleitt sínar landbúnaðarafurðir. Það var gerð að vísu ofur lítil tilraun til þess að bæta úr þessum vandkvæðum með ættaróðalslögunum, en heppnast auðsjáanlega ekki, og þess vegna er verið að gera þær breytingar á þeim, sem gerðar hafa verið, af því að sjálfur þessi einstaklingseignarréttur, eftir að brask er komið til í þjóðfélaginu, veðbönd, háir vextir og annað slíkt, samrýmist ekki þörfum landbúnaðarins á Íslandi. Það er annað mál. Hér er um að ræða, hvort eigi að halda í heiðri því, sem vitrir forfeður og góðgjarnir hafa áður ákveðið. Ég mótmælti því hér, þegar gjafabréfi Helga í Þykkvabæ frá 1913 var breytt með lögum frá Alþingi, til þess að hægt væri að veðsetja jörðina, sem getur náttúrlega alltaf þýtt, að afkomendur þess bónda missi jörðina seinna meir. Og nú er verið að gera ráðstafanir til þess að taka eina af kristfjárjörðunum.

Það var, eins og kannske margir þm. muna, gerð tilraun til þess að gera þetta svo að segja í heildsölu hér um árið. Það lá fyrir stórt lagafrv., þar sem ákveðið var að gefa heimild til þess að taka allar þær jarðir, sem verið höfðu kristfjárjarðir, og fleiri slíkar opinberar jarðir á einn eða annan máta, jarðir, sem ekki voru einstaklingseign, - taka þær úr eigu þeirra, sem hefðu átt þær, og þá fylgdi með listi yfir allar þessar jarðir. Það lagafrv. fór ekki í gegn. En meginið af öllum þessum jörðum var úr kaþólskum sið, og það hafði þegar haldizt í fimm aldir og lengur að virða vilja þessara gefenda. Þetta hafði allt saman verið gefið til þess, að vextirnir af þessum jörðum eða jarðrentan af þeim eða afgjaldið eða annað slíkt rynni í einhvern góðan tilgang, til þess að hjálpa ekkjum, munaðarlausum eða öðrum, sem fátækir voru, og í fimm aldir höfðu menn virt þessi gömlu fyrirmæli úr kaþólskum sið. Og nú meira að segja vill svo einkennilega til, að líka í lúterskum sið er einn prestur og prófastur, sem 1838 gefur sína jörð í þeim tilgangi að styrkja munaðarlaus börn í Skagafjarðarsýslu og mælir svo fyrir, að þannig skuli vera. Ég vil spyrja þá menn, sem hér varðveita sérstaklega eignarréttinn og vilja alveg sérstaklega mæla með því, að hann sé virtur, og eru ósparir á að vitna í stjórnarskrána, þegar mönnum þykir gengið á rétt einstakra auðmanna eða slíkra: Hvaða ástæða er til þess að ganga á rétt — í þessu tilfelli skulum við segja þeirrar góðu persónu Jesú Krists og annarra þeirra, sem eiga að njóta þessarar gjafar, sem svona er gefin? Hvaða ástæða er til þess? Hvaða ástæða er til þess að svipta þessa jörð eða afgjaldið af henni því að vera eign munaðarlausra barna í framtíðinni? Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess. Og ég sé ekki, hvað þessi græðgi öll á að gera. Mér finnst nóg um hana í þjóðfélaginu, þó að þetta sé látið standa. Það er ekki svo margt, sem við höfum af gömlum og góðum venjum í þessum efnum á Íslandi, og það er verið að brjóta nógu mikið niður, líka af þeim áþreifanlegu, efnislegu verðmætum, sem við höfum geymt frá fornum tímum, og það eru fáar þjóðir duglegri við það að eyðileggja slíkt en við Íslendingar núna, þrátt fyrir allt tal um handritin. Mér finnst, að við megum halda svona hluti í heiðri.

Ég sé, að stjórn þessa legats er í sínum rökstuðningi fyrir þessu frv. að reyna að færa nokkur rök fyrir því, að það sé eðlilegt að gera þetta, og þó stangast þessi rök. Annars vegar er sagt að tilganginum með gjafabréfinu sé fullnægt með því að láta vexti af peningunum koma í staðinn fyrir jarðarafgjaldið. Kæmu þá vextir af sparifjáreign í stað jarðarafgjalds áður. Mér finnst þurfa meira en litla bíræfni til af nokkrum manni eftir hálfrar aldar reynslu af verðbólgu á Íslandi að segja, að vextir af sparifé komi í stað jarðarafgjalds. Ég veit ekki betur en þeir menn, sem mest trúðu á, hvað peningaeign og sparifjáreign og vextir af henni væri stöðugur auður, og menn, sem beittu sér mest fyrir söfnunarsjóðum og öðru slíku, eins og Eiríkur Briem sællar minningar, ef þeir væru risnir upp úr gröf sinni nú, mundu þeir ekki endurtaka slíkt með þeirri reynslu, sem við blasir. Hvers virði hefur sparifé verið og vextirnir af því í samanburði við raunveruleg efnisleg verðmæti? Það er ekki til neins að koma með svona hluti. Það er blekking að leggja þetta að jöfnu, enda er eins og þeir ranki nú við sér, þessir menn í stjórn legatsins, þeir segja í næstu setningu á eftir: Hins vegar verður því tæplega neitað, að forsendur fyrir ákvæðum gjafabréfsins eru að miklu leyti fallnar úr gildi fyrir núgildandi tryggingalöggjöf. — Þetta er alls ekki rétt. Núgildandi tryggingalöggjöf hefur alls ekki afnumið það, það eru enn þá til fátækir menn á Íslandi, það eru enn þá til munaðarlaus börn á Íslandi. Það eru ekki slíkir styrkir, sem veittir eru, þótt margt gott hafi verið gert á undanförnum áratugum í tryggingalöggjöfinni, að það sé ekki nóg pláss enn þá til þess að hjálpa munaðarlausum börnum og öðrum þeim, sem bágt eiga á Íslandi, þannig að það er ekki búið, því miður, liggur mér við að segja, með okkar tryggingalöggjöf að útrýma því, að þörf sé fyrir slíkt. Og meðan a.m.k. fátækt er til og meðan til eru þeir, sem eiga um sárt að binda af ástæðum, sem reynt er einmitt að bæta úr í sambandi við þetta gjafabréf, þá á að láta; þessa hluti haldast. Við eigum ekki að vera svona gráðugri í að rifa endilega niður allt, sem er gamalt og sérkennilegt á Íslandi.

