27.11.1962
Neðri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

92. mál, lántaka vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 112 frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku að upphæð allt að 12 millj. kr., sem endurlánaðar yrðu Vestmannaeyjakaupstað til vatnsveituframkvæmda. Frv. fylgir allýtarleg grg.

Það mun öllum ljóst, að bygging vatnsveitu í Vestmannaeyjum er nokkrum annmörkum háð og erfiðari í framkvæmd en bygging slíks mannvirkis í flestum kaupstöðum landsins, þar sem um enga vatnsuppsprettu er að ræða í Eyjum, sem til greina gæti komið að virkja til vatnsveituframkvæmda. Eins og kemur fram í grg. frv., hefur á undanförnum árum farið fram allýtarleg athugun á möguleika á byggingu vatnsveitu til afnota fyrir almenning þar. Þessar athuganir hafa leitt í ljós, að sem undirstöðuatriði í þessu sambandi er um þrjár leiðir að ræða við öflun vatns fyrir þessa fyrirhuguðu vatnsveitu, og eru þær þessar: Í fyrsta lagi jarðborun, í öðru lagi með vinnslu vatns úr sjó og t þriðja lagi með vatnsleiðslu frá meginlandinu. Tilraunir með jarðboranir voru gerðar í Vestmannaeyjum árið 1955, en bára því miður ekki þann árangur, sem menn gerðu sér vonir um. Tilraunir þessar voru þó aðeins við það miðaðar að kanna, hvort undir Heimaey, sem er eyjan, sem kaupstaðurinn stendur á, væri svonefnt grunnvatn. Var því aðeins borað niður í sjávarmálsdýpið eða um 120 m, þar sem dýpst var borað, en eins og fyrr segir, því miður, án tilætlaðs árangurs. Verk þetta var framkvæmt af jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar undir eftirliti og í samráði við jarðfræðinga. Liggur því alveg ljóst fyrir, að vatns verður ekki aflað í Vestmannaeyjum eftir þessari leið, og koma því ekki til greina frekari jarðboranir í því skyni. En hins vegar hefur mjög verið rætt um þann möguleika að reyna þá leið að afla vatns með svokölluðum djúpborunum, sem þýðir, að bora verður niður í allt að 1000 m dýpi eða meir, og freista þess þannig að hitta á vatnsæð frá fastalandinu: Álits sérfræðinga hefur verið leitað í þessu sambandi og við þá rætt allýtarlega en umsögn um þetta atriði liggur ekki enn fyrir frá þeim.

Í sambandi við vinnslu vatns úr sjó hafa Vestmanneyingar gert sér far um að fylgjast sem bezt með þeirri þróun, sem á sér stað í þeim málum. Fengu þeir árið 1956 erlendan sérfræðing til Eyja til viðræðna og athugunar á staðháttum og til þess að Vestmanneyingar hefðu betri aðstöðu til að gera sér grein fyrir, hvort þar væri um leið að ræða, sem byggja mætti á til frambúðar, ef ráðizt yrði í vatnsveituframkvæmdir. Það var vitað þá og er vitað enn, að mjög víða um heim er eytt mjög miklu fjármagni til tilrauna í þessu sambandi: Tilraunastöðvar hafa v erið settar upp og eru í gangi. Bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og víðar eru þegar byggðar stöðvar til framleiðslu á neyzluvatni úr sjó. En bæði stofn- og rekstrarkostnaður slíkra stöðva er enn það mikill, að vart er talið gerlegt að byggja vatnsveitu hér A landi á þeirri forsendu. Samkv. skýrslu þess opinbera aðila í Bandaríkjunum, sem hefur með þessi mál að gera, þ.e.a.s. með vinnslu á neyzluvatni úr sjó, er framleiðslukostnaður þar talinn vera um einn dalur á hver þúsund gallon, og svarar það til um 10—12 ísl. kr. á hvert tonn. Er í þessum útreikningum tekið tillit til stofnkostnaðar. En þess ber að gæta, að bæði orka til framleiðslunnar og stofnkostnaður mun vera verulega lægri í Bandaríkjunum en yrði hér á landi. Hins vegar er þróun þessara mála mjög ör, og ég tel ástæðu til að ætla samkv. nýjustu fréttum, sem um þetta hafa fengizt, að lausn þessa máls eftir þessari leið geti verið mun nær en við jafnvel höfum gert okkur vonir um og getum gert okkur grein fyrir.

Þriðja leiðin, sem um er rætt í grg. Þessa frv., er vatnsleiðsla frá meginlandinu út til Vestmannaeyja. Einnig þessi leið hefur verið athuguð allgaumgæfilega. Hefur af verkfræðingum verið gerð kostnaðaráætlun um slíka leiðslu. Leiðslan yrði rúmlega 20 km löng, og virðast engir tæknilegir örðugleikar á lögn hennar. Og að því er bezt verður séð, yrði hún ekki svo dýr, að ekki væri hægt að reka vatnsveitu eftir þessari leið. Hins vegar eru nokkrir erfiðleikar á að gera sér fulla grein fyrir, hvort óhætt er að treysta, að sjóleiðslan frá meginlandinu út til Eyja mundi haldast óskemmd. Vatnsleiðsla hefur aldrei áður verið lögð hér á landi við slíkar aðstæður. En vitað er, að erlendis hafa slíkar vatnsleiðslur verið lagðar á sjávarbotni um mun lengri leið en hér um ræðir og ekki komið þar að sök. Eftir lauslegri áætlun um slíka leiðslu, ef gengið væri út frá leiðslu, sem flytti um 2000 tonn, er talið, að hún mundi kosts 12–15 millj. kr. Ég skal taka það fram, að þá tölu ber að taka með nokkurri varúð, því að þetta er gert mjög lauslega og yrði að sjálfsögðu grandskoðað nánar, þegar þetta atriði verður athugað betur.

Ég hef hér í stórum dráttum rætt þær þrjár leiðir, sem af sérfróðum mönnum er talið að til greina komi til úrlausnar á þessu vandamáli Vestmanneyinga. Er full ástæða til að ætla, að jafnvel þegar á næsta ári og jafnvel fyrri hluta næsta árs fáist úr því skorið, hver þessara leiða mundi verða heppilegust talin, enda er nauðsynlegt, að svo verði, þar sem hér er um að ræða lausn á mjög aðkallandi vandamáli þessa byggðarlags. Það liggja til þess fleiri en ein ástæða, eins og fram er tekið í grg. frv. Er það í fyrsta lagi vegna þess, að ekki er nema eðlilegt, að íbúar byggðarlags eins og Vestmannaeyjar eru geri þá kröfu að hafa óhindraðan aðgang að nægilegu neyzluvatni og vatni til heimilisþarfa, og í öðru lagi vegna þess, að sú hætta vofir yfir Vestmanneyingum öðrum landsmönnum frekar, að neyzluvatn þeirra, eins og þess nú er aflað, verði ónothæft vegna geislavirkni af völdum kjarnorkusprenginga, og þessi hætta er alveg sérstaklega fyrir hendi, ef til kjarnorkustyrjaldar skyldi draga. Fyrir fram er vitað, að hér er um mjög fjárfreka framkvæmd að ræða, vart undir 20—30 millj., og getur því ekki talizt neitt óeðlilegt, þar sem um slíka sérstöðu er að ræða eins og er í Vestmannaeyjum gagnvart þessu máli, að leitað sé sérstakrar fyrirgreiðslu ríkisvaldsins, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 2. umr. og hv. fjhn.