06.11.1962
Neðri deild: 12. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

6. mál, almannavarnir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við erum hér að ræða einhver alvarlegustu mál, sem unnt er að ræða á okkar tímum, þau mál, hvort það séu einhverjir möguleikar og hverjir á því að forða einhverju fólki frá fjörtjóni, ef Ísland dregst inn í kjarnorkustríð. Og það mætti ætla, að þeir, sem slíkt mál ræða, hefðu það fyrst og fremst í huga, hve mikilvægt slíkt málefni er, og létu ekki neina aðra hluti draga sig frá því að einbeita sér að aðalatriðum í þessu, svo mikilvægt sem það er. Það hefði þess vegna verið hægt að búast við því, að frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefði sýnt einhverja ofur litla hugsun, einhverja ofur litla viðleitni til þess að setja sig inn í þessi mál og til þess að tala af viti um þessi mál. Því miður hefur það farið svo, að hann hefur í staðinn kosið að fara að koma með ýmsar persónulegar slettur og annað slíkt í sambandi við þessar umr., og e.t.v. er það meiningin hjá honum með slíku að reyna að breiða yfir það, að hann skilji hvorki upp né niður í því, sem hann er að fjalla um. Það er ákaflega hart, ef á þeim tímum, ekki sízt öðrum eins hættutímum og nú, þegar við erum að ræða svona alvarleg mál, eru menn hér í þinginu, sem halda, að það sé hægt að breiða yfir þekkingarleysið og röksemdaskortinn með nokkrum ofstækisfullum áróðursupphrópunum á móti kommúnistum. Hitler og Göbbels gerðu þetta í mjög ríkum mæli forðum, og er ósköp leitt til þess að vita, að hér skuli vera menn, sem þykir gaman að feta að einhverju leyti í þeirra fótspor og endurhljóma þeirra vitlausu slagorð, sem settu heiminn í bál forðum.

Það eru tvær ólíkar stefnur, sem er um að ræða. Það er tvennt, sem við erum að ræða um í þessu sambandi á Íslandi. Það er annars vegar það að reyna að forða fólki frá afleiðingum stríðs, reyna að forða íslenzku fólki, íslenzkri þjóð frá afleiðingum stríðs, m.a. með skynsamlegum almannavörnum, og það er hin stefnan að reyna að draga íslenzka þjóð inn í stríð og gera hana að skotskífu. Þetta tvennt er gersamlega ólíkt og andstætt. Það er undarlegt, að í hinu stóra höfði hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. skuli þetta ruglast saman í einn graut. Ég gæti bezt trúað, að ef svo ægilega færi, að það yrði kjarnorkustríð, og ef svo færi, að einhverjir Íslendingar lifðu það af og einhverjir hefðu áhuga á því eftir þann tíma að rannsaka það, sem héti íslenzk saga, þá mundi ræða þessa hv. þm. vera skoðuð sem dæmi um, hve ægilegt ábyrgðarleysi, þekkingarleysi og fáfræði væri um þessi mál. Að halda slíka framsöguræðu eins og hv. 1. þm. Vestf. gerði um almannavarnirnar, sem fulltrúi meiri hl. heilbr.- og félmn., það er alveg ægilegur hlutur, að slíkt skuli geta komið fyrir og hann skuli hafa talað eins og hann gerði. Nú veit maður ósköp vel, að þessi hv, þm. getur talað og hann hefur alveg sérstaklega sýnt það, þegar hann hefur verið framsögumaður fyrir fjvn., að þá hefur ekki vantað ýmislegt í kollinn á honum, sem kom gott þaðan. Mér sýnist eins og svo sé komið fyrir hans flokki nú, að nú vilji hann ekki nýta hann lengur á því sviði, sem var helzt nýtandi, og setji hann svo í það að halda svona dómadagsræður eins og hann gerði hérna sem formaður heilbr.- og félmn. Meiri hluti ræðu hans var raunverulega um mig og mína afstöðu, og það er þess vegna ekki nema rétt, að ég víki að því, enda gaf það mér satt að segja fyrst og fremst tilefni til þess að standa hér upp. Ég hef áður reynt að segja lítils háttar um þessi mál.

Hv. 1. þm. Vestf. las upp nokkur orð úr ræðu, sem ég hafði haldið 21. febr. 1941, og kvað mig hafa verið mjög fylgjandi almannavörnum eða loftvörnum, eins og það var þá kallað, af því að Rússar hefðu þá verið komnir í stríðið - og ég væri auðvitað agent þeirra, það þurfti ekki langt að leita til að sjá, af hverju ég hefði verið með því, að það væri reynt að hindra, að mikið af Íslendingum yrði drepið í febr. 1941. Var hv. þm. búinn að hugsa eitthvað í sambandi við þetta, sem hann sagði? Hann var ekki í neinum vandræðum með röksemdafærslurnar: ég væri með almannavörnum þá, ég væri á móti þeim núna, því að Rússar hefðu verið í stríðinu þá og ég væri þeirra agent. Og hvað var 21. febr. 1941? Ég veit ekki, hvort ég þarf að fara að halda fyrirlestur í mannkynssögu yfir hv. formanni heilbr.- og félmn., en Rússar voru ekki í stríðinu þá, þeir voru ekki komnir í stríðið, svo að allur botninn í allri þessari þokkalegu röksemdafærslu hv. þm. er þannig dottinn úr. En má ég spyrja: Hvernig stendur á því, að þessi hv. þm. getur ekki komið hér í stólinn án þess alltaf að fara að tala um agenta Rússa? Er þetta einhver árátta hjá honum? Er þetta einhver sektarmeðvitund hjá honum? Er hann að nota hvert tækifæri, sem hann fær, til þess að lýsa því yfir, hvað það sé voðalega ljótt að vera einhver agent Rússa? Eða er þetta bara svona ódýr auglýsingabrella til þess að fá mig til þess að fara að tala um Bifreiðar og landbúnaðarvélar h/f? Hvað er það, sem hv. þm. meinar með þessu?

