09.04.1963
Efri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

241. mál, makaskipti á landspildum í landi jarðanna Laugardalshóla og Miðdalskots

Flm. (Sigurður b. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér er til 1. umr., er um það að heimila ríkisstj. að hafa makaskipti á landspildu úr landi jarðarinnar Laugardalshóla og spildu úr landi ríkisjarðarinnar Miðdalskots í Laugardalshreppi í Árnessýslu. Þetta frv. er flutt í samráði við jarðeignadeild ríkisins, eða það hefur verið haft samráð við jarðeignadeildina, og hefur verið nokkuð rætt um þetta nokkurn tíma. En þannig er mál með vexti, að Valtýr Guðmundsson, sem um langt árabil bjó í Miðdalskoti, keypti á búskapartíð sinni landspildu að stærð 21/2 hektara úr landi Laugardalshóla, sem lá að landi Miðdalskots, og hefur hann fyrir löngu fullræktað land þetta til túns, og er það innan girðingar Miðdalskotslands. Þetta land vill Valtýr láta af hendi við jarðeignadeild ríkisins, en hann hefur nú hætt ábúð á Miðdalskoti, og óskar að fá það greitt með óræktaðri landspildu úr Miðdalskotslandi, þar sem það liggur að Miðdalslandi. Þarna er ekki um jarðarsölu að ræða, heldur að Valtýr Guðmundsson, sem bjó í mörg ár í Miðdalskoti og keypti þarna 21/2 hektara og ræktaði og gerði að túni, óskar að láta það af hendi og fá annað óræktað land úr landi jarðarinnar í staðinn.

Það orkaði nokkurra tvímæla, hvort um þetta þyrfti lagalega heimild, þar sem þarna var ekki um neina sölu að ræða, heldur makaskipti á litlum jarðaspildum, mátti segja, innan sömu jarðarinnar. En það fór nú samt svo, að jarðeignadeild ríkisins áleit, að það væri öruggara að fá lagaheimild fyrir þessum makaskiptum.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að ég þurfi að hafa öllu fleiri orð um þetta. Þetta virðist vera hagkvæmt. Hinn nýi ábúandi fær þarna 21/2 hektara af ræktuðu túni, sem kemur til þess að fylgja ríkisjörðinni Miðdalskoti, en aftur verður látin nokkur landspilda í staðinn fyrir þetta af óræktuðu landi jarðarinnar. Þetta virðist vera hagkvæmt fyrir báða. Valtýr, sem lengi bjó myndarbúi í Miðdalskoti, hefur hugsað sér að byggja sér sumarbústað á þessum stað, sem hann óskar að fá í staðinn fyrir hið ræktaða land sitt, og er það heldur heppilegri staður til bygginga, enda betra fyrir jörðina sjálfa að láta óræktað land undir sumarbústað heldur en ræktað tún.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að þessu litla frv. sé að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.