04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Ólafur Thoraresson:

Herra forseti. Legatsstjórn óskaði eftir söluheimild á þessari jörð, sem hér er um að ræða, en tók jafnframt fram í þeim tilmælum sínum, að hún teldi eftir atvikum mjög æskilegt, að söluheimildin yrði ekki eingöngu bundin við núverandi leigutaka jarðarinnar. 1 Nd. var þó mál þetta ekki flutt á þeim grundvelli, heldur var efni frv. það, að legatsstjórninni heimilaðist að selja ábúanda, eins og þar stendur, hálfa jörðina Utanverðunes í Rípurhreppi, og þannig gekk hv. Nd. frá þessu frv., og í þeirri mynd kom það til Ed., þó að að öðru leyti væru gerðar nokkrar breytingar á frv. í hv. Nd. Fyrir hv. Nd. lá þó umsögn hreppsnefndar Rípurhrepps, undirrituð af öllum 5 hreppsnefndarmönnum þar, þar sem tekið var fram, að talið væri eðlilegt, að salan væri ekki bundin við núverandi leigutaka.

Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. d., þá benti ég á þessar staðreyndir í málinu og skaut því til hv. landbn., hvort hún vildi ekki taka það til athugunar að breyta frv, í það horf, sem legatsstjórnin hafði upphaflega óskað eftir að það væri flutt í og öll hreppsnefnd Rípurhrepps hafði mælt með. Ég hef í sjálfu sér enga tilhneigingu til þess að blanda mér í þær deilur, sem spunnizt hafa út af þessu máll. Og ekki hef ég heldur neina tilhneigingu til þess að gera lítið úr því, sem sá maður, sem nú hefur nytjað jörðina, kann að hafa gert á jörðinni. Skal ég ekkert vefengja. að þær upplýsingar, sem hv. frsm. fór hér með, séu réttar, þó að þær upplýsingar liggi mér vitanlega ekki fyrir í skjölum þessa máls. Ég skal út af fyrir sig ekki heldur fara að innleiða neinar deilur við hann um það, hver kunni að vera réttur þessa aðila. Ég bendi aðeins á það, að bæði legatsstjórnin og hreppsnefnd Rípurhrepps hafa nefnt hann leigutaka, en ekki ábúanda, enda mun það mála sannast, að a.m.k. s.l. 2 ár hafi hann aðeins haft nytjar jarðarinnar, en naumast getað talizt ábúandi hennar í skilningi ábúðarlaganna.

Nú hefur hv. landbn. ekki séð sér fært að taka til greina þær ábendingar, sem ég, beindi til hennar, og er því auðséð, að málið verður héðan afgreitt í því formi, sem það liggur nú fyrir í, þó að það sé þá þannig úr garði gert, að það sé engan veginn að öllu leyti í samræmi við óskir legatsstjórnarinnar sjálfrar, sem frumkvæði átti þó að því, að þetta mál var flutt hér inn á Alþingi, og ekki heldur í samræmi við umsögn hreppsnefndar í Rípurhreppi. En þar sem hér er aðeins um að ræða heimild fyrir legatsstjórnina til að selja jörðina, heimild, sem hún ræður, hvort hún notar eða ekki notar, og getur því látið vera að selja þeim manni jörðina, sem talinn er hafa haft hana í ábúð að undanförnu, ef hún treystir því ekki, að hann muni búa á jörðinni, þá mun ég ekki flytja neinar brtt. við þetta frv. og ekki leggja stein í götu þess að öðru leyti, þó að ég hefði hins vegar talið það skemmtilegri afgreiðslu hjá hv. landbn. að sníða frv. þann stakk, sem legatsstjórnin óskaði eftir. En eins og ég hef þegar sagt, gerist ekki annað með þessu frv. en legatsstjórnin fær þessa, heimild, og ef hún vill ekki selja þessum manni, þá verður þessi jörð áfram í eigu þessa legats, og það er kannske ýmissa hluta vegna bezt, að svo sé.