Það er alveg rétt hjá honum, að ég hélt hér ræðu um, að það þyrfti að reyna að forða íslenzku fólki, — og það náði sérstaklega til Reykvíkinga, — frá því að vera drepið, ef hægt væri, fyrir gerðar árásir. Ég var með því, að það yrði reynt að skapa þá aðstöðu fyrir almenning hér, sem hægt væri. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur haft fyrir því að lesa þessa ræðu mína, en það væri máske rétt, fyrst hann hætti svo ákaflega fljótt í henni, að ég lofaði honum að heyra ofur lítið meira, með leyfi hæstv. forseta. Ég sagði í þessari ræðu 21. febr. 1941 hér í Nd. m.a.:

„Menn þóttust sjá það undireins, þegar farið var að víggirða Reykjavik, að hér væri hætta á ferðum og brezka setuliðinu væri ekki sérstaklega mikið um það hugað, hvernig færi um fólkið sjálft, er hér býr. Aðalatriðið fyrir setuliðið væri að tryggja herstöðvar sínar sem bezt, svo og þær stöðvar, sem væru mikilvægastar fyrir það sjálft, t.d. höfnina í Reykjavík og aðrar slíkar. Þess vegna hlaut það fyrst og fremst að koma í hlut íslenzkra yfirvalda að sjá almenningi fyrir sem beztu öryggi gegn loftárásunum, því að innrásarherjunum væri ómögulegt að treysta að neinu leyti, sem vitaskuld hefðu ekki komið hingað til þess að tryggja Ísland gegn árásum, heldur til þess að tryggja sér betri hernaðaraðstöðu en ella.“

Hv. þm. hafði ekki fyrir að lesa þennan kafla af ræðunni. Þá kom enn fremur nokkru seinna í sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Það hefði þurft að undirbúa skipulagða fólksflutninga úr Reykjavík, ef til loftárása kæmi.” Og síðan rakti ég allýtarlega, hvernig aðstæðurnar væru viðvíkjandi vegunum og öðru slíku. Og svo held ég áfram: „Þetta vil ég minnast á. Og ef hæstv. ríkisstj. væri þess sinnis að svara spurningu minni, sem ég hef beint til hennar, þá þætti mér mjög fróðlegt að vita, hvort hæstv. ríkisstj. hefur mótmælt því sérstaklega við hið erlenda setulið, sem hér er, þegar Reykjavík var víggirt. Að víggirða Reykjavík er vafalaust einhver hroðalegasta ráðstöfun, sem gerð hefur verið í þessari styrjöld, því að ríkisstjórnir annarra þjóða reyna að fá höfuðborgir sinar viðurkenndar sem óvíggirtar borgir.“ Ég minnist síðan á Frakka og Belgíumenn. Og svo kemur: „En Reykjavík, sem er höfuðborg hlutlausrar þjóðar og hefur að geyma tiltölulega stærri part viðkomandi þjóðar heldur en nokkur önnur höfuðborg, hún er ekki einungis víggirt, heldur hreint og beint útbúin sem partur af víggirðingu.“

Skal ég ljúka þar með tilvitnunum úr þessari ræðu minni. Hvað er það, sem ég þarna er að benda á? Ég er að benda á, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að reyna að vernda lif almennings, og ég er að benda á um leið og undirstrika, að það sé hið erlenda innrásarlið, sem leiði hættuna yfir okkur. Og þeir, sem voru hér í Reykjavík þá, muna það, hvernig brezka setuliðið í ósvífni sinni setti sína hermannabragga innan um öll íbúðahverfin í Reykjavík, ekki bara á Skólavörðuhæðina, við hliðina á Hringbraut-Snorrabraut, þar sem Austurbæjarbíó nú stendur, Kamp Knox í Vesturbænum og annars staðar, heldur var öll Reykjavík viggirt og höfuðsetur hersins, hershöfðingjamiðstöðin látin vera í miðju bæjarins. Og ég spurði að því, hvort ríkisstj. hefði sérstaklega mótmælt þessu, því að þetta var slík ósvífni, að með þessu var beinlínis verið að draga sprengjur frá andstæðingunum að þessum stöðum, að sjálfri Reykjavík. Hefðu þessir braggar þó verið t.d. þó nokkuð langt fyrir utan Reykjavík, þá var þó heldur minni hætta, þótt ekki væri mikið.

Það var ekki miklu svarað og fór víst ekki mikið fyrir mótmælunum á móti því, hvernig þessar stöðvar voru staðsettar þá. En það kom greinilega fram strax í þessari ræðu, sem var raunverulega eina ræðan, eins og hv. þm. gat um, sem flutt var um þetta, við 1. umr. málsins, að herstöðvarnar voru það, sem skapaði hættuna á Íslandi. Sósialistaflokkurinn stóð þá með almannavörnunum, með því, að það væri reynt að forða almenningi, og gerði kröfur til þess, að það væru gerðar sem beztar ráðstafanir til þess að reyna að vernda líf almennings. Jafnframt bentum við á, að ein höfuðhættan væri sú, að hér væri verið að viggirða borg, okkar höfuðborg, og setja hermannaskála um hana alla.

Ég talaði ekki meira um þessi mál. Ég var ekki víðstaddur, þegar 2, umr. fór fram um málið. Það var sett á dagskrá 22. apríl 1941 og umr. fór fram 2. maí, og þá var ég fangi í Bretlandi, og það urðu litlar umr. um þessi mál yfirleitt. Við sluppum til allrar hamingju tiltölulega vel, þrátt fyrir mannfórnir okkar sjómanna o.fl., út úr því stríði, en við ættum a.m.k. að láta okkur það að kenningu verða að búa okkur af einhverju dálítið meira viti og minna ofstæki við því næsta.

