18.03.1963
Efri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

147. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og getið hefur verið um við fyrri umr. um þetta mál, hefur menntmn. haft sérstaklega til athugunar ákvæði frv. í 11, og 12. gr., um heimild til að tvígrafa í sömu gröf, og einnig hefur n. haft til athugunar milli umr. ábendingar og athugasemdir, sem fram hafa komið við fyrri umr. um málið. Að lokinni þeirri athugun flytur menntmn. brtt. við frv. á þskj. 387. Ég mun stuttlega gera grein fyrir brtt.

1. brtt. er við 2. gr. frv., um, að hún orðist svo sem þar segir. En breytingin er í því fólgin, að fellt er niður ákvæði um heimild til handa sóknarnefnd til að taka legkaup fyrir þá, sem teljast til annars trúfélags en þjóðkirkjunnar eða eiga heimili utan sóknar, enda hafi þeir eigi áður tryggt sér leg. Í núgildandi lögum um kirkjugarða er heimild til þess að taka legkaup, en það hefur ekki unnizt tími til þess fyrir nefndina að ganga úr skugga um, hve mikið sú heimild hafi verið notuð eða hve miklu hún kunni að hafa skipt fjárhag einstakra kirkjugarða, og er það þó ætlun okkar, að það hafi ekki numið neinum verulegum fjárhæðum. Hér í Reykjavík er legkaup tekið að vísu, að mér er tjáð, fyrir alla án tillits til búsetu eða til hvaða trúfélags þeir teljast, og nemur hér mjög óverulegri upphæð. Þá er einnig á það að líta, að í frv. er stórrýmkuð heimild til gjaldheimtu í kirkjugarðsgjöldum, og þótti n. þá eðlilegt að fella niður þetta ákvæði í 2. gr. Má einnig minnast á, að það virðist vera heldur óeðlilegt, að legkaup megi taka fyrir þá, sem teljast til annars trúfélags, þótt í sókninni séu búsettir, en eigi ekki að innheimtast vegna þeirra, sem hafa tilheyrt þjóðkirkjunni.

Þá er 2. brtt. n. við 11. gr. Ákvæði 11. gr. um það, hvernig til skuli haga, ef tvígrafa eigi, eru svo óljós, að n. sýndist full ástæða til þess að kveða skýrt á um það, hvernig haga skuli til, ef tvígrafa á í sömu gröf. Brtt. á þskj. 387 tekur af öll tvímæli um það, að tvígrafið verði ekki í sömu gröf, nema því aðeins að þess sé óskað, fyrst og fremst af vandamönnum þess, er grafa á í síðara sinnið í gröfina, og með samþykki vandamanna þess, sem þar v ar áður grafinn. Þessi brtt. snertir ekki önnur atriði í 11. gr. en þessi.

Þá er 3. brtt., við 1.2. gr., 2. málsgr., að þar skuli falla niður orðin „á meðan búsett eru í sókninni“. Sýndist n., að nokkuð væri hart að gengið, ef fjölskylda hefur tryggt sér leg í ákveðinni sókn, að þá falli sá réttur niður, þegar börn og kjörbörn flytja burt úr sókninni.

Þá er loks 4. brtt., sem er við 28. gr. og er varðandi heimagrafreiti. N. leggur til, að 3. málsgr. þeirrar greinar falli niður, og það mundi þá, ef samþ. verður, þýða það, að heimagrafreitir, sem þegar hafa verið upp teknir, yrðu notaðir áfram með þeim takmörkunum, sem hafa verið settar í því leyfisbréfi, sem á sínum tíma hefur verið gefið út til þess að taka upp grafreitinn og um notkun á honum.

Fleiri atriði held ég, að ekki hafi verið, sem ástæða er til að minnast á að svo stöddu.