Efnahagslega séð, menn vilja nú gjarnan ræða öll mál út frá því sjónarmiði, þá vil ég aðeins segja það, að þarna er um að ræða allstóra jörð, og ég þekki hana ekki nákvæmlega, í Hegranesi í Skagafirði. Það eru 125 ár síðan þetta gjafabréf var gert, og átti að standa, að því er gefandinn hugsaði sér, til eilífðarnóns eða a.m.k. á meðan þörf væri fyrir þá hluti, sem þarna er um að ræða, og nokkur væri til, sem vildi taka við þeim vöxtum. Þessi jörð er verðmæti, — verðmæti, sem hægt er að deila um kannske, hve mikils virði sé í dag, en getur orðið stórkostlegt verðmæti í framtíðinni. Við skulum bara lita 125 ár fram tímann, — það er fyrir 125 árum, sem þetta var gefið, — þegar Íslendingar verða orðnir milljónaþjóð, þegar Skagafjörðurinn er kannske álíka þéttbýli og Gullbringu- og Kjósarsýsla núna. Hvers virði, haldið þið, að Hegranesið væri þá eða stór jörð í því? Hvaða leyfi höfum við í dag til þess að ráðstafa þessu, sem búið er að standa óhaggað í 125 ár? Ef menn væru að gera hér einhverja þjóðfélagsbyltingu, þar sem væri verið að bylta öllum eignarrétti og öllu slíku, þá væri kannske ekki að slíku spurt. En á meðan við ætlum að standa á grundvelli þessarar stjórnarskrár, eigum við ekki að gera svona hluti. Við eigum að hafa eitthvert „prinsip“ í þessum málum. Ef menn vilja afnema allan eignarrétt á jörð, þá er það annað mál. En á meðan við förum eftir þeirri stjórnarskrá, sem nú er, eigum við ekki að gera þetta. Því má þetta ekki fá að standa svona? Því mega munaðarlaus börn í Skagafjarðarsýslu ekki hafa þann möguleika, ef Hegranesið ætti eftir að verða álíka dýrt og Seltjarnarnesið í framtíðinni, að afgjaldið af því gæti runnið til þeirra, svo lengi sem slíkt væri til, slíkt fyrirbrigði og slík börn þyrftu á því að halda? Ég er algerlega mótfallinn því og algerlega sammála minni hl. landbn., sem lagði til, að þetta frv. væri fellt, — ég er algerlega mótfallinn því, að verið sé að hreyfa við þessum hlutum, og ég álít, að við eigum að geta komið okkur saman um að gera það ekki.

Það var rætt um, að það mundi eitthvað ofur lítið bjarga þessu, — það var eins og til þess að bæta eitthvað samvizku þeirra, sem að þessu standa, — að það var samþykkt við 2. umr. að gera þetta að ættaróðali, helming af þessari jörð. Það er nú eitthvað nýtt, ef farið er að gera helming af jörðum að ættaróðali á Íslandi, og er nú ekki beint í samræmi við þær hugmyndir, sem yfirleitt hafa verið, á meðan einhver tilfinning var gagnvart jörðunum, svo að það er furðulegt að reyna að bæta úr hinum stóru göllum þessa frv. með því móti. Og það sýnir sig líka, að sjálf ættaróðalslöggjöfin, því miður, þá hefur hún ekki staðizt okkar kapítalísku framleiðsluhætti. Það átti að reyna að hindra það, að þessar jarðir færu úr ættunum. En öll bankalöggjöf og fjármálalöggjöf nútímans stríðir svo á móti þeirri hugmynd, þeirri út af fyrir sig góðu hugmynd, sem þar býr á bak við, að hún eyðileggur það. Ættaróðölin eru að verða undirorpin veðböndum og öllu slíku. Ég sagði það, þegar við vorum að ræða þessi mál út af gjafabréfi Helga í Þykkvabæ, að það væri nær fyrir okkur að afnema veðböndin á jörðunum yfirleitt og á þann hátt, að ekki þurfi að veðsetja jarðir til þess að öðlast lán til rekstrar þar, en það þykir of fjarri þeim hugsunarhætti, sem nú er að ryðja sér til rúms, til þess að slíkt komi til mála.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að þessi nefnd, sem tekur þetta mál til athugunar aftur, að bæði hv. n. og hv. dm. athugi sinn gang betur og sameinist um að fella þetta frv., ef það skyldi koma aftur frá nefndinni.