Þannig dettur nú botninn úr öllu þessu, sem hv. þm. var að segja viðvíkjandi mér og mínum flokki, og öllum þeim svívirðingum, sem hann var að tengja saman við það. En svo kom hann að því, sem átti að sýna vit hans á hernaðarlegri aðstöðu nú á tímum. Þá kom hann að því, að það væri svo sem alveg greinilegt, hvað það væri, sem þessir vondu kommúnistar væru að gera með þessu öllu saman, þeir væru að auðvelda Rússum innrás í landið. Ég verð að segja það, þegar ég heyri svona orð eins og innrás í landið, töluð af mönnum, sem ættu a.m.k. að hafa sýnt þá ábyrgðartilfinningu að reyna að skapa sér einhverja ofur litla hugmynd um, hvað nútímastyrjöld yrði, þá liggur við, að mér renni kalt vatn milli skinns og hörunds. Það er ekki að tala um spursmál eins og innrásir í sambandi við þá styrjöld, sem nú er fram undan, ef hún á annað borð skellur á. Það var um það að ræða í síðustu styrjöld, að menn réðust á einhver lönd og menn tækju þau herskildi, menn reyndu að halda þeim löndum og annað slíkt og menn berðust þar með ýmiss konar vopnum. Og þrátt fyrir það, þó að allar slíkar innrásir væru illar og af þeim hlytust hörmungar og tjón, er þó reynslan af öllum styrjöldum mannkynsins fram að þessu sú, að einhverjir hafa lifað af, meira að segja einhverjir með hverri þjóð. Ég býst við, að öllum hernaðarsérfræðingum beri saman um það, að ef kjarnorkustyrjöld hefjist núna, þá hefjist hún með geigvænlegri skothríð, þar sem skotið sé eldflaugum, jafnvel mörg þúsund km veg, með kjarnorku- og jafnvel vetnissprengjum í, þannig að á fyrstu mínútum þeirrar styrjaldar reyni hvor hernaðaraðilinn um sig að tortíma sem mestu, í fyrsta lagi eldflaugastöðvum óvinarins og því næst mikilvægum stóriðjuverum. Og eitt af því, sem skapar hvað mesta hættu í sambandi við byrjun styrjaldar nú og það, að hún brjótist út, er, að sá, sem byrjar, sá, sem er á undan, hefur svo óskaplega yfirburði yfir hinn, þannig að freistingin til þess að byrja er svo mikil, að hún getur gert út um, hvor sigrar, ef nokkur á að sigra í styrjöldinni. Þetta er það ægilega við þá styrjöld, sem menn nú tala um að kunni að brjótast út. Þess vegna er það svo fráleitt að vera að tala um spurninguna um innrás í landið frá hálfu einhvers hernaðaraðila, þegar við erum að ræða um það, hvort eigi að forða þjóðinni frá fjörtjóni. Fjörtjónið kemur ekki til með að stafa af því, að einhver aðili komi hér annaðhvort með sjóflota, flugflota, kafbáta eða eitthvað annað slíkt, heldur er stefnt að því að geta skotið eldflaugum fyrst og fremst á ákveðnar herstöðvar úr mörg þúsund km fjarlægð, sem engin vörn er til gegn, og auk þess sem slíkar eldflaugar drepa svo og svo mikið af öllu því fólki, sem er þar í kring, þá gera þær stóran hluta af landinu og máske landið allt óbyggilegt svo og svo langan tíma.

Hörmungar geislavirkninnar, sem kemur á eftir sjálfum kjarnorkusprengjunum, eru jafnvel enn þá ægilegri en eyðilegging sprengnanna sjálfra. Þegar við þess vegna ræðum þessi mál, verður fyrst og fremst að ræða þau frá sjónarmiði þess stríðs, sem við óttumst allir að kynni að brjótast út, og þess stríðs, sem við þurfum fyrst og fremst að reyna að vernda okkar fólk gegn.

Hins vegar ef hv. 1. þm. Vestf. vill fara að ræða um innrás í Ísland, þá er það velkomið. Hverjir eru það, sem fyrst og fremst hafa gert innrás í Ísland? Þeir, sem fyrst og fremst hafa gert innrás í Ísland, eru í fyrsta lagi Bretarnir, ráðast hér á landið og taka það herskildi 1940, og e.t.v. er hv. þm. ekki heldur alveg búinn að gleyma því, að þeir sýndu svipaða tilburði í landhelgisdeilunni 1958. Hverjir eru það, sem ráðast á Ísland næst á eftir Bretum 10. maí 1940? Það eru Bandaríki NorðurAmeríku, í samstarfi við Breta, sem 24. júní 1941 setja íslenzku ríkisstj. 24 klukkustunda úrslitakosti um að afhenda landið sem herstöð í hendur Bandarfkjanna og lýsa því um leið yfir, að það sé gert af frjálsum vilja, — svo að ég noti orð eins hv. þm. Sjálfstfl., Sigurðar Hlíðar, settu hnífinn á hálsinn á ríkisstj. og síðan Alþingi, þannig að menn, sem höfðu ætlað að greiða atkv. á móti þessu, eins og Sigurður Hlíðar lýsti sjálfur yfir þá, greiða atkv. með því. Með úrslitakostum er landið tekið á vald Bandaríkjanna og her landsettur hér 7. júlí, tveim dögum áður en Alþingi kemur saman 9. júlí til að samþykkja af frjálsum vilja, eins og kallað er, hervarnarsáttmálann 1941. Við skulum þess vegna, ef við ætlum að fara að tala út frá sjónarmiði Íslands um innrás á Ísland, gera það upp við okkur, hverjir það eru, sem ráðizt hafa á okkar land, og hverjir það eru, sem hafa hernumið okkar land og halda því hernumdu enn þá. Og ef hv. 1. þm. Vestf. vill sérstaklega fara að ræða um, hverjir þjóni slíkum innrásarlýð, þá er ég líka til í að ræða það.

