07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

182. mál, ábyrgð á láni fyrir Slippstöðina á Akureyri

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það þarf víst ekki að deila um nauðsyn þessa máls, sem hér er borið fram. Akureyri byggir afkomu sína og þegna sinna að mjög verulegu leyti á iðnaði, enda hefur margs konar iðnaður náð þar miklum þroska, svo að hann stendur í öllu tilliti jafnfætis því bezta, sem gerist hér á landi, og er á mörgum sviðum fyllilega samkeppnisfær við erlendan iðnað. Fjölbreytni iðnaðarframleiðslunnar á Akureyri er þegar ótrúlega mikil, og get ég nefnt sem dæmi, að þar er mikill ullariðnaður, margs konar fatagerð, þar eru unnin vinnuföt, prjónavörur, ýmiss konar yfirhafnir og skjólflíkur, þar er skógerð og annar skinnaiðnaður, sælgætisgerð og gosdrykkjaframleiðsla og margt, margt fleira, sem telja mætti upp. En þrátt fyrir hinn fjölbreytilega iðnað munu þó langflestir telja, að full nauðsyn sé á því að auka enn fjölbreytni iðnaðarins í bænum, jafnframt því sem leitazt er við að efla þær iðngreinar, sem fyrir eru. Hafa miklar umr. átt sér stað heima fyrir um þessi mál í blöðum bæjarins og á mannfundum og í ýmsum félögum, og hafa menn þfs m.a. reynt að gera sér grein fyrir, hvaða nýjar iðngreinar kæmu helzt til álita.

Eitt af því, sem mönnum hefur helzt hugkvæmzt í þessu tilliti, eru auknar skipasmíðar og þá jafnframt það að hefja stálskipasmíði, sem ekki hefur verið reynd í bænum til þessa, en mun að allra dómi eiga mikla framtíð fyrir sér, hér á landi sem víða í öðrum löndum. Skipasmiði er þegar orðin mjög gamall iðnaður á Akureyri, eins og hv. frsm. tók fram, og hann stendur þar á gömlum merg, og má alveg óhikað fullyrða, að óvíða séu smíðuð betri skip eða bátar en í skipasmiðjum á Akureyri. En því er ekki að leyna, að stórfelldar skipasmíðar í bænum hafa þó átt fremur örðugt uppdráttar um langa hríð, svo sem alkunna er um skipasmíði annars staðar á landinu. Hefur því engan veginn orðið sú aukning skipasmíða á Akureyri, sem vonir hefðu mátt standa til, miðað við hæfni og kunnáttu þeirra, sem að þeim vinna. Út í það skal ég þó ekki fara öllu frekar, enda býst ég ekki við, að ég geti bent á nein algild úrræði, sem mættu verða til þess að leysa vanda innlendra skipasmíða, eins og hann er um þessar mundir, enda fullkomin ástæða til þess, að það mál sé rannsakað sérstaklega í heild og algerlega hleypidómalaust. Ég vil þó aðeins geta þess, að yfirleitt mun skipasmíðastöðvarnar ekki skorta verkefni, miðað við þann mannafla, sem þær hafa yfir að ráða, en að langmestu leyti munu skipasmiðir bundnir við viðgerðir og viðhald skipa, og eins og nú horfir málum, mun sáralítill tími gefast til nýsmíði. M.a. af þessum ástæðum hafa skipasmíðar verið sóttar út úr landinu. En það út af fyrir sig er þó ekki skýring á mannfæðinni í skipasmíðastéttinni hér á landi né þeirri staðreynd, að margir skipasmiðir hverfa frá þeirri grein smíða og vilja heldur stunda aðrar greinar trésmíði, svo sem húsasmíði. Virðist svo sem skipasmíði sé ekki eftirsóknarverð atvinna fyrir iðnaðarmenn, hver svo sem ástæðan er, né heldur virðist arðvænlegt að byggja hér upp verulegan skipasmiðaiðnað innanlands við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi, enda tel ég fyllilega tímabært, að það mál sé vel athugað í heild og reynt að finna leiðir til úrbóta.

Um stálskipasmíði er það að segja; að hún mun áreiðanlega fara vaxandi á næstu árum, enda eftirspurn eftir stálbátum þegar mjög mikil og almenn trú á gæði þeirra og endingu. Það er því full ástæða til þess, að hið opinbera veiti allan sanngjarnan stuðning við þá aðila, sem hug hafa á að koma upp slíkum iðnaði, enda hafi þeir hæfni til þess að reka hann á viðunandi hátt. Er óhætt að fullyrða, að það fyrirtæki, sem um ræðir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ágaalega fært um að annast stálskipasmíði, ef því auðnast að koma sér upp nauðsynlegri aðstöðu og fá nægan mannafla til þess að hefja smíðaframkvæmdir. Og því ber að þakka og viðurkenna framtak Slippstöðvarinnar á Akureyri í þessu máli og þann hátt, sem það mun væntanlega eiga í auknum og fjölbreytilegri iðnaði í bænum, því að með því er verið að koma til móts við þann almenna áhuga, sem ríkir í Akureyrarbæ á iðnaðarmálum yfirleitt og sérstaklega auknum skipasmíðum.

Þess má geta, að helztu eigendur Slippstöðvarinnar h/f á Akureyri eru Akureyrarbær og Kaupfélag Eyfirðinga og nokkrir einstaklingar, og hygg ég, að forráðamenn þessa félagsskapar hafi þegar leitað fyrir sér eða haft í hyggju að leita fyrir sér hjá haatv. ríkisstj. um stuðning við fyrirhugaðar framkvæmdir, og vildi ég leyfa mér að spyrja um það, ef hér er nokkur ráðh. viðstaddur. Svo mun nú ekki vera. Ég hefði viljað spyrja að því, hvort ekki hefði verið þegar leitað til hæstv. ríkisstj., og þá hefði mér þótt eðlilegt, að hún sjálf hefði flutt þetta frv. um heimild sér til handa til þess að ábyrgjast fyrirhugað lán. Ef sá háttur hefði verið á hafður um flutning málsins, mundi ég telja, miðað við reynslu, að það hefði tryggt betur framgang þess, án þess að ég ætli að væna hæstv. ríkisstj. um, að hún hafi ekki áhuga á málinu. Hins vegar hefði áhugi hennar og velvild gagnvart málinu komið betur í ljós, ef hún sjálf hefði flutt málið, eða a.m.k. horfir það þannig við mínum sjónum. En auðvitað er þetta aukaatriði og aðalatriðið, að málið nái fram að ganga og að hæstv. ríkisstj. sýni þessu máli einlægan stuðning.