10.04.1963
Neðri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

147. mál, kirkjugarðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um þetta mál. Ég skal aðeins benda á, að það er engin sanngirni í því að banna heimagrafreiti, þar sem fólk getur haft tækifæri til þess að hugsa um þá og hlúa að beim, svo og að banna, að fólk geti afmarkað legstað ættingja sinna .í kirkjugarði og hlúð að þeim þar, eins og gert hefur verið. En það er þó ein meinabót í þessu frv., og það er ég viss um, að það verður notað mjög mikið, og það er í sambandi við 31. gr. Þar eru þó viðurlög við broti ekki sett nema 500 kr. Það getur verið að þetta sé nýr skattstofn hjá hæstv. ríkisstj. fyrir ríkissjóð, en ég er alveg viss um, að miklu meiri fjöldi en við höfum hugmynd um í dag mun nota sér það að greiða heldur til ríkissjóðs 500 kr. og brjóta þessa löggjöf hvað það snertir, að þeir ráði, hvar sínar leifar verði. Og í trausti þess, að svo verði, þó að þetta frv. verði samþ., þá kunna þó margir að sætta sig við það, þegar þeir hafa þessar útgöngudyr.