Hvað hafa svo þessar þjóðir, sem ráðizt hafa á Ísland og tryggt hafa sér með alls konar aðferðum tök á okkar landi og herstöðvar í okkar landi, — hvað hafa svo þessar þjóðir gert? Þær hafa þar með stofnað lífi og tilveru íslenzku þjóðarinnar í hættu. Og hvað er það, sem hv. 1. þm. Vestf. með fylgi sínu við slíkt er að gera, með því að standa með því, að það séu herstöðvar m.a. í Keflavík enn í dag? Hann er að stofna lifi og tilveru Íslendinga í hættu fyrir Ameríkana. Það er ekki neinn vitihorinn maður að tala um, að hér séu einhverjar hervarnir til að verja Ísland eða Íslendinga. Hér eru hervarnir amerísks hers sem einhvers konar útpóstur fyrir þeirra hernaðarkerfi, til þess að verja Bandaríkin eða sækja fyrir þeirra hönd. Og þessi hv. þm. skirrist ekki við það af ofstækisfullri þjónkun við ameríska auðvaldið að vilja þannig stofna tilveru Íslendinga í hættu. Og svo dirfast þessir hv. þm. eins og hann að tala um það, að aðrir séu að gleyma því að vernda rétt Íslands, eignir Íslendinga og líf. Ætti þó að vera hverjum manni ljóst, að það á ekki að tala í þeim dúr, sem hann hóf hér, þegar um er að ræða þessi mál hér á Alþingi. Það er nóg að láta blöðin með sínu ofstæki þylja þess háttar lexíu. Það mætti ætlast til þess, að hér væri þó hægt að ræða þessi mál þannig, að það væru einhver rök sett fram og rædd.

Ég hef svarað hv. 1. þm. Vestf. að gefnu tilefni, og kjósi hann að halda áfram umr. á þeim grundvelli, sem hann ætlaði sér, þá er ég líka reiðubúinn til þess, þó að ég álíti, að það sé annað, sem fyrst og fremst ætti að ræða hérna. Hann fór allgeyst úr hlaði. En það er hætt við því, ef menn ríða allgeyst úr hlaði og færleikurinn er fáfræði og ofstæki, að þá kunni hestarnir að kasta mönnum af baki. Og ég er hræddur um, að það þýði ekki fyrir hann að vera að ræða þau mál, sem við þurfum að ræða nú, á þeim grundvelli, sem hann var að hasla sér hér.

Svo að við hverfum síðan að því alvörumáli, sem hér liggur fyrir, og látum hv. 1. þm. Vestf. afgreiddan, þá vil ég taka mjög undir það, sem hv. 4. landsk, þm., frsm. mínni hl. heilbr. og félmn., lagði hér áherzlu á. Afstaðan, sem við tökum nú, sem erum fulltrúar Alþb. á Alþingi, í þessum alvörumálum, er alveg sú sama og sú, sem Sósfl. tók á sínum tíma, fyrir 5 árum. Í dag er það ægilegasta ábyrgðarleysi að ætla að draga sprengjurnar í komandi kjarnorkustyrjöld að Íslandi, að ætla að nota Íslendinga sem skjöld fyrir ameríska auðvaldið, þannig að láta þá tætast í sundur fyrst í því stríði, ef amerísku auðjöfrunum og þeim, sem bezt væru geymdir þar í dýpstu og dýrustu byrgjunum, kynni að verða eitthvað þægilegra fyrir um á eftir. Og nú skulum við ræða nokkuð almennt viðvíkjandi varnarráðstöfununum fyrir almenning, það, sem kallað er almannavarnir hérna og ég vil þá fyrst af öllu bera nokkuð saman við þær loftvarnir, sem við töluðum um í síðasta stríði.

Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt nema nafnið. Það er svo ólíkt, að það er beinlínis hættulegt, ef menn hugsa enn þá í hugtökum þess stríðs. Það stríð var ægilegt, og við, sem að einhverju leyti sáum það stríð, áttum bágt með að hugsa okkur ægilegri hluti en þá. Ég lifði það sjálfur að vera í Lundúnum í einni ægilegustu eldsprengnahríðinni, sem gerð var á London, og veit ég þó, hve miklu betur London leit út og fór út úr því heldur en borgir eins og Varsjá, Dresden, Leningrad, Coventry og aðrar slíkar. Það vekur jafnvel undrun þeirra Íslendinga, sem voru ekki erlendis í stríðinu eða í stríðslok, að sjá rústir enn þá. En gera menn sér í hugarlund, hvað allt þetta sprengjumagn var, sem kastað var í síðasta stríði, ölt þessi ár? Allt þetta sprengjumagn — og meginið af því féll á Þýzkaland, — það var milli 2 og 3 megatonn, þ.e. milli 2 og 3 millj. tonn af sprengjuefninu TNT. Það var allt sprengiefnið, sem féll niður og kastað var til jarðar yfir allar borgir í allri síðustu styrjöld, og þótti manni nógu ægilegt t.d. að sjá London brenna allt í kringum sig. Og hvað var það, sem kastað var á Bretland? Allt, sem kastað var á Bretland í síðasta stríði, var 0.1 megatonn, m.ö.o. 100 þús. kg af sprengiefninu TNT.

Í dag liggur við, að menn tali um 2 megatonna sprengjur sem litlar sprengjur eða leikföng í samanburði við 20 megatonna, 50 megatonna, 100 megatonna sprengjur, og ein 2 megatonna sprengja hefur í sér falinn sprengjumátt allra þeirra sprengna, sem sprengdar voru í öllu síðasta stríði.

