14.03.1963
Efri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir; var flutt í hv. Nd. og hefur gengið í gegnum hana. Það var flutt þar samkv, ósk stjórnar Utanverðunesslegats, en efni þess er það, eins og frv. hefur verið samþ. í Nd., að stjórn Utanverðunesslegats heimilast að selja ábúanda hálfa jörðina Utanverðunes í Rípurhreppi, enda verði hún gerð að ættaróðali, og enn fremur er svo heimilað að selja hinn hluta jarðarinnar. Ég vildi aðeins leyfa mér að benda á, áður en málið fer til n. hér í þessari hv. d., að stjórn legatsins óskaði eftir því, að söluheimildin yrði ekki bundin við ábúanda, eða eins og segir í bréfi legatsstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Legatsstjórnin telur eftir atvikum mjög æskilegt, að söluheimildin verði eigi eingöngu bundin við núv. leigutaka, heldur hafi hún óbundnar hendur um að leita kauptilboða og sölu í samræmi við það.“

Þegar frv. var flutt í hv. Nd., var það á þá lund, að söluheimildin á þeirri hálflendu, sem hér er um að ræða, var bundin við ábúanda, en í meðferð Nd. var því skilyrði bætt víð, að jörðin yrði þá um leið gerð að ættaróðali. Heima fyrir í hreppnum er ágreiningur um þetta mál. Að vísu geta allir hreppsnefndarmenn fallizt á það, að það sé eðlilegt, eins og nú er komið, að leyfð sé sala á jörðinni, og legatsstjórnin hefur fallizt á það fyrir sitt leyti og telur, að tilgangi legatsins sé hægt að ná, eins þótt jörðin sé seld. En ágreiningurinn innan hreppsnefndarinnar er um það, að meiri hluti hreppsnefndarinnar vantreystir því, að sá, sem telst nú hafa ábúð á jörðinni, muni búa á jörðinni í raun og veru og hafa þar ábúð til frambúðar, og hefur hreppsnefndin eða meiri hl. hennar bent á, að sá aðili hafi aðra jörð í þessum hreppi, þá, sem hann nú hafi byggt upp, en a.m.k. 2 s.l. ár hafi hann þrátt fyrir það átt að mestu heima á Sauðárkróki. Það er skiljanlegt, að hreppsnefndin telji æskilegt, að þessi jörð haldist í raunverulegri ábúð, og telji það æskilegt, ef hún er seld, að þá sé reynt að tryggja um leið, að sá, sem kaupir, búi á jörðinni, sem er talin að ýmsu leyti góð jörð og hlunnindajörð.

Af þessum sökum vildi ég beina því alveg sérstaklega til þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, sem væntanlega verður hv. landbn., að hún kynni sér þetta málefni rækilega, kynni sér, hvort ekki er rétt, sem hreppsnefnd segir um þetta, og athugi þá af því tilefni, hvort ekki sé rétt að breyta frv, í það horf, sem stjórn legatsins upphaflega óskaði eftir, að það væri um söluheimild að ræða fyrir stjórn legatsins, sem ekki á neinn hátt væri bundin sérstaklega við ábúanda. En þó að ábúandi kunni að lögum að hafa kauprétt á jörðinni, þá gætu auðvitað lög, sem sett eru sérstaklega um söluna, gert þar undantekningu frá. Eða ef það ekki fæst, hvort það væri þá ekki hægt að setja í þetta frv. einhvern varnagla, sem miðar að því, þar sem t.d. svo væri fyrir mælt, að salan væri því aðeins heimil, að líkur væru til þess, að ábúð héldist á jörðinni. Mér er að vísu, ljóst, að það er erfitt að setja svona ákvæði í lögin, en ég held þó, að slíkur varnagli gæti verið til leiðbeiningar fyrir stjórn legatsins og hún gæti þá líka haft eitthvað við að styðjast í þessu máli.

Þó að ég sé þeirrar skoðunar, að það beri að sjálfsögðu að fara varlega í því að raska við fornum gjafabréfum og eigi að fara varlega í því að selja svona jarðir, þá held ég, að það verði ekki komizt fram hjá því að taka tillit til breyttra aðstæðna og verði ekki komizt hjá því eftir atvikum að leyfa sölu á slíkum jörðum. Og ég hef í sjálfu sér ekki sérstakar aths. við það að gera, að stjórn legatsins sé veitt söluheimild, en ég vil aðeins leggja enn áherzlu á, að þetta mál sé rækilega athugað, þar sem svona stendur á og þetta er ágreiningsmál þar heima fyrir, og ég hygg ekki venjulegt að gera slíkar ráðstafanir í andstöðu við hreppsnefnd eða meiri hl, hreppsn.

Það er náttúrlega aðeins formsatriði, en ekki þannig, að það skipti máli, en þó hefði mér þótt vel á því fara, að það hefði verið leitað umsagnar hreppsnefndar Hólahrepps um þetta mál, áður en það hefði verið afgreitt, því að þetta legat, sem þarna er um að ræða, á þó fyrst og fremst að vera til styrktar — eða átti að vera — börnum í Hólahreppi og því a.m.k. formlega séð ekki óeðlilegt, að þeim þar væri leyft að tjá sig um það, hvort þeir hefðu nokkuð við að athuga þessa breyt. á þessum eignastofni þessa legats. En það er auðvitað ekki loku fyrir það skotið, að það geti síðar meir haft æðimikla þýðingu fyrir þá hlutaðeigandi aðila, sem eiga að njóta arðs af þessari eign, hvort hún er seld nú eða hvort hún verður seld 100 árum síðar. En ég bendi aðeins á þetta.

Og svo vil ég að lokum segja það, að ábúandi sá, sem hér er um að ræða, sem hefur óskað eftir að fá jörðina keypta, hann hefur nú ábúð á henni, þ.e.a.s. hann nytjar hana. Ég vil út af fyrir sig — ekki neitt sérstaklega mæla gegn þeim manni, en bendi aðeins á þessar ástæður, sem hreppsnefnd hefur bent á, en ég get ekki séð, að honum séu nein vandkvæði gerð, þó að þessari sölu sé ekkí svo sérstaklega hraðað. Ég get ekki séð, að það liggi neitt sérstaklega á í þessu máli, þannig að ég held, að það sé affarasælast, að þetta mál sé athugað vel og athugað, hvort ekki sé hægt að sætta alla aðila, sem þarna eiga hlut að máli, þannig að það geti orðið samkomulag um lausn þessa máls. Þetta vildi ég biðja landbn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, að athuga.