11.03.1963
Neðri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri hluta þessarar umr., sé ég enga ástæðu til að fresta þessu máli og vísa því aftur til hv. landbn., því að allar þær upplýsingar, sem nefndar hafa verið, lágu fyrir n., og hún hefur ekkert fengið nýtt í málinu, sem gæti verkað á það að breyta hennar afstöðu.

Ég vil út af ræðu míns meðnm., hv. 6. þm. Sunnl., biðja hann afsökunar, ef ég hef tekið of djúpt í árinni um hans skoðun. En ég mundi ekki eftir því, að hann hefði nokkurn tíma eða hans flokksmenn samþ. sölu á jörðum eða löndum til einstaklinga.

En varðandi það, að þetta sé sérstakt mál, þá er það að sumu leyti og sérstaklega að því leyti til, að hér er farið fram á heimild til þess að selja jörðina í tvennu lagi.

Um álit hreppsnefndarinnar er það að segja, eins og fyrir liggur, að hún samþ. á sínum fundi, öll nefndin, að mæla með sölunni, og fer fram á það, að það sé ekki bundið við ábúandann. Nú er það ekki eðlilega bundið við ábúandann nema á þeim hluta jarðarinnar, sem hann hefur ábúðarrétt á, og ef á að selja þann hluta jarðarinnar, þá er ekki hægt að ganga frá forkaupsrétti ábúandans, ef nokkur sala á að verða.

Um hitt atriðið, sem hér hefur verið minnzt á af tveim síðustu ræðumönnum, að það sé vafasamt um ábúð á jörðinni, ef þessum ábúanda sé seldur sá hluti, sem um er að ræða, þá er það að segja, að í frv. er það skv. till. n. og það er ætlazt til þess, að sá hluti jarðarinnar sé gerður að ættaróðali, sem er á vissan hátt trygging fyrir ábúð á jörðinni. Og hvaða hreppsnefnd sem er hefur það á valdi sínu að taka jörðina í sínar hendur, ef hún er sett í eyði. Auk þess er hér aðeins um heimildarlög að ræða, og hæstv. ráðh., sem um þau á að fjalla, hefur það á valdi sínu að setja einhverjar frekari skorður, sem ég sé nú ekki, að sé ástæða til, fyrir kaupandann. Hitt er ekkert óeðlilegt með hinn hluta jarðarinnar, sem er nú í höndum Búnaðarsambandsins, og eiginlega til þess vísað af stjórn legatsins, að þeirri stofnun sé seldur jarðarhlutinn, en ef það býður einhver hærra í það en matsverð, þá getur það alveg staðizt, en það stenzt ekki varðandi ábúandann, sem hefur forkaupsrétt að sínum helmingi af jörðinni. Að öðru leyti er það augljóst, að það er dálítið leiðinlegur klofningur í hreppsnefnd þessa hrepps út af þessu máli, og ég var nú í dag að fá bréf um það frá manni úr mínni hl., og hann segir, að þeir hafi aldrei verið látnir vita um þetta síðara bréf, sem meiri hl. sendi og er byggt á mjög miklum blekkingum, þar sem þeir tala um, að ábúandinn eigi aðra jörð. Og það er eitt rétt í því, eins og ég tók fram hér um daginn, að hann á þriðjung í lítilli jörð, sem tveir bræður hans búa á og er þannig jörð, að það er útilokað að gera hana að þríbýlisjörð. Þess vegna er þetta frá meiri hl. hv. hreppsnefndar algerlega blekkjandi atriði. Ég tel þess vegna, og það er óhætt að segja það, að meiri hl. landbn., sem eru fulltrúar þriggja þingflokkanna í nefndinni, mæli með því, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir, og að fara að vísa því aftur til n. tel ég óþarft.