Þið munið þau orð, sem Einstein notaði um þessar kjarnorkusprengjur. Hann kallaði þær „leikfang djöfulsins.” Og meðan mönnum hættir við að hugsa að einhverju leyti út frá því, sem við lifðum í síðasta stríði, þá er stórhætta á ferð, lífshætta á ferð fyrir það fólk, sem við eigum að hugsa fyrir og reyna að bjarga. Ef við hugsum enn þá um sprengjur eitthvað svipað og í síðustu styrjöld, þá höfum við ekki hugmynd um, í hvers konar veröld við erum stödd. Hvað okkur Íslendinga snertir, er eitt að vísu sameiginlegt í stríði, sem kynni að koma, og í stríði, sem síðast var háð, að hættan fyrir okkur stafar fyrst og fremst af dvöl erlends hers í okkar landi. En að öðru leyti er sú styrjöld, sem kynni að koma, og sú styrjöld, sem var háð, svo gerólíkar í eðli sínu, að það er svo að segja ósambærilegt. Hvort sem Bretar eða Þjóðverjar hefðu tekið þetta land í síðasta stríði, þá hefði það að vísu gert mikinn mun á örlögum margra einstaklinga í þessu landi og í þeim hörmungum, sem yfir okkar land hefðu dunið á ýmsan máta, en í hvorugu tilfellinu hefði sú hætta vofað yfir, að íslenzkri þjóð yrði gereytt og ekkert yrði eftir af henni eftir það stríð. Hættan, sem vofir yfir okkur, er sú, að í styrjöld, sem nú brytist út, yrði þjóðinni gereytt og landið óbyggjanlegt. Og það eru ekki aðeins við Íslendingar, sem þurfum að hugsa svona mál, eins fámenn þjóð og við erum, út frá slíku sjónarmiði nú. Við vitum, að Bretar, sú stóra og volduga þjóð, þeir hugsa þetta mál út frá sama sjónarmiði. Brezkir stjórnmálamenn, í hvaða flokki sem þeir eru, gera sér ljóst, að þó að Bretar hafi í 500 ár haft mikla hagsmuni af því að heyja styrjaldir úti um öll lönd veraldar og leggja undir sig lönd og þjóðir og arðræna og skapa sér ríki, sem náði yfir 1/4 hluta jarðarinnar, ríki, þar sem sólin gekk aldrei undir, þá gera brezkir stjórnmálamenn sér ljóst, að það, sem út úr kjarnorkustyrjöld kæmi, það væri eyðing brezkrar þjóðar og óbyggilegt Bretland um alllangan tíma.

Við skulum þess vegna, þegar við ræðum þessi mál, reyna frá okkar litla leikmannsviti að gera okkur í hugarlund, hvaða vandamál það er, sem við eigum við að stríða. Það er ekki vandamálið um, hvort við höfum samúð með vesturveldum eða samúð með austurveldum, hvort við stöndum með kapítalisma eða hvort við stöndum með sósíalisma, eða einhverjir aðrir þess háttar hlutir. Það er aðeins eitt, sem hlyti að vera spurningin fyrir þá, sem Íslandi stjórna og búa Ísland undir slíkt, og það er að athuga, hvað er hægt að gera til að bjarga okkar lífi. Ég játa það, eins og ég býst við að flestir geri hér inni, að þeir hafa því miður litla hugmynd um, hvað kjarnorkustyrjöld hefði í för með sér. Það eru ákaflega mótsagnakenndar þær kenningar, sem maður heyrir í veröldinni um það. Ég hef talað við vísindamenn, sem vilja meira að segja ekki útiloka, að kjarnorkustyrjöld, sem háð væri með öllum þeim kjarnorkuvopnum, sem nú eru til og kynnu að verða til á næstu árum, gæti leitt til þess, að hnötturinn spryngi í loft upp eða þeyttist í sundur, og benda jafnvel til þess, að ekki langt frá okkur í sólkerfinu séu auð svæði af undarlegum þokum, sem gætu stafað af því, að einhvern tíma hefðu svipaðir hnettir okkar, sem þar væru, sprungið. Ég þori náttúrlega ekkert um svona hluti að segja. Ég man eftir því líka, að ég heyrði það einu sinni eða sá það einu sinni í bók, að menn hefðu einu sinni verið að hugsa um að gera tilraunir með kjarnorkusprengjur á Suðurheimskautinu. Vísindamenn hefðu ráðið frá því, vegna þess að þar mundi vera allmikið af úraníum í jörðu, þannig að það væri ekki hægt að segja, hvaða keðjuverkanir kynnu að verða við það, að úraníumsprengjur lentu á miklum úraníumnámum í jörðu. Aðrir vísindamenn segja, að það mundu ekki vera nema takmarkaðir möguleikar á eyðileggingunni, sem af slíku stafaði. Það mundi jafnvel vera meiri eyðilegging, ef kjarnorkusprengjur lentu í kjarnorkubirgðum, og erfitt að sjá fyrir, hvað af því mundi hljótast. Við höfum líka séð, að ýmsir vísindamenn vilja tengja saman meira að segja þessar kjarnorkusprengjutilraunir, sem nú eru gerðar, við jarðskjálfta og annað slíkt, sem fram hafa komið nokkru síðar. Um þetta er maður náttúrlega engan veginn dómbær, og þótt ekki væri svo ægilegt, að hnötturinn væri sprengdur hér undir okkur, þá væri hitt nógu slæmt, ef mannkyninu sjálfu væri þannig eytt, þeir, sem ekki væru drepnir, yrðu meira eða minna veikir og afkomendur þeirra vanskapaðir, þannig að mannkynið í því ástandi, sem það hefur verið síðustu árþúsundirnar eða síðustu hundrað þúsund árin, er ekki lengur til sem slíkt og sú dýrategund gæti ekki skapazt aftur á jörðinni, fyrr en afleiðingarnar af slíkum geislum og áhrifin á erfðaeiginleikana væru búin að vera.

Ég nefni þetta nú aðeins til þess, að menn geri sér betri grein fyrir því, ef það hafa ekki allir gert sér grein fyrir því, að þegar við erum að ræða um kjarnorkustyrjöld, þá erum við nútímamenn raunverulega alveg eins og börn, sem eru að leika sér með eldspýtur inni í púðurgeymslu, og við höfum ekki hugmynd um afleiðingarnar af þessu. Vísindamennirnir vara við. Sumir þeirra, sem vara við, eru hins vegar ákærðir fyrir, að það sé verið með viðvörunum að draga úr varnarmöguleikunum, hernaðaraðstöðu þeirra lands máske og annað slíkt. En hitt er gefið, að hvernig svo sem er, þá stöndum við frammi fyrir slíkum hættum í þessu sambandi, að afleiðingarnar geta verið svo ægilegar, að við erum ekki færir um að dæma um þær. Og yrði slík styrjöld háð, þá er það ekki spursmálið að mínu áliti, hvor í henni sigrar. Það kemur enginn sigurvegari úr þeirri styrjöld. Það er mannkynið sjálft, sem tapar. Þar sem eru þó til þjóðir eins og við Íslendingar erum eða höfum verið, sem höfum ekki sjálfir innbyrðis borizt á banaspjót, þá væri þó nær, að slíkar þjóðir reyndu að stuðla að því, að sú ægilega tortryggni, sem einkennir forustumenn þeirra þjóða, sem nú eru kjarnorkuvæddar, reyndu að stuðla að því, að sú tortryggni leiddi ekki til þess, að þeir færu í styrjöld hvorir við aðra, þar sem við getum ekkert annað en tapað, við Íslendingar og við mennirnir yfirleitt.

