15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

6. mál, almannavarnir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræ$a þetta mál mikið við þessa umr. Það urðu nokkrar umr. um þetta á síðasta stigi þessa máls í þessari deild undir þinglok. Og ég er sammála hæstv. dómsmrh. um það, að þetta mál gangi til nefndar og þm. gefi sér gott tóm til að athuga það.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta er eitt af þeim vandasömustu málum, sem fyrir okkur koma. Það er engum efa bundið, að sú spurning, sem fjöldi manna, ekki aðeins svo að segja fákunnandi almenningur í þessum efnum, eins og við erum allir, veitir fyrir sér, heldur líka ýmsir af helztu vísindamönnum heims, það er, hvort nokkrar raunverulegar varnir séu til gagnvart þeim vopnum, sem mannkynið nú er búið að finna upp. Það kann að vísu að vera, að þar sem áhrifa t.d. af kjarnorkusprengjum, sem sprengdar hafa verið, gætir alllangt í burtu, þar kunni að vera einhverjar ráðstafanir, sem ofur lítið geti hjálpað, en í vissum hring í ákveðinni fjarlægð frá þeim stað, þar sem sprengjan fellur, mun ekki vera um neinar varnir að ræða. Og það, sem ég held, að sé ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur, þegar við ræðum þetta mikla alvörumál, það er, að við reynum að horfast í sugu við hættuna, að við sem sagt gerum okkur ekki neinar tálvonir um það, hvort á ákveðnu sviði innan ákveðins hrings frá kjarnorkusprengju sé hægt að koma við nokkrum vörnum eða ekki, því að ef sú ógæfa skyldi koma yfir okkur og mannkynið yfirleitt, að til slíks kæmi, þá yrði það mikill ábyrgðarhluti, ef menn hefðu valdið dauða máske svo og svo margra manna með því að telja þeim trú um, að það væri hægt að verjast á ákveðnu svæði, þar sem engar varnir eru mögulegar.

Ég álít, að það sé rétt að athuga þetta mál mjög vel í nefnd. Okkur greinir á um ákaflega margt í sambandi við kjarnorkuhernað, hvaðan hætta stafi og allt mögulegt annað slíkt. En eitt er a.m.k. víst, að ef til kjarnorkuhernaðar kæmi, þá höfum við að því leyti allir sameiginlegra hagsmuna að gæta, að okkar hlutverk hér á Íslandi, sem við stjórnmálin fáumst, getur ekki verið annað en reyna að afstýra sem mestu af þeim voða, sem af slíku mundi hljótast. A hvern hátt aftur á móti það verði gert, um það getum við deilt, en um það ættu raunverulega ekki að þurfa að verða að öllu leyti pólitískar mótsetningar. Þar ættum við að geta komizt að vissum niðurstöðum út frá tæknilegum upplýsingum um, hvað við þyrftum að gera viðvíkjandi okkar landsfólki.

Ég hefði nú ofur litla tilhneigingu til þess, af því að hæstv. utanrrh. hafði hérna síðastur orðið áðan og fyrst við erum að ræða kjarnorkustríð, og ég held, að hann sé hér einhvers staðar nærri eg megi mál mitt heyra, að skjóta því fram til hans, af því að hann hafði orðað það, sem mér finnst ógætilegt af manni í hans stöðu. Hann lýsti því yfir, að það væri hlutverk Atlantshafsbandalagsins að berjast gegn hinum alþjóðlega kommúnisma, og vildi mjög hrósa sér af því, að sú að hans áliti hin vonda stefna hefði nú aldeilis sett niður, síðan það volduga Atlantshafsbandalag hefði komið til. Ég vil minna hæstv. utanrrh. á að tala ekki alveg svona ógætilega, hvorki um staðreyndir né um stefnu Atlantshafsbandalagsins. Í fyrsta lagi vil ég minna hann á þær staðreyndir, að frá því að Atlantshafsbandalagið var myndað, hefur það, sem hann kannske undir ýmsu formi mundi kalla hinn alþjóðlega kommúnisma, eða m.ö.o. þjóðfrelsisstefna og sósíalismi, unnið meira á í veröldinni en nokkru sinni fyrr, byrjaði þá strax sama árið sem Atlantshafsbandalagið var stofnað með því að ná fullum sigri í Kína eftir langa baráttu þar, og hefur síðan fleira og fleira af þjóðum, sem áður voru undirokaðar af nýlenduveldum Evrópu, verið að verða sjálfstæðar og nú seinast land, sem í sjálfum Atlantshafsbandalagssáttmálanum var þó gert ráð fyrir að ætti að heyra undir Atlantshafsbandalagið, m.ö.o. Alsír. Og ég vil svo minna hann á, að meira að segja er svo komið, að við bæjardyrnar hjá Bandaríkjunum, því volduga ríki, er nú risið upp sósíalistískt ríki, m.ö.o. á Kúbu, og í allri SuðurAmeríku ólgar nú svo þar undir einræðisstjórnum þeim, sem Bandaríkin halda þar uppi, að manni virðist þeim ekki vera orðið beint rótt í sjálfri Washington. Þessu vildi ég nú aðeins skjóta að honum, ef hann væri að hugga sig allt of mikið við, að það volduga Atlantshafsbandalag væri búið að kveða niður þjóðfrelsistefnu og sósíalisma í heiminum. En hinu vildi ég spyrja hann að: Er það m.ö.o. tilgangur Atlantshafsbandalagsins að beita sér á móti því, að t.d. sósíalismi sé framkvæmdur í öðru landi? Ef flokkur, sem vill framkvæma sósíalismann eða jafnaðarstefnuna, fær hreinan meiri hluta á þingræðislegan hátt í einu landi og byrjar á að þjóðnýta það, sem vafalaust yrði kallað öllum illum nöfnum, eins og við er að búast af auðvaldssinnum, mundi það þá vera álitið af hálfu Atlantshafsbandalagsins sem átylla til þess að skerast í leikinn og skerða sjálfstæði og lýðræði viðkomandi þjóðar? Ég vildi aðeins skjóta þessu inn, fyrst hæstv. utanrrh. hafði hérna orðið seinast í þessum litlu umr., sem urðu á milli okkar, svo að hann athugaði það, þangað til við mætumst næst á svipuðum vettvangi.