18.04.1963
Efri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

245. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. í samráði við hæstv. fjmrh., og standa allir nm. að baki þessa frv.

Með l. um tekjustofna sveitarfélaga frá 28. apríl 1962 voru gerðar breytingar á eldri álagningarreglum á þann veg, að á atvinnurekstur var einungis heimilað að leggja í einu sveitarfélagi, hvort heldur sá atvinnurekstur var rekinn af félagi eða einstaklingi. Reglurnar voru þær, að ef einstaklingur hafði atvinnurekstur um hönd, þá skyldi leggja á tekjuútsvar þar, sem einstaklingurinn átti lögheimili, en ef um félagsrekstur var að ræða, þá skyldi leggja á tekjuútsvar í því sveitarfélagi, þar sem aðalstarfsemi fyrirtækisins fór fram.

Það hefur sýnt sig í reynd, að breytingarnar í þessu efni hafa í ýmsum tilfellum reynzt ósanngjarnar, þar sem ýmis sveitarfélög, sem áður samkv. gömlu útsvarslögunum áttu þess kost að leggja tekjuútsvör á atvinnurekstur hvert á sínum stað, missa nú algerlega álagningarréttinn að þessu leyti. Reynslan hefur því sýnt, að þessar breytingar, sem urðu með l. um tekjustofna sveitarfélaga, að því er þessi atriði snertir, hafa ekki orðið alls kostar til bóta, og þess vegna hefur það sýnt sig, að nauðsynlegt er að gera þarna nokkra leiðréttingu á.

Menn hafa haft nokkuð skiptar skoðanir á því, á hvern hátt væri bezt að lagfæra þetta, en þetta frv., sem hér liggur fyrir og er til 1. umr., er í rauninni í grundvallaratriðum samið af ráðuneytisstjóra félmrn., er fjallar sem ráðuneytisstjóri um tekjustofna sveitarfélaga, og að höfðu samráði við ríkisskattstjórann, þannig að þetta frv. er í aðalatriðum samið af þeim manni, sem var formaður þeirrar n., sem undirbjó löggjöfina um tekjustofna sveitarfélaga.

Ég þarf ekki að fara ýtarlega út í þau tilfelli, sem hafa orðið orsök þess, að leiðréttinga hefur verið leitað. Það hefur verið t.d. nefnd útsvarsálagning á starfsemi Sambands ísl. samvinnufélaga á Akureyri, og það hefur verið nefnd tekjuútsvarsálagning á síldarsaltendur fyrir norðan land og nustan sem dæmi um það, þar sem þessi nýju lög um tekjustofna sveitarfélaga höfðu mjög óréttlátar afleiðingar og nauðsynlegt var að gera leiðréttingar á.

Aðalefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, kemur fram í 2. tölul. d-liðar 1. gr. og svo undir e-liðnum, en í þessum 2. tölul. d-liðar segir, að ef útsvarsgjaldandi rekur atvinnustöð utan lögheimilissveitar eða í fleiri en einu sveitarfélagi, skal skipta útsvari, sem lagt er á tekjur, milli hlutaðeigandi sveitarfélaga svo sem hér segir: Útsvari skal skipt á milli sveitarfélaganna miðað við verðmæti framleiddrar vöru eða veittrar þjónustu, viðskiptaveltu, starfsmannafjölda, nýtingu fastafjármuna og annað, sem skipt getur máli. Ráðh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skiptingu útsvara samkvæmt þessum tölulið.

Þessar reglur um skiptinguna eru hér ekki svo skýrar, að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, ef þetta verður að lögum, að ráðh. setji reglugerð, sem kveði nánar á um þetta. Með atvinnustöð í þessum lið frv. er t.d. átt við fiskverkunarstöð, síldarsöltun og annað slíkt, en það þarf ekki að vera heimilisföst atvinnustofnun, eins og gerð var krafa til eftir gömlu útsvarslögunum.

Þá segir enn fremur í e-lið 1. gr., að sveitarfélag, þar sem útsvar er á lagt, hlýtur aldrei minna en 1/4 hluta af útsvari, sem skipt er samkv. d-lið 2, og eigi verður útsvari þá skipt, nema í hlut sveitarfélagsins, er skiptikröfu gerir, komi a.m.k. 25 þús. kr. Þó má fjárhæðin lægri vera, ef hún eigi að síður nemur a.m.k. 5% af heildarútsvörum þess sveitarfélags, er kröfuna gerir.

Þarna er það sérstök grundvallarregla, að það sveitarfélag, sem útsvarið leggur á; skal aldrei hljóta minna en 1/4 hluta af útsvarinu, sem skipt er, þannig að sveitarfélag, sem skiptikröfuna gerir, getur sem algert hámark fengið 3/4 hluta útsvarsins. Þá á ekki heldur að skipta útsvari, nema í hlut þess sveitarfélags, sem gerir kröfuna, komi a.m.k. 25 þús. kr. Þetta er gert til þess, að útsvarsskipti eigi sér einvörðungu stað þar, sem um verulegar fjárhæðir er að ræða, en það sé ekki verið að tína til smáupphæðir, sem er bæði mikil fyrirhöfn að skipta á milli sveitarfélaga og þar yrði þá í flestum tilfellum um svo lágar fjárhæðir að ræða, að það drægi sveitarfélögin ekki neitt. En undantekning er þó gerð á þessu, sem fyrst og fremst mundi snerta hin allra fámennustu og smæstu sveitarfélög, að þá má upphæðin vera lægri en 25 þús. kr., ef hún eigi að síður nemur a.m.k. 5% af heildarútsvörum þess sveitarfélags, sem kröfuna gerir.

Þá er enn fremur sagt í framhaldi af þessu, að tekjuútsvari aðila, sem jafnframt greiða landsútsvar, skuli ekki skipt, en þeir einu aðilar, sem greiða tekjuútsvar og jafnframt landsútsvar, eru olíufélögin. Að sjálfsögðu mundi, þó að þetta væri ekki sett, í mörgum tilfellum ekki vera hægt að skipta tekjuútsvari olíufélags vegna ákvæðanna um 25 þús. kr. lágmarkið.

Ég vil svo að lokum leggja áherzlu á það, að með þeim aðilum, sem hafa áhuga á að leiðrétta lögin um tekjustofna sveitarfélaga í þessu efni, sem ég hér hef rætt um, og koma þar m.a. til móts við samþykkt fulltrúafundar kaupstaðanna á Vestur-, Norður- og Austurlandi, sem haldinn var á Húsavík dagana 17. —19. sept., sem sendi Alþingi áskorun út af þessu máli, þá hefur með þeim mönnum, sem hér hafa hagsmuna að gæta, tekizt fullt samkomulag um það, hvernig eðlilegast sé að leysa þetta mál með þessu frv:, sem hér er lagt fyrir, og þar sem nú er orðið mjög áliðið þingtímans, þá vildi ég óska þess, að þetta frv. fengi skjóta fyrirgreiðslu og skjóta afgreiðslu í þessari hv. deild.