Segjum nú, að það væri of mikil bölsýni að ganga út frá því, að einhverjir svona hlutir, eins og eyðing mannkynsins eða eyðilegging, hlytust af kjarnorkustyrjöld. Segjum, að hættan væri aðeins takmörkuð. Segjum, að hættan væri einungis sú, að hvíti kynstofninn, eins og hann hefur verið kallaður, Bandaríkjamenn og Sovétríkin, færi í styrjöld sín á milli og það yrði ekki annað eyðilagt en Evrópa og N.-Ameríka og það fólk, sem þar væri. Frá mínu sjónarmiði sem sósíallsta mundi það þýða, rið eftir að auðmannastétt Evrópu á síðustu öldum hafði lagt undir sig heiminn, skipt honum upp í nýlendur, arðrænt hann og kúgað, og sér það nú, að hún heldur ekki lengur þessum völdum í heiminum, þá kysi þessi suðmannastétt heldur að fara í kjarnorkustyrjöld og draga allan hvíta kynstofninn í gröfina með sér, heldur en að láta friðsamlega skera úr því, hvaða þjóðfélagsskipulag skuli verða ofan á í heiminum. Segjum, að hættan væri nú einungis sú, að þessar tvær þjóðir, að þessi tvö stórveldi færu í styrjöld sín á milli. Hver er spurningin, sem þá liggur fyrir okkur hér heima? Er þá spurningin, sem liggur fyrir okkur, sú, hvor sigrar í þessari styrjöld? Eigum við að leggja þjóðina á vogarskál í því, ef hún gæti orðið pínulítið peð, og fórna henni þar með, ef það gæti seinkað nokkur augnablik einhverjum sprengjum, sem annars lentu máske til Washington? Eða er hitt spurningin, sem liggur fyrir okkur: Hvernig getum við bjargað okkar þjóð út úr því að lenda í þessum ragnarökum?

Ef menn lenda í kjarnorkustyrjöld og kjarnorkusprengjum er kastað á þeirra svæði, þá býst ég við, að það sé niðurstaða sérfræðinga, að í bezta falli væri það ekki nema 20% af þjóðinni, sem færist, með albeztu almannavörnum og öðru slíku, en það gæti farið upp í 90%, ef illa tekst til. En jafnvel enn hörmulegra en það, sem ferst í stríðinu, er þó fyrir fjöldann af þeim, sem lifa af, til að byrja með, meira eða mínna geislavirkir og sjúkir og öll fæða, öll lífsgæði meira eða minna spillt og geislavirk og baráttan um lífsgæðin, um möguleikann til þess að geta lifað, til þess að tóra áfram af því litla, sem til er, svo hörð, að sérfræðingar á þessum sviðum orða það svo, að því fleiri sem lifi af sprengjurnar, því hörmulegra verði ástandið eftir á.

Ég held, að það geti ekki verið neitt spursmál, þegar við stöndum frammi fyrir spurningunni um kjarnorkustyrjöld, að við skulum gera okkur ljóst, að hún verður því ægilegrí, því seinna sem hún skellur á, ef kapphlaupíð heldur áfram, eins og núna er.

Ég held, að eina spurningin, sem lögð sé fyrir okkur sem þingmenn, sé sú: Hvernig getum við reynt að forða því, að Ísland lendi í svona stríði og fólkið verði fyrir þessum hörmangum? Þess vegna verður alltaf fyrsta spursmálið í þessu: Út frá hvaða sjónarmiði eigum við að hugsa varnir fyrir almenning á Íslandi? Eigum við að hugsa það út frá því sjónarmiði að taka þátt í stríði vegna eins aðila, eins og t.d. Bandaríkja N.-Ameríku, eða eigum við að hugsa það út frá því að reyna að verja þjóðina fjörtjóni? Það, sem verður að gera alveg ljóst í þessu sambandi, er, að í stríðsþátttöku er engin vörn, og það er ægilegasta blekking að leyfa sér að halda slíku fram. Í stríðsþátttöku er engin vörn. Það þýðir aðeins að leiða hörmungarnar yfir okkur.

Þess vegna álít ég, að fyrsta spurningin í sambandi við þessi mál sé að reyna að losna undan því að lenda í stríði, það hljóti að vera fyrsta spursmálið, sem við verðum að ræða, hvar svo sem við höfum annars samúð með þeim aðilum, sem eru að berjast. Hvað getum við gert til að lenda ekki í stríði? Ég vil taka það greinilega fram, að ef hér er NATO-herstöð, þá erum við náttúrlega komnir inn í stríð, um leið og það er hafið. Herstöð hér á Íslandi er þess vegna fyrsta hættan. Það fyrsta, sem verður að gera til almannavarna á Íslandi, er að fjarlægja herstöðina.

Þá er komið að því spursmáli, þótt við yrðum nú sammála um það eftir að hafa rætt þessi mál, án þess að ræða þau bara með svo að segja pólitískt fylgi, hvernig stefnir í heiminum, fyrir sugum, — ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu, þá veit ég, að spurningin, sem þeir, sem eru fylgjandi Atlantshafsbandalaginu, mundu leggja fyrir, yrði þessi: En verður þá ekki Ísland tekið undireins og víð lendum í styrjöld? Ég vil segja mína skoðun á því efni. Ég vil taka það fram, að það er mín persónulega skoðun. Ég hef ekki borið hana undir minn flokk. Ég lýsti því hér áðan, að ég áliti, og ég held, að það sé álit ákaflega margra sérfræðinga í þessum efnum, að ægilegustu hörmungarnar, sem yfir dynja í komandi styrjöld, dynji yfir á fyrstu mínútum, fyrstu klukkustundum, fyrstu dögum hennar, á meðan báðir aðilar reyna að skjóta sínum eldflaugum á þær stöðvar, sem þeir álita hættulegastar og þýðingarmest að eyðileggja. Ef maður er a.m.k. ekki í stríðinu í byrjun, þannig að hér sé engin herstöð, hér sé ekkert að eyðileggja þannig, þá er ekki að mínu áliti hætta á, að við verðum fyrir þessum skelli, þessum ægilega skelli, sem hlyti að verða voðalegasti skellurinn, sem þeir fá, sem í styrjöldinni eru eða í hana dragast. Þá veit ég, að þeir, sem fylgja Atlantshafsbandalaginu, munu svara: Já, en þetta þýðir þá, að Rússar taki Ísland. — Er það sérstaklega líklegt, að Sovétríkin, ef þau ættu í svona styrjöld við Bandaríkin, mundu alveg sérstaklega fara að leggja upp úr því að taka Ísland? Ef einhverjir tækju Ísland, er þá ekki nokkurn veginn alveg gefið, að þeir aðilar, sem hafa á sínu valdi Noreg, Finnland, og svo Bandaríkin og Grænland, þeir standa bezt að vígi með að taka Ísland undireins, ef þeir kæra sig um það. Ég held þess vegna, að það sé alveg spursmálslaust, það lítið sem ég hef lesið af því, sem menn eru að bollaleggja um herhreyfingar í kjarnorkustyrjöld, þá sýnist mér það fyrst og fremst vera Vestur-Þýzkaland eða Vestur-Evrópa, sem gengið yrði út frá að marsérað yrði inn yfir. A.m.k. var það í þeirri hernaðaráætlun, sem vestur-þýzki herinn byggði á í sínum síðustu heræfingum og eitt frægt vestur-þýzkt blað, Der Spiegel, var nýlega að segja frá, þannig að ég held, að það sé alveg fráleitt af mönnum að vera að setja það fyrir sig, að slíkt svokallað varnarleysi Íslands yrði Sovéthernum að sérstöku gagni þannig. Tvímælalaust standa Bandaríkja- og bandamannaherirnir betur að vígi til að taka Ísland. Hins vegar er gefið, að við Íslendingar, ef við værum komnir að þeirri niðurstöðu, að við vildum reyna að forða okkur út úr stríðinu, þá höfum við náttúrlega hagsmuni af því að reyna að skapa sem minnstan áhuga fyrir Íslandi hjá hernaðaraðilum. Það þýðir, að það, sem nothæft væri á Íslandi, sérstaklega í fyrstu atrennu, það þyrfti að mínu áliti að eyðileggja. Ég álít, og ég hef sagt það oftar, þó að ég hafi hvergi fengið neinar undirtektir undir það, — ég álit, að það ætti að vera búið að setja sprengjur á Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, og um leið og við vissum, að stríð væri að hefjast, þá gereyðilegðum við alla þessa velli. Og ef við reyndum að afla okkur vitneskju um þessa hluti, ef við hefðum hugmynd um aðra hluti hér á Íslandi, sem væru sérstaklega mikilvægir fyrir hernaðaraðilana, þá á að reyna, eins og við getum, að eyðileggja það, til þess að það séu sem allra minnstar líkur, að hernaðaraðilarnir gætu haft eitthvert verulegt gagn af því að taka Ísland í skyndi á sitt vald.

Ég er ekki viss um, að það væru margar aðrar ráðstafanir, sem hægt væri að gera í þessum efnum, en að mínu áliti ættu þær allar að miðast við að reyna að sjá um, að eitthvað af fólki yrði hér lifandi, hvernig sem færi.

Ef við hefðum gert það, sem við getum, til þess á þennan hátt að forða Íslandi út úr því að verða fyrir barðinu á hernaðaraðilunum í fyrstu átökunum, sökum þess að þeir hefðu enga hagsmuni af því, þá kæmi að því næsta hjá okkur, sem væri spurningin um að reyna þó, ef svo færi, að Ísland samt yrði tekið og samt yrði reynt að fara að búa til velli hér í staðinn fyrir þá, sem við hefðum eyðilagt, og annað slíkt og fara að reyna að nota okkar land, t.d. nota Hvalfjörð og annað slíkt, þá væri spursmálið, hvað við gætum gert. Ég álít, að hvað snertir fólkið, sem hér býr í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, sem er yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga og yrði mest útsettur fyrir hætturnar, þá ættum við fyrst af öllu að undirbúa brottflutning þessa fólks, og sæjum við það t.d., að einhverjir aðilar kæmu hér og tækju þennan part af þessu landi, þá þurfum við að reyna að flytja helzt allt þetta fólk í burtu. Við skulum gera okkur ljóst, að það er um lif alls þessa fólks að tefla. Ég álít það sjálfsblekkingu, ef við hefðum dregizt inn í stríð, að það lifi nokkuð verulegt af fólki, sem hér væri í Reykjavík eða Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ég held, að við eigum ekki að reikna með því. Ég tók eftir því, að í því, sem Holtermann hershöfðingi sagði og hv. 4. landsk. lagði sérstaka áherzlu á, talaði hann sérstaklega um, að það þyrfti að undirbúa brottflutning fólks úr Reykjavík á ófriðartímum. Og hann segir: Hve mikinn hluta íbúanna ætti að flytja þannig á brott, er undir því komið, hve mörgum er hægt að útvega samastað á þeim svæðum, sem ætlað er að taka við fólkinu. — Og sannleikurinn er, að ég býst við því, að hver sérfræðingur í þessum málum segi við okkur: Þið eigið að flytja allt fólkið í burtu. — Spurningin stendur ekki, ef við drögumst inn í svona stríð, um að viðhalda einhverjum atvinnurekstri. Ég tala ekki um, að einhver eigi að verða eftir til þess að hjúkra öðrum eða eitthvað þess háttar. Það er bara ein spurning, sem er orðin til, eftir að við erum komnir inn í svona stríð, og það er einhvern veginn að lifa, einhvern veginn að tóra, hvað frumstætt sem það er. Vafalaust mundi okkur þykja það hafa verið gósentími, sem hér var lifað á Skaftáreldatímanum, móts við það, sem við ættum eftir að reyna, þeir sem kynnu að lifa af, ef landið dregst út í kjarnorkustyrjöld.

Ég vil segja það, að ef við gætum gengið út frá tvennu sem vissu í dag, í fyrsta lagi, að það yrði kjarnorkustyrjöld, í öðru lagi, að herstöðvarnar yrðu á Íslandi, þá eiga íslenzk stjórnarvöld að byrja strax í dag að skipuleggja alla byggð á Íslandi burt frá Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, bókstaflega að byrja að byggja landið og miða atvinnutækin við það, að hér verði öllu gereytt, að hér verði ekki byggilegt, en það sé þó einhver von frekar á hinum stöðunum. Nú er ég ekki bjartsýnn á möguleikana í sambandi við almannavarnir og kjarnorkustyrjöld. Ég veit ósköp vel, að við Íslendingar erum yfirleitt litlir skipuleggjendur. Við skulum líta til þeirrar þjóðar, sem er einhver bezti skipuleggjandi í Evrópu, Þjóðverja, og við skulum sjá niðurstöðurnar af þeirra heræfingum í haust. Þjóð, sem er framúrskarandi í því að skipuleggja, og þjóð, sem er uppalin í því að vera einhver mesta hernaðarþjóð í Evrópu, hver er niðurstaðan af hennar eigin heræfingum í þessum efnum. Hún er, að þar fari allt á ringulreið, m.a. um hjálp hvað snertir sjúkralið og annað slíkt.

Það, sem við skulum reyna að athuga í þessu sambandi, er, hvernig sé hægt að koma einhverju fólki burt og hvernig sé hægt að útvega því eitthvað til að borða. Það verður spursmálið, ef Íslendingar koma inn í kjarnorkustyrjöld. í síðustu styrjöld gátu menn rekið nokkra normala atvinnuvegi og annað slíkt, það var hægt að halda áfram. Sama fólkið, sem vann í verksmiðjunum á daginn, það var við að slökkva eldinn í þessum verksmiðjum á nóttunni og byrjaði að vinna þar áfram daginn eftir. Það er þess vegna fyrst og fremst viss aðstaða, sem þyrfti að skapa sérstaklega alls staðar úti um land gagnvart hættunni af geislavirkni og geislaryki, og aðstaða til þess að geta fætt þar allmikið af fólki, og hins vegar aðstaða til þess að geta flutt það fólk burt héðan. Og ég vil minna á, að hér í Reykjavík og á Reykjanesskaganum, — ætli að það séu ekki upp undir 20 þús. bílar hér, það væri jafnvel hægt að flytja bara með einni bilferð hvers bíls, ef það væri skipulagt fullkomlega, svo að segja allt fólkið héðan burt í einu.

Hins vegar tek ég greinilega eftir því í áliti Holtermanns, að hugsunin, sem þarna er, hún er fyrst og fremst sú, þó að hann tali um, að það væri gott að geta flutt fólk burt úr Reykjavik og annað slíkt, þá verður fyrst og fremst að hugsa út frá því sjónarmiði að geta haldið áfram að berjast. Það er talað um, að almannavarnastjórinn verði vegna viðvörunar og af öðrum ástæðum að hafa beint samband við heryfirvöld bandamanna. Og það er greinilegt, að þessar hugmyndir, sem hérna er byggt á, frá þessum sérfræðingum, sem standa líka í þjónustu Atlantshafsbandalagsins, held ég, eða ríkja, sem í því eru, - þessar hugmyndir eru allar hugsaðar út frá því, að það verður að reyna að gera það tryggt, að eitthvað af fólki geti lifað af á Íslandi, t.d. ríkisstjórnin og einhverjir góðir þingmenn og almannavarnastjórinn, og þeir geti haft samband við heryfirvöld bandamanna. Það væri auðvitað gott, ef eitthvað af blessuðu fólkinu gæti lifað líka, meina þeir. Við erum þegar búin að fá að sjá bara í sambandi við heræfingarnar þýzku núna, hvernig þeir hlutir munu vera. Og allt, sem þessir sérfræðingar segja, sannar fyrst og fremst eitt, að hættan stafar af herstöðvunum.

Það, sem ég álít að við hefðum þurft fyrst og fremst að gera okkur grein fyrir í sambandi við, hvað við gætum gert til þess að reyna að tryggja, að eitthvað af Íslendingum lifði af, það er að fá sérfræðinga í þessum efnum til þess að segja okkur alveg satt og rétt um, hvað þeir álita að hér yrði, ef hér væru engar herstöðvar, og hvernig við höguðum okkar svokölluðu almannavörnum bezt, ef við ættum að reyna að forðast afleiðingar styrjaldar, án þess að herstöðvar væru á Íslandi sjálfu og án þess að við drægjumst a.m.k. inn í fyrstu daga þessarar styrjaldar. Þetta held ég, að hefði verið æskilegt að láta rannsaka vei í þessu sambandi. Hervarnir svokallaðar og almannavarnir á Íslandi eru algerar andstæður. Það, sem við eigum að reyna að hugsa um, er að reyna að skapa að einhverju leyti almannavarnir fyrir Íslendinga, þannig að þeir gætu máske lifað næstu styrjöld af, en ekki að hugsa um að skapa hér hervarnir fyrir Bandaríkin og fórna Íslendingum fyrir það. Þetta tvennt: að hugsa um lif íslenzku þjóðarinnar og hvernig henni reiði bezt af í komandi styrjöld, það fær ekki samrýmzt því að ætla að nota Ísland sem ofur litinn skjöld fyrir ameríska auðvaldið, ef til styrjaldar skyldi koma, og fórna Íslendingum